Frá Lofti Altice Þorsteinssyni: "JÓNAS H. Haralz er með orðsendingu í Morgunblaðinu 16. október, þar sem hann dregur í efa heilindi Nóbelsverðlaunahafans Joseph Stiglitz. Þótt ég sé ekki sammál öllum viðhorfum Stiglitz, þá finnst mér Jónas gerast full djarfur í ummælum sínum."
JÓNAS H. Haralz er með orðsendingu í Morgunblaðinu 16. október, þar sem hann dregur í efa heilindi Nóbelsverðlaunahafans Joseph Stiglitz. Þótt ég sé ekki sammál öllum viðhorfum Stiglitz, þá finnst mér Jónas gerast full djarfur í ummælum sínum.

Jónas segir um Stiglitz: „Hér er því ekki á ferðinni óvilhallur fræðimaður. Það er illur leikur að hann skuli nú reyna að hafa afskipti af samvinnu Íslands við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.“ Jónas hefur ekki innistæðu fyrir svona dónalegum ummælum, því að hann opinberar sjálfan sig sem ógagnrýninn stuðningsmann Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (AGS).

Joseph Stiglitz hefur árum saman gagnrýnt AGS og flestir telja að sú gagnrýni hafi verið verðskulduð. Hvernig dettur Jónasi í hug að halda því fram, að þar sem Stiglitz hefur gagnrýnt AGS í áratug eða lengur, þá verði hann vanhæfur til að fjalla um viðskipti Íslands við sjóðinn? Ætti hann ekki þvert á móti, að verða hæfari til að segja sannleikann um þessa alræmdu stofnun?

Jónas H. Haralz ætti að temja sér meiri hógværð og ekki gera atlögu að heiðri viðurkennds fræðimanns. Íslendingar þurfa á ráðgjöf að halda í deilum við öflugar stofnanir sem stjórnað er af Evrópskum nýlenduveldum. AGS og Evrópusambandið eru dæmi um slíkar stofnanir. Það er þakkarvert að viðurkenndir sérfræðingar á sviði hagfræði láta sig skipta örlög okkar þjóðar. Menn sem lítið jákvætt hafa fram að færa, ættu að halda sig til hlés.

LOFTUR ALTICE

ÞORSTEINSSON,

verkfræðingur og vísindakennari.

Frá Lofti Altice Þorsteinssyni