Guðríður Kristín Þórðardóttir
Guðríður Kristín Þórðardóttir
Eftir Guðríði Kristínu Þórðardóttur: "Líknarteymi vinna að því að bæta líðan og lífsgæði sjúklinga með lífsógnandi sjúkdóma og aðstandenda þeirra í samvinnu við fagaðila annarra sérgreina."

HJARTABILUN hefur verið ört vaxandi heilsufarsvandamál um allan heim þrátt fyrir að fá mikla athygli læknisfræðinnar hvað varðar rannsóknir og meðferð. Hjartabilun stafar af minnkaðri dæligetu hjartavöðvans og algengustu orsakir eru skemmd í hjartavöðva eftir kransæðastíflu, hjartalokusjúkdómar, sjúkdómar í hjartavöðva, hjartsláttartruflanir og háþrýstingur.

Margir einstaklingar lifa með langvinna hjartabilun svo árum skiptir án þess að sjúkdómurinn hafi áhrif á daglegt líf þeirra og meðferð við hjartabilun miðar að því að hægja á framgangi sjúkdómsins og halda niðri einkennum.

Hjartabilun er hinsvegar sjúkdómur sem ágerist með tímanum og þegar líður á sjúkdómsferlið minnka áhrif lyfja. Á lokastigum er hjartabilun lífsógnandi sjúkdómur, heilsufarsvandamál verða fjölþætt, einkenni skerða lífsgæði og sjúkrahúsinnlagnir verða tíðar. Á þessu stigi er sérfræðiþekking og reynsla umönnunaraðila afar mikilvæg. Erlendar rannsóknir sýna að flóknum þörfum sjúklinga með langt gengna hjartabilun er ekki nægilega vel mætt, þjónustan virðist ekki í nægilega föstum skorðum og skortur á yfirsýn.

Líknarmeðferð

Líknarmeðferð er sérfræðigrein innan heilbrigðisvísinda sem er sprottin frá sérfæðingum innan krabbameinshjúkrunar og -lækninga. Upphaflega var hún ætluð til að lina þjáningar sjúklinga sem voru að deyja af völdum krabbameins en með aukinni þekkingu og reynslu síðastliðna áratugi hafa áherslur breyst.

Árið 2002 sendi Alþjóðaheilbrigðisstofnunin frá sér endurbætta skilgreiningu á líknarmeðferð. Þar segir að líknarmeðferð sé ætlað að auka lífsgæði sjúklinga og fjölskyldna þeirra sem glíma við lífsógnandi sjúkdóma og hana megi veita samhliða læknisfræðilegri meðferð sem geti lengt líf. Vandamálin geta verið líkamleg, sálfélagsleg og/eða andleg og af völdum hvaða sjúkdóms sem er.

Líknarmeðferð er ætlað að vernda líf en horft er á andlát sem eðlilegt ferli sem sjúklingar og ástvinir þeirra þurfa stuðning í gegnum. Reynslan sínir að árangurríkast sé að hefja þennan stuðning strax við greiningu lífsógnandi sjúkdóms en ekki bara á síðustu dögum lífs. Markmið líknarmeðferðar samkvæmt WHO er meðal annars að aðstoða sjúklinga og aðstandendur þeirra að takast á við þá staðreynd að þau lifa með lífsógnandi sjúkdóm og veita stuðning til að þau geti lifað eins eðlilegu og virku lífi og mögulegt er.

Sérfræðingar í líknarmeðferð hafa mismunandi bakgrunn, eins og hjúkrunarfræði, læknisfræði, félagsfræði eða guðfræði og mynda þverfaglegt teymi sem vinnur með öðrum sérfræðiteymum, eins og hjartateymum. Líknarteymi leitast við að glæða von í líf þeirra með því að beina væntingum í raunhæfar áttir og veita aðstoð við að taka ákvarðanir varðandi lífslok. Umönnun líknarteyma dregur úr álagi af völdum einkenna, eykur ánægju sjúklinga og fjölskyldumeðlima, styttir legutíma á sjúkrahúsum og dregur úr kostnaði.

Líknarmeðferð hjartabilaðra á Íslandi

Mikil áhersla hefur verið lögð á líknarmeðferð krabbameinssjúklinga og úrræði líknarteyma beinast helst að þeim sjúklingahópi í íslensku heilbrigðiskerfi, sem og annars staðar í heiminum. Langvinn hjartabilun er ein algengasta dánarorsök Íslendinga og hugmyndafræði líknarmeðferðar hentar stórum hluta þeirra sem hafa langt gengna hjartabilun, hvort sem um ræðir á bráðadeild, göngudeild eða í heimaþjónustu. Greiður aðgangur sjúklinga með hjartabilun að líknarteymi í heimahúsi eykur öryggistilfinningu og veitir mikilsverðan líkamlegan og andlegan stuðning. Þrátt fyrir að rannsóknir sýni að líknandi nálgun bæti lífsgæði sjúklinga með hjartabilun og mæti flóknum þörfum þeirra njóta hjartasjúklingar sjaldan þjónustu líknarteymis og sjaldan er óskað eftir ráðgjöf þess nema við lífslok.

Þarfir hjartabilaðra

Sjúklingar með langt gengna hjartabilun þurfa yfirgripsmikla einkennameðferð og heildræna og þverfaglega þjónustu. Hugmyndafræði líknarmeðferðar er kjörin nálgun fyrir þennan sjúklingahóp þar sem markmið hennar er að auka lífsgæði sjúklinga með heildrænni nálgun og samvinnu ýmissa sérfræðinga. Líknarþjónustan þarf að vera veitt í samvinnu við sérhæfða fagaðila í umönnun hjartabilaðra þar sem sérþekking í hjartabilunarmeðferð er lykilatriði í einkennameðferð þeirra.

Mikilvægt er að auka áherslu á líknarmeðferð í umönnun hjartabilaðra sjúklinga og hefja líknarmeðferð fyrr á sjúkdómsferlinu til að gera meðferð heildrænni og árangursríkari. Brýn þörf er á aukinni menntun þeirra sem sinna umönnun hjartabilaðra í hugmyndafræði líknarmeðferðar og að auka samvinnu hjarta- og líknarteyma til að veita sjúklingum með langt gengna hjartabilun og fjölskyldum þeirra bestu þjónustu sem völ er á í íslensku heilbrigðiskerfi.

Höfundur er aðstoðardeildarstjóri á hjartadeild G LSH (14G), nemi í meistaranámi við hjúkrunarfræðideild LSH og formaður fagdeildar hjartahjúkrunarfræðinga.