Gordon Brown Meðan allt lék í lyndi var það beinlínis sjálfstætt markmið Verkamannaflokksins að halda áfram að auka ríkisútgjöld af verulegum metnaði, en þar eins og víðar flutu stjórnvöld í svefnrofum að feigðarósi.
Gordon Brown Meðan allt lék í lyndi var það beinlínis sjálfstætt markmið Verkamannaflokksins að halda áfram að auka ríkisútgjöld af verulegum metnaði, en þar eins og víðar flutu stjórnvöld í svefnrofum að feigðarósi. — Reuters
Ýmsar vísbendingar eru um að efnahagslíf Bretlands sé að rétta úr kútnum eftir fjármálakreppuna og vill Gordon Brown forsætisráðherra þakka sér og kostnaðarsamri björgunaraðgerð sinni það. Enn á hins vegar eftir að borga brúsann og ekki er ómögulegt að Bretland verði nýrri og verri kreppu að bráð.
Eftir Andrés Magnússon

Gordon Brown er ekki elskaður og dáður á Íslandi, en óvildin í hans garð er ekki minni í Bretlandi, þar sem litið er á hann sem líkamning alls þess, sem aflaga hefur farið þar í landi á undanförnum árum. Hvert hneykslið og áfallið hefur rekið annað, en sjálfsagt ráða efnahagsmálin mestu. Í fjármálaráðherratíð sinni gumaði Brown af því að hafa handleikið hið heilaga gral góðrar hagstjórnar, að með þriðju leiðinni – nýfrjálshyggju vinstrimanna – hefði Verkamannaflokknum tekist að koma Bretlandi úr vítahring uppgangs og hruns efnahagslífsins (e.: „boom and bust“), en við hefði tekið Fróðafriður jafns hagvaxtar og velferðar.

Meðan allt lék í lyndi var það beinlínis sjálfstætt markmið Verkamannaflokksins að halda áfram að auka ríkisútgjöld af verulegum metnaði, en þar eins og víðar flutu stjórnvöld í svefnrofum að feigðarósi meðan allt var fljótandi í skatttekjum lánsfjárbólunnar. Unnt var að bægja flestum vandamálum frá með auknum fjárveitingum, stríðsrekstur í fjarlægum löndum var ekki ýkja íþyngjandi, nánast engin gæluverkefni stjórnmálamanna voru vanrækt og sérhver þrýstihópur hafði erindi sem erfiði. Allir fengu eitthvað fallegt, eins og Jóhannes úr Kötlum orti forðum.

En það eru ekki alltaf jólin og veislan hlaut að taka enda. Hér verður ekki farið út í þá atburðarás, hún er ágætlega þekkt, en líkast til gera sér færri grein fyrir hversu ákaflega tæpt breska fjármálakerfið stóð um hríð. Það kann að hluta að skýra einstaklega harkaleg viðbrögð breskra stjórnvalda gagnvart íslensku bönkunum, þótt þar ræddi um hreina skiptimynt í hinu stóra samhengi hlutanna.

Á barmi hyldýpis

Á þeim dögum riðuðu fjölmargir breskir bankar beinlínis til falls, en Englandsbanki og bresk stjórnvöld beittu bæði fortölum, hótunum, fjárveitingum og lánsloforðum til þess að halda í horfinu. 8. október – sama dag og hryðjuverkalögunum var beitt gegn Íslandi – var tilkynnt um björgunaráætlun, sem fæli í sér a.m.k. 50 milljarða punda (10 billjónir íslenskra króna) innspýtingu opinbers fjár til þess að styrkja höfuðstól breskra banka, 250 milljarða punda í lánaábyrgðir og 200 milljarða punda í sérstaka áætlun til þess að tryggja lausafjárstöðu bankanna. Ítrekað var að meiri peningar yrðu lagðir í björgunina ef ástæða þætti til. Eins og nærri má geta voru seðlapressur Englandsbanka keyrðar nótt og dag.

Þrátt fyrir allt þetta mátti engu muna föstudaginn 10. október 2008, að breska bankakerfið stæðist ekki víðtækt áhlaup áhyggjufullra innistæðueigenda í breskum bönkum.

Myners lávarður, sem er ráðherra fjármálageirans á Bretlandi, játaði síðar að um þriggja klukkustunda skeið þennan örlagaríka föstudag hefðu stjórnvöld óttast að spilið væri búið. Þau voru tilbúin með neyðaráætlun, sem gerði ráð fyrir lokun allra fjármálastofnana og tafarlausri þjóðnýtingu alls bankakerfisins. Bankarnir lukkuðust þó til þess að lafa fram að venjulegri lokun á þessum föstudagseftirmiðdegi, en um helgina voru lögð á ráðin um skyndibjörgun Royal Bank of Scotland og HBOS.

Ofurhetjan Brown

Í beinu framhaldi var fyrrnefndri björgunaráætlun bankakerfisins hrint í framkvæmd, en vert er að hafa í huga að hún var hreint ekki sjálfgefin eða óumdeild. Stjórnvöld víðast hvar annars staðar höfðu haldið að sér höndum og hikuðu við að beita svo breiðum spjótum, en stjórn Gordons Browns tók af skarið. Á næstu vikum fylgdu fjölmargar þjóðir aðrar fordæmi Breta og flæddu peningum inn í fjármálageirann.

Eftir því sem dagar og vikur liðu án þess að fleiri bankastofnanir legðust á hliðina (nema á Íslandi) fóru menn að fagna kraftaverkinu og það var víðar en í Bretlandi, sem menn hrósuðu Gordon Brown fyrir afrekið. Hann hefði tekið af skarið með afgerandi hætti og klappstýrurnar töluðu um hann sem ofurhetju, sem bjargað hefði fjármálakerfi heimsins. Brown sjálfur mismælti sig meira að segja í þinginu og kvaðst hafa bjargað heiminum, en eftir það var hann gjarnan nefndur Flash Gordon (Hvell-Geiri).

Það var og er samt langur vegur frá því að hættan sé liðin hjá.

Flestir gerðu sér grein fyrir því að þessi björgun væri dýru verði keypt. Fjármunirnir, sem lagðir voru fram í nafni breskra skattborgara, voru gríðarlegir, og ekki fyllilega ljóst hvernig þeirra skyldi aflað. Vissulega var mikið í húfi, fjármálakerfið skiptir allt hagkerfið gríðarlegu máli og í Bretlandi komu auk þess um 10% landsframleiðslunnar úr fjármálageiranum þegar best lét. Björgunarpakkinn nam hins vegar 500 milljörðum punda, en til samanburðar eru árleg framlög hins opinbera til heilbrigðiskerfisins á Bretlandi um 111 milljarðar punda og er þar þó ekki skorið við nögl.

Skuldakreppa og skuldsetning

Skoðanakannanir sýndu að meirihluti Breta stæði að baki forsætisráðherranum í þessum efnum. Þrátt fyrir að tiltrú manna á hæfni Browns hefði minnkað verulega – hans uppgefna meginerindi hafði einmitt verið að koma í veg fyrir ósköp af þessu tagi – virtust menn gera sér grein fyrir hinum brýna vanda og nauðsyn þess að leysa hann hratt og örugglega, nánast hvað sem það kostaði. Þannig bentu skoðanakannanir til þess að almenningur gerði sér betri grein fyrir því en stjórnvöld að opinber niðurskurður, skattahækkanir, atvinnuleysi og versnandi lífskjör væru óhjákvæmileg. Þessa örlagaríku haustdaga virtist breskur almenningur þannig sýna af sér nokkurt æðruleysi og ábyrgð.

Hitt er annað mál hvort hinn almenni Breti gerði sér fyllilega grein fyrir kostnaðinum eða hvernig honum yrði mætt. Til þess að koma í veg fyrir að lánabólan spryngi með ógnarhvelli var ráð ríkisstjórnarinnar það að stækka hana enn frekar með aukinni skuldsetningu, skuldasöfnun sem enn sér ekki fyrir endann á og vafamál raunar hvernig alls þess fjár skal aflað. Á sama tíma hafa spunameistarar Verkamannaflokksins ítrekað að þetta sé unnt án þess að velferðinni linni og Brown sjálfur stóð á því fastar en fótunum í sumar að ríkisútgjöld myndu halda áfram að aukast eins og hann hefði lofað. Þegar eftir því var gengið kom að vísu á daginn að aukningin myndi nema heilu 0% á árunum 2010-2012!

12% eignarýrnun heimilanna

Nær er að tala um efnahagssamdrátt í Bretlandi en kreppu, en fyrir þá sem verst eru leiknir gildir víst einu hvaða nafni menn nefna höggið. Gjaldþrot hafa aukist mikið og víða um land hafa fyrirtæki dregið saman seglin með fjöldauppsögnum og öðru aðhaldi. Atvinnuleysi jókst verulega og er nú talið nema um 8%, sem þýðir að tæplega tvær og hálf milljón vinnufærra manna sé án atvinnu. Kjör þeirra, sem haldið hafa vinnu sinni, hafa einnig rýrnað, en samkvæmt opinberri tölfræði hækkuðu laun aðeins um 1,9% á liðnu ári. Það er minnsta aukning síðan farið var að halda utan um þessar tölur árið 1991, en vert er að hafa í huga að verðbólga í Bretlandi var töluverð á síðasta ári.

Ekki síður hafa menn fundið fyrir samdrættinum þegar litið er til eignastöðunnar. Fasteignaverð hefur lækkað verulega, sem fyrir rúmu ári hefði verið talið óhugsandi brot á náttúrulögmálum. Á liðnu ári lækkaði það um 9%, en áætlað hefur verið að fasteignir hafi þá rýrnað um 422 milljarða punda. Á heildina litið féllu eignir breskra heimila um 815 milljarða punda í verði árið 2008, sem eru heil 12%. Fall á hlutabréfamörkuðum minnkaði verðgildi þeirra eigna um 393 milljarða punda. Hinn almenni Breti finnur vel fyrir þessari eignarýrnun, enda eru fasteignir vinsælasta tegund sparnaðar. Að meðaltali minnkaði eign breskra heimila um 31.000 pund á liðnu ári, sem er jafnvirði um 6,2 milljóna íslenska króna.

Fyrir allan almenning ræddi hér þó fyrst og fremst um kreppu hugarfarsins. Lækkandi fasteignaverð beit marga en miðað við gegndarlausar hækkanir undanfarinna ára var lækkunin minni en óttast mætti. Neysla dróst hratt saman, svo mjög að gripið var til ýmissa sértækra ráðstafana til þess að örva hana. Atvinnuleysið jókst mismikið eftir aldurshópum og búsetu, en hefur engan veginn náð hæðum fyrri áratuga. Menn hafa fundið fyrir samdrættinum, en hann hefur víðast hvar ekki sorfið mjög nærri fólki.

Uppsveifla eða dauðakippur?

Þrátt fyrir að ástandið héldi áfram að versna í upphafi þessa árs mátti þegar í vor greina ýmsar vísbendingar um að hagkerfið væri að jafna sig. Hríðlækkandi gengi sterlingspundsins hefur mildað áfallið fyrir atvinnulífið. Framleiðsla dregst ekki jafnhratt saman og áður og verslun er að taka við sér. Verðbólga hefur hjaðnað. Aukning atvinnuleysis hefur hægst til muna, en það bitnar enn mun harðar á nýliðum á vinnumarkaði en öðrum. Fasteignaverð hefur staðið í stað, jafnvel mjakast upp, og viðskipti á markaðnum eru innan eðlilegra marka. Þegar horft er til kauphalla á Bretlandi virðist bjartsýnin vera að ná tökum á mönnum á nýjan leik. Hlutabréfaverð hefur hækkað harla stöðugt síðan í mars, en nú í vikunni komst FTSE 100-hlutabréfavísitalan yfir 5.200 stig (að vísu mikið til vegna jákvæðra frétta að utan, en Dow Jones-vísitalan vestra mjakaðist yfir 10.000 stig í fyrsta sinn í meira en ár) og er þá komið á svipað ról og var dagana fyrir áfallið í fyrra. Það er um 40% hækkun á hálfu ári.

Það er því freistandi fyrir menn að draga þá ályktun að hættan sé liðin hjá og veislan geti hafist að nýju. Ýmislegt bendir til þess að það sé ekki óalgeng skoðun. Samkvæmt skoðanakönnunum er fólk mun ófúsara til þess nú en fyrir ári að þola þjónustuskerðingar hjá hinu opinbera, hvað þá frekari samdrátt í eigin neyslu. Um 48% eru á móti hvers kyns niðurskurði hins opinbera og aðeins um 20% telja nauðsynlegt að hið opinbera dragi saman seglin. Af vinnumarkaði er farið að bera á nýrri kröfugerð og þannig hafa samtök háskólakennara t.d. hótað verkfalli verði ekki fallist á 8% launahækkun þeirra, sem er afskaplega 2007 en út í bláinn miðað við árferðið.

Hugsanlega má skrifa þessa værukærð á lækningu Gordons Browns. Hvorki almenningur né fyrirtæki eru farin að finna fyrir kostnaðinum, hvorki hvað varðar skattbyrði né afleiðingar svo gríðarlegrar skuldsetningar þjóðarbúsins, sem vofir yfir. Vantar þó ekki viðvaranirnar og sumir hagspekingar jafnvel minnt á að margir hefðu talið kreppuna miklu yfirstaðna hálfu ári eftir fyrra hrun markaða, þegar niðursveiflan jókst um allan helming.

Sligandi skuldabyrði

Markaðir hafa reynst mjög hikandi gagnvart breskum ríkisskuldabréfum og þrátt fyrir jákvæða þróun á ýmsum vígstöðvum hækkar ennþá verð á kreppuvöru eins og gulli og Englandsbanki hefur undir rós gefið til kynna að bjargráð Browns séu að bregðast. Skuldirnar nema nú 60% af landsframleiðslu, en samkvæmt nýrri skýrslu Evrópusambandsins munu þær ná 160% fyrir 2020, 406% árið 2040 og 760% árið 2060 komi ekki til hastarlegur niðurskurður á opinberum útgjöldum.

Við blasir að slíkt er ómögulegt og þjóðargjaldþrot yfirvofandi verði ekki gripið í taumana. Heima fyrir hefur Sir Howard Davies, rektor London School of Economics og fyrrverandi forstjóri breska fjármálaeftirlitsins, varað við því að örlög Bretlands kunni að ráðast næsta misserið. Hann er ekki bjartsýnn og óttast að stjórnvöld hafi þegar notað megnið af vopnabúri sínu. Útgjöldin verði að minnka mjög hratt, en vafamál sé hvort efnahagslífið sé nógu burðugt til þess að þola þá óhjákvæmilegu lausn.

Á markaði hvísla menn um að enn ein kreppan kunni að vera yfirvofandi, sem þá væri réttnefnd skuldakreppa. Þótt Bretland skeri sig verulega úr meðal þróaðra hagkerfa heimsins er það þó engan veginn eitt í hættu hvað það varðar, veður eru einnig válynd í Þýskalandi, Spáni, Írlandi, Grikklandi og Slóvakíu, svo nokkur Evrópuríki séu nefnd.

Cameron til bjargar?

Mikið vafamál er að stjórn Gordons Browns aðhafist nokkuð, sem orðið gæti til þess að afstýra þessari hættu. Hann blæs raunar á viðvaranir og hrakspár af þessu tagi og telur breskt efnahagslíf vera komið á beinu brautina. Sjálfsagt ræður það nokkru um afstöðu Browns að hann verður að boða til þingkosninga ekki síðar en 3. júní á næsta ári, en líklegast er talið að kosið verði snemma í maí. Skoðanakannanir hafa um nokkra hríð allar verið á einn veg um að Íhaldsflokkurinn muni vinna mikinn kosningasigur undir forystu Davids Camerons og í almennri umræðu ganga menn út frá því sem vísu að svo fari.

Cameron hefur verið fremur varkár í tali, en þó boðaði hann það á landsfundi Íhaldsflokksins í síðustu viku að stjórn hans myndi einkennast af aðhaldssemi, enda yrði ekki bjart yfir efnahagslífinu á næstu árum. Þeim fyrirætlunum hefur ekki verið illa tekið, en á hinn bóginn er langur vegur frá að efnahagstillögur íhaldsmanna hafi hrifið kjósendur með sér, um þær efast margir. Óbeitin á Brown og stjórn hans er hins vegar slík, að þorri manna virðist telja að stjórn íhaldsmanna verði a.m.k. ekki verri. Stóra spurningin er þó ekki aðeins sú hvort Cameron og hans knáu sveinar hafi lausnir á takteinum, heldur máske fremur hvort það verði ef til vill um seinan.

Á Bretlandi hefur undanfarinn mánuð ríkt einmuna haustblíða og fátt sem bendir til þess að veturinn sé í nánd. Hann kemur nú samt og þótt allur almenningur líti á efnahagskreppuna sem ársgamalt áhyggjuefni mun koma að skuldadögum Browns.

Höfundur er blaðamaður.