Drífa Viðar Sjálfsmynd frá um 1945. „Í konumyndunum kallast Drífa iðulega á við þær Nínu og Louisu í útlistun sinni,“ segir Aðalsteinn Ingólfsson.
Drífa Viðar Sjálfsmynd frá um 1945. „Í konumyndunum kallast Drífa iðulega á við þær Nínu og Louisu í útlistun sinni,“ segir Aðalsteinn Ingólfsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hin síðari ár hefur skammtímaminnið verið einn af fylgifiskum myndlistarinnar. Og þegar svo er komið að nýútskrifaðar íslenskar listaspírur þekkja ekki til fimmtugra myndlistarmanna með álnalanga ferilskrá, er ekki nema von að einhverjir hvái þegar nafn Drífu Viðar ber á góma.

Eftir Aðalstein Ingólfsson

adalart@mmedia.is

Drífa Viðar er aldrei nefnd í tengslum við þær hræringar sem áttu sér stað í íslenskri myndlist á árunum um og eftir stríð, myndir hennar sjást ekki á yfirlitssýningum safnanna og ef flett er upp í heimildasafni Listasafns Íslands er afraksturinn einungis eitt lítið boðskort á yfirlitssýningu á verkum listakonunnar, sem haldin var að henni látinni árið 1975. Í Listasafninu er að finna eitt málverk eftir hana, keypt 1971, sama ár og hún lést.

Þó var náms-og listferill Drífu bæði litríkur og óvenjulegur; til að mynda var hún í læri hjá Morris Kantor í Art Students League samtímis þeim Nínu Tryggvadóttur og Louisu Matthíasdóttur, síðar hjá Amadée Ozenfant, öðrum af tveimur guðfeðrum hreinstefnunnar (púrismans) í New York 1943-44 (hinn var að sjálfsögðu Le Corbusier), og í kjölfarið var hún í skóla Hans Hofmanns ásamt Nínu og Louisu. Eftir ársdvöl heima á Íslandi hélt Drífa síðan til Parísar þar sem hún gekk til Fernands Légers. Þótt Drífu tækist ekki að ávaxta sitt listræna pund í viðlíka mæli og áðurnefndar stallsystur hennar, þá er sú þróun sem átti sér stað í myndlist hennar framan af að mörgu leyti sambærileg við það sem við sjáum gerast í verkum hinna tveggja. Því er brýnt að taka til endurskoðunar þá mynd sem dregin hefur verið upp af tvíeykinu Nínu og Louisu í New York og fella inn í hana frásögn af myndlist Drífu, „þriðju listakonunnar“ í heimsborginni.

Drífa Viðar var fædd í Reykjavík 1920, dóttir Einars Viðar Indriðasonar og Katrínar Viðar. Faðir hennar féll frá þegar hún var barn að aldri og ólst hún upp hjá einstæðri móður ásamt systur sinni Jórunni, síðar tónskáldi. Katrín Viðar var píanókennari og vandi þær systur við tónlist. Þær léku dável á píanó og margir tónlistarmenn, rithöfundar og myndlistarmenn voru heimilisvinir þeirra. Drífa hneygðist snemma til ritstarfa og myndlistariðkunar, en lét það ekki aftra sér frá því að ganga menntaveginn. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1938 og kennaraprófi frá Kennaraskólanum ári síðar. Að því loknu hóf hún íslenskunám við Háskóla Íslands hjá Sigurði Nordal, en lauk ekki prófi.

Listakonur í deiglunni

Myndlistaráhugi Drífu vaknaði fyrir alvöru eftir stúdentspróf og má leiða að því líkur að sú mikla gerjun sem varð í íslenskri myndlist í lok fjórða áratugarins, og meðfylgjandi umræða í blöðum og tímaritum, hafi haft þar einhver áhrif. Einn af þeim sem þá stóð í eldlínunni var Jón Þorleifsson, listmálari og gagnrýnandi Morgunblaðsins til nokkurra ára, og leitaði Drífa til hans um tilsögn í myndlist. Jón hafði dvalið í París og fengið þar innsýn í formhyggju og litakenningar frönsku módernistanna, og kemur hvorttveggja fram í varfærnislegum manna- og landslagsmyndum hans. Við vitum ekki hversu ítarlega Jón skólaði Drífu, en alltént var hún í læri hjá honum um tveggja ára skeið og talaði ævinlega um hann af virðingu. Við upphaf síðari heimstyrjaldar sneru síðan heim ýmsir listamenn sem dvalið höfðu úti í löndum um árabil og jók það enn á fjölbreytni listalífsins í Reykjavík. Meðal þeirra voru Þorvaldur Skúlason, Jón Engilberts, Nína Tryggvadóttir og Louisa Matthíasdóttir. Tímabilið 1939-43 rak hver merkisatburðurinn annan; Handíða-og myndlistaskólinn tók til starfa, Þorvaldur og Kjarval héldu tímamótasýningar, og deilur listamanna og Jónasar Jónssonar frá Hriflu, eins áhrifamesta stjórnmálamanns á landinu, náðu hámarki með eins konar allsherjarþingi íslenskra listamanna árið 1942, þar sem viðhorf Jónasar voru kveðin niður og ályktað var um stofnun listasafns fyrir þjóðina.

Ekkert af þessu getur hafa farið framhjá Drífu, né heldur tvær ungar konur á síðbuxum á fleygiferð um Reykjavík með striga, staffelí og jafnvel gítar undir handleggjum, milli þess sem þær héldu vinum sínum selskap í garðhúsi í miðbænum. Þetta voru þær Nína og Louisa, sprenglærðar í myndlist frá Danmörku og Frakklandi. Enn sem komið er vitum við fremur lítið um samskipti þessara þriggja kvenna í Reykjavík, en sú staðreynd að þær fóru allar til Bandaríkjanna um svipað leyti, Louisa um haustið 1942 og Nína og Drífa 1943, og innrituðust þar í sama skólann, Art Students League, bendir til þess að þær hafi náð að kynnast hér heima. Víst er að þær héldu hópinn þegar til New York kom, a.m.k. framan af; bréf Nínu til Erlends í Unuhúsi votta um reglulegan samgang þeirra og á sögulegri ljósmynd sem tekin var í New York árið 1944 má sjá allar þrjár í samkvæmi með listmálurunum Leland Bell, síðar eiginmanni Louisu, Robert de Niro eldra, Virginiu Admiral, Al Kresch og fleirum. Í samtölum við Jórunni systur sína hafði Drífa orð á því að oftast hefði Nína farið fyrir þeim þremur og haft afdráttarlausari skoðanir á myndlist og mannlífi en þær stallsystur hennar, enda var hún þeirra elst.

Líklegt er að upp úr 1944 hafi eitthvað dregið úr samskiptum þeirra; Louisa hafði þá kynnst Leland Bell, Nína var farin að umgangast bandarískt listafólk í æ ríkara mæli og Drífa átti sér eigin kunningjahóp. Á sjötta áratugnum skildu leiðir að mestu, en þá höfðu þessar þrjár listakonur komið sér fyrir sitt í hverju landinu, Louisa í Bandaríkjunum, Nína í Frakklandi og Drífa á Íslandi.

Boldangskonur og fljótariss

Tímabilið í New York hafði mótandi áhrif á þær allar, en mismikið þó. Eins og áður er nefnt voru Nína og Louisa gagnmenntaðar í myndlist þegar þær sigldu vestur um haf og dvölin þar gerði tæpast annað en staðfesta fyrir þeim þá módernísku listsýn sem þær höfðu þegar tekið inn á sig í París og Kaupmannahöfn. Drífa átti að baki stystan námsferil þeirra þriggja og því er mestur nemendabragur á verkum hennar frá tímabilinu í New York. Meðan hún nam hjá Ozenfant, 1943-44, lagði hún sig eftir dempuðu litrófi og skýrum „arkitektónískum“ stíl læriföðurins, en dvölin hjá Hofmann kallaði aftur á huglægari vinnubrögð. Eftir að hún kom til Parísar árið 1946 gaf Drífa sig síðan alfarið á vald hlutlægum, hálf-kúbískum stíl Légers, það er tími margháttaðra tilbrigða um kyrra hluti á borði eða kringum það: flöskur, blóm eða mandólín. Hins vegar eru þessi nemendaverk Drífu langt í frá heilberar eftirlíkingar; til að mynda einkennast þau af sérstöku litrófi sem vekur hjá áhorfanda löngun til að kynnast höfundinum nánar. Hrjúf og feimulaus sjálfsmyndin sem hún málaði seint á New York-tímabilinu er einnig til vitnis um sjálfstæðan þankagang hennar.

Áhugaverðustu myndir Drífu frá tímabilinu 1943-47 eru annars vegar mannamyndir hennar, einkum og sérílagi stílfærðar og þétt málaðar myndir af andlitslausum og oftast fáklæddum boldangskvenmönnum í afmörkuðu rými, hins vegar nokkrar abstraktmyndir, hvort tveggja gerðar undir handarjaðri Hofmanns. Í konumyndunum kallast Drífa iðulega á við þær Nínu og Louisu í útlistun sinni, sem ber keim allt í senn af skipulegri afbökun kúbismans, lífrænni formgerð súrrealismans og skaphita expressjónismans, en Hofmann var sjálfur hallur undir öll þessi afbrigði nútímalistar. Inni (1944) heitir mynd af boldangskvenmanni eftir Nínu í þessum stíl í eigu Listasafns Íslands, þar sem hægt er að bera hana saman við myndina eftir Drífu í eigu safnsins, Konan mín í kofanum. Til viðbótar mætti nefna konumynd Louisu Nína í Santa Fe (1943-44) í Listasafni ASÍ.

Abstraktmyndirnar eru athyglisverð viðleitni Drífu til að tileinka sér ýmsar af hugmyndum Hofmanns um aflfræði eða „dýnamík“ myndflatarins. Í kennslu sinni hnykkti Hofmann stöðugt á því að abstraktlistamaðurinn ætti aldrei að líta á yfirborð myndar sem rými heldur sem flöt, að litirnir ættu að stjórna framvindu mynda, ekki fyrirfram gefin formgerð, og „dýnamíkin“ í myndunum ætti fyrst og fremst að ráðast af innbyrðis átökum lita. Til að slá á meinta dýpt sumra lita; t.a.m. virðist blár eða brúnn litur alltaf vera „aftar“ á fleti en rauðir eða gulir litir, átti listmálarinn að magna upp „dýpri“ litinn með ýmsum hætti, lýsa hann eða auka á áferð hans, allt í því augnamiði að árétta tvívídd flatarins. Þetta var það sem Hofmann nefndi „push and pull“ og hefur orðið fleygt orðatiltæki í myndlistarsögunni. Mér sýnist sem þarna sé að finna skýringuna á ýmsu því sem við sjáum í abstraktmyndum Drífu frá 1943-45, sem sýndar voru í galleríinu Nútímalist á Skólavörðustíg um daginn: sjálfstæði litaflatanna í myndum hennar, frjálslegu viðhorfi hennar til myndbyggingar – málverk hennar geta snúið á ýmsa vegu – og ekki síst á fjölbreyttri áferðinni. Um mörg þessara verka má jafnvel hafa sömu orð og gagnrýnandinn Clement Greenberg hafði um málverk Hofmanns, nefnilega að í höndum hans væri engu líkara en myndflöturinn væri ekki „hlutlaust fyrirbæri, heldur veitti málaranum beinlínis viðnám, og sjálf málningarvinnan fælist fremur í að pota í flötinn, þjarma að honum, rissa í hann heldur en að teikna á hann og hjúpa með litum.“ Í leiðinni er vert að minna á það að umrædd nemendamálverk Drífu eru að öllum líkindum fyrstu abstraktmyndir íslenskrar listakonu og eiga því fortakslaust heima í opinberu safni.

Seinna meir sagði Drífa fjölskyldu sinni að Hofmann hafi stundum þótt nóg um hitann í litum hennar: eitt sinn kom upp eldur í skóla hans og átti lærimeistarinn þá að hafa sagt að það hlyti að hafa kviknað í út frá málverkum Miss Vidar.

Myndir af mönnum og dýrum

Drífa dvaldi síðan við sult og seyru í París árið 1946-47 – þar var þá hörgull á flestum lífsnauðsynjum í kjölfar heimstyrjaldar – og gekk þá í skóla Fernands Légers, sem hún hefur sennilega hitt í New York. Mér sýnist á öllu að sem málari hafi Léger haft minni áhrif á Drífu en fyrri kennarar hennar, enda voru myndmál hans og nákvæmnisvinnubrögð á skjön við flest annað sem hún hafði fengist við fram að því. Hins vegar hafði Léger góð áhrif á Drífu sem teiknara. Hann hafði sjálfur einstakt lag á að byggja upp stór og gegnheil form með útlínum einum saman, og aðall Drífu sem fullþroska teiknara var einmitt hrein og tær útlínuteikning hennar.

Árið 1947 sneri Drífa heim til Íslands, þar sem hún gekk að eiga Skúla Thoroddsen lækni og fluttist með honum til Svíþjóðar og seinna aftur til Íslands. Í framhaldinu reyndist henni erfitt að sinna myndlistinni til hlítar. Stórt heimili og fjögur börn tóku sinn toll af starfsorku hennar, auk þess sem hún var að eðlisfari mikil félagsmálavera, skrifaði blaðagreinar, myndlistargagnrýni og ljóð og setti saman barnabækur sem hún myndskreytti sjálf; þessar bækur eru enn óútgefnar.

Á öndverðum sjöunda áratugnum voru börn Drífa orðin sjálfbjarga að mestu og tók hún þá aftur upp þráðinn í myndlistinni. Af skiljanlegum ástæðum setti þetta „rof“ svip á myndlist Drífu, auk þess sem henni var þá eðlilegt að vinna í skorpum, leggja myndir frá sér ókláraðar eða hálfkláraðar, auka svo við þær löngu seinna með spánnýjum hugmyndum. Síðari verk Drífu eru því býsna sundurleit og ganga á svig við viðteknar hugmyndir um þróun í myndlist. Innan um á hún samt prýðilega spretti.

Meðal markverðustu málverka hennar frá þessu síðara skeiði eru annars vegar abstraktmyndir með ljóðrænu yfirbragði, ekki óralangt frá myndunum sem Nína og sumir Septembermanna hófu að gera á úthallandi sjötta áratugnum, hins vegar landslagstengdar myndir frá Þingvöllum, þar sem fjölskyldan átti sumarbústað; stundum rennur þetta tvennt saman í eitt.

Af síðari verkum hennar eru sennilega heildstæðastar teikningarnar sem Drífa gerði við öll möguleg tækifæri, af fjölskyldu sinni og öðrum vandamönnum, af mönnum og dýrum úti í guðsgrænni náttúrunni, að ógleymdum myndum hennar við íslenskar þjóðsögur, ævintýri og þulur, þ.á.m. þulur ömmu hennar, Theódóru Thoroddsen. Einkenni á þessum teikningum er hve auðveldlega hún fangar yfirbragð þeirra sem hún fjallar um, og þarf oft ekki nema nokkur hnitmiðuð strik eða eina samhangandi útlínu til að lýsa persónuleika þeirra til fullnustu. Eins og áður er nefnt lést Drífa síðan árið 1971, einungis 51 árs.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að tími sé kominn til að meta framlag fjöllistamannsins Drífu Viðar til hvorttveggja íslenskrar myndlistar og bókmennta. Vonandi var sýningin á Skólavörðustígnum fyrsta skrefið á þeirri leið.