[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Andra Karl andri@mbl.is Sjaldan heyrist nefnt að stórmannleg séu víg úr launsátri. Þrátt fyrir það virðast æði margir hafa tekið sér hlutverk eins konar net-skæruliða sem ráðast að nafngreindum einstaklingum úr þjóðlífinu með meiðandi hætti.
Eftir Andra Karl

andri@mbl.is

Sjaldan heyrist nefnt að stórmannleg séu víg úr launsátri. Þrátt fyrir það virðast æði margir hafa tekið sér hlutverk eins konar net-skæruliða sem ráðast að nafngreindum einstaklingum úr þjóðlífinu með meiðandi hætti. Úrræði fórnarlamba nafnlauss níðs er það eitt að kæra ummælin til lögreglu, en fleiri sitja heima en halda af stað, enda málin oft þung í rannsókn og árangurinn ekki eftir erfiðinu. Með nýju frumvarpi menntamálaráðherra verður að einhverju leyti girt fyrir möguleika „ritsóða“ til að dyljast, alla vega á vettvangi fjölmiðla. Þó er það ætíð svo að ef viljinn er fyrir hendi er vegurinn auðfundinn.

Samkvæmt því sem kemur fram í nýju frumvarpi til fjölmiðlalaga verður lögfest að ábyrgðarmenn vefmiðla beri ábyrgð á því efni sem þar birtist. Er þar þó eingöngu vísað til vefmiðla sem skilgreindir eru sem fjölmiðlar og þar undir eru því ekki svonefndar bloggsíður. Ábyrgðarmönnum vefmiðla sem heimila nafnlaus ummæli við fréttir er þannig gert að ábyrgjast þau. Verði frumvarpið að lögum ættu brotaþolar því ekki að þurfa að kæra nafnlaus ummælin til lögreglu sem sér svo um rannsókn en höfða fremur einkarefsimál á hendur viðkomandi miðli.

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, telur að þetta verði jafnvel til þess að umræðumenning á netinu breytist til batnaðar. „Ég reikna með því að miðlarnir muni í framhaldi gera kröfu um að þeir sem vilji skilja eftir ummæli gefi upp rétt nafn. Enda á það að vera hin almenna regla.“

Fjölmiðlafrumvarpið verður kynnt þingflokkunum eftir helgina og birt á vef menntamálaráðuneytis í kjölfarið. Óskað verður eftir athugasemdum en ráðherrann gengur út frá því það fái þinglega meðferð í næsta mánuði.

Brot fullframið við birtingu?

Varla er um svo róttæka lagabreytingu að ræða að nafnleysingjum verði úthýst af netinu. Enn verða til umræðuvefir þar sem menn dylgja um náungann og níða. Áfram verður því erfitt að ná til þeirra sem sem vega að æru manna í skjóli nafnleyndar, þó vettvangur þeirra þrengist.

Nú þegar hefur verið afnuminn sá möguleiki að skrifa athugasemdir við greinar á afþreyingarvefnum Vísir.is og á vef dagblaðsins DV þurfa menn að skrá sig í gegnum samskiptavefinn Facebook. Á fréttavef Morgunblaðsins var horfið frá því að nafnlausir bloggarar gætu skrifað um fréttir en tekin upp skráning tengd kennitölu.

Á tenglasíðunni Eyjan.is er hins vegar taumurinn laus og fá stjórnmálamenn og viðskiptaforkólfar það oft óþvegið frá lesendum. Taka ber fram að ritstjórn Eyjunnar tekur út þau ummæli sem henni þykja óviðurkvæmileg og einnig önnur, ef um það er sérstaklega beðið. Aftur á móti benda lögfræðingar sem Morgunblaðið ræddi við á að áhöld eru um það hvort nóg sé gert, brotið geti að öllum líkindum talist fullframið um leið og viðkomandi ummæli birtast á vefnum. Ekki hefur reynt á það álitamál fyrir dómstólum.

Að undanförnu hafa spjótin staðið á best kynnta bloggi Íslands, Silfri Egils Helgasonar. Egill hefur heimilað nafnlausar athugasemdir og má oft sjá í athugasemdakerfi hans frjóa umræðu um menn og málefni, en einnig skítkast og hreint og klárt níð. Egill ritstýrir reyndar umræðunni með því að fjarlægja ummæli sem að hans mati fara yfir strikið og tekur oft virkan þátt í henni sjálfur.

Þó svo að fjölmiðlalögin, sett eins og þau birtast í frumvarpinu, muni ekki sem slík ná yfir bloggsíður sem Egils, gætu einstaklingar sem halda úti slíkum síðum og leyfa nafnlausar athugasemdir þurft að endurskoða það val. Þeir lögfræðingar sem rætt var við töldu víst að með lögjöfnun eða rýmkandi lögskýringu væri hægt að heimfæra sömu ákvæði laganna og eiga við um vefmiðla yfir á bloggsíður. Þar með væru þeir sem skráðir eru fyrir þeim ábyrgir fyrir því efni sem birtist í athugasemdakerfum.

Vitanlega ber að taka fram að frumvarpið hefur ekki verið kynnt opinberlega og ákvæðin því ekki orðrétt birt lögfræðingunum.

Lúkasarmálið fer senn fyrir dóm

Eftirminnilegt er hið svonefnda Lúkasarmál sem upp kom á því herrans ári 2007. Rétt rúmlega tvítugum pilti var þá hótað öllu illu á netinu en hann lá undir grun um að hafa misþyrmt til dauða hundinum Lúkasi – sem fannst á lífi stuttu eftir fjölmennar minningarathafnir á Akureyri og í Reykjavík.

Pilturinn kærði um hundrað manns fyrir meiðyrði, konur og karla á öllum aldri. Aðeins helmingur hópsins skrifaði undir nafni og voru því IP-tölur annarra kærðar til lögreglu.

Lögreglunnar var að finna út hver stæði á bak við IP-tölurnar en eftir tveggja ára rannsókn var lögmanni piltsins, Erlendi Þór Gunnarssyni, tjáð að ekki væri tilefni til að fara lengra með málið. Þar með sluppu um fimmtíu einstaklingar við ákæru.

Erlendur er ekki sáttur við vinnubrögð lögreglu og telur rannsóknina raunar aldrei hafa hafist, enda ekki rætt við hann eða skjólstæðing hans.

Þrátt fyrir þessar miklu tafir á málinu voru árar ekki lagðar í bát og hyggst pilturinn enn hreinsa nafn sitt fyrir dómi. Sátt hefur þó náðst í nokkrum málum, en þeir sem ekki hafa tekið í útrétta sáttahönd mega búast við málshöfðun.

Að sögn Erlendar Þórs verður fyrsta málið þingfest fyrir héraðsdómi á næstu vikum.

Lög og reglur

Úr almennum hegningarlögum:

234. gr. Hver, sem meiðir æru annars manns með móðgun í orðum eða athöfnum, og hver, sem ber slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári.

[...]

235. gr. Ef maður dróttar að öðrum manni einhverju því, sem verða myndi virðingu hans til hnekkis, eða ber slíka aðdróttun út, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að einu ári.[...]

242. gr. Hafi ærumeiðandi aðdróttun verið borin fram skriflega, en annaðhvort nafnlaust eða með rangri eða tilbúinni undirskrift, skal brotið sæta ákæru, ef sá krefst þess, sem misgert var við.

[...]

Mál út af öðrum brotum getur sá einn höfðað, sem misgert er við.

Í kjölfar þess að Ísland fór á hliðina í efnahagslegum skilningi hófu bálreiðir netverjar á loft sýndarheykvíslar sínar. Þeim er beint í allar áttir en helst að fígúrum úr fjármálalífinu. Notuð eru öll tæki til að níða skóinn af nafntoguðum einstaklingum og helst í skjóli nafnleysis.

Skilyrði þess að hægt sé að sækja mann til saka í meiðyrðamáli – vegna nafnlausra ummæla á netinu – er að saksóknari telji ummælin ærumeiðandi og viðkomandi finnist.

Þó svo að IP-tala sé skráð er ekki öll sagan sögð.

Meðal annars hafa komið upp mál þar sem fréttasendingar fréttavefjar Morgunblaðsins eru notaðar í þeim tilgangi. Ekki eru gerðar kröfur um að fréttasendendur gefi deili á sér en með fréttunum er hægt að senda persónuleg skilaboð.

Það er nærri ógerningur að rekja sendingarnar og ekki hefur reynt á hvar ábyrgð á þeim liggur. Hins vegar er í skoðun að setja hömlur á sendingarnar, s.s. með því að skráðum notendum verði eingöngu heimilt að senda efni.

Annað mál kom upp á hinu svonefnda Moggabloggi, blog.is. Þar nýskráði sig inn einstaklingur undir kennitölu alþingismanns. Viðkomandi stofnaði þó ekki bloggsíðu en skrifaði fjölmargar athugasemdir við færslur annarra.

Málið var tekið mjög alvarlega og sent til lögreglu. Við rannsókn málsins kom í ljós að IP-töluna mátti rekja til veitingastaðar sem bauð gestum upp á nettengingu. Þar með var ómögulegt að finna hver stóð að baki og málið því látið niður falla.