Kýr undir Miðfelli í Hrunamannahreppi.
Kýr undir Miðfelli í Hrunamannahreppi.
Það þykir dæmi um lélega ökuhæfni, sem lofi ekki góðu um framhaldið fari menn út af í fyrstu beygju. Eins þykir það bera vott um yfirgripsmikið kunnáttuleysi flaski menn á atriði sem kemur fyrir á fyrstu síðunni í kennslubókinni fyrir byrjendur.
Það þykir dæmi um lélega ökuhæfni, sem lofi ekki góðu um framhaldið fari menn út af í fyrstu beygju. Eins þykir það bera vott um yfirgripsmikið kunnáttuleysi flaski menn á atriði sem kemur fyrir á fyrstu síðunni í kennslubókinni fyrir byrjendur. Verður vikið að þessu síðar í bréfinu.

Fyrir fáeinum vikum hófst heilmikill spuni, sem bar öll merki þess að vera samhæfður og æfður af alkunnum spunameisturum ríkisstjórnarinnar, sem farið hafa mikinn að undanförnu og bjagað alla umræðu jafnvel um mikilvægustu atriði, sem eru til úrlausnar í þjóðfélaginu. Er svo sem þakkarefni hve málatilbúnaðurinn bar með sér handbragð höfundanna og útfærsla flytjendanna var býsna kunnugleg. Nú þurfti að koma óorði á uppgjör vegna skulda viðskiptabankanna við Seðlabanka Íslands, en það uppgjör var rækilega kynnt fyrir mörgum mánuðum. Umræðan nú var því bersýnilega sett á svið í annarlegum tilgangi. Þótt allt hafi legið lengi fyrir er ekki hægt að komast hjá að leiðrétta mestu bábiljurnar.

Veð Seðlabankans rýrnuðu vegna neyðarlaganna

Fyrir hartnær ári var tilkynnt að ríkissjóður gæfi út skuldabréf, sem afhent væri Seðlabankanum í stað krafna, sem hann ætti á hina föllnu viðskiptabanka. Kröfurnar sem Seðlabankinn afhenti voru að fjárhæð 345 milljarðar króna, en ríkissjóður gaf á móti út skuldabréf að upphæð 270 milljarðar króna. Bankinn tók því á sig beint 75 milljarða króna, sem dregið var af eiginfé hans. Ríkissjóður mat það svo að hann fengi 95 milljarða fyrir kröfur sínar á gömlu bankana. Þetta var aðeins ágiskun, sem á eftir að sannreyna. Því voru bein útgjöld hans þannig metin 175 milljarðar króna. Inni í þeirri tölu er eiginfjárframlag í Seðlabankann upp á 90 milljónir króna, en þeir fjármunir eru auðvitað eign ríkisins, sem það getur kallað eftir þegar það kýs með einfaldri lagabreytingu. Ekki skiptir öllu fyrir Seðlabanka eðli máls samkvæmt hvort eigið fé hans sé lítið eða mikið, þótt það sé vissulega traustvekjandi að það sé nokkurt. Þetta skuldabréf er til 5 ára og geta ríkið og bankinn ákveðið að breyta því svo að það verði til 25 ára eða 50 ára og breytir engu fyrir bankann. Ríkið verður því ekki fyrir beinum útgjöldum fyrr en það kýs.

Þegar Alþingi ákvað að tillögu ríkisstjórnar að breyta með lögum forgangsröð krafna, þannig að innistæður færu í sérstaka forgangsröð fólst í því að veð Seðlabankans rýrnuðu, sem því nam. Slíka veikingu á veðhæfni krafna gat hann ekki séð fyrir frekar en aðrir kröfuhafar. Má segja að í samskiptum ríkis og Seðlabanka þýði forgangsraðarbreyting einungis að í stað þess að veð stæðu Seðlabanka til baktryggingar krafna, fær hann framlag í formi skuldabréfs frá ríkissjóði. Án neyðarlaganna hefði ríkissjóður þurft að veita fé beint til að verja innistæðueigendur í samræmi við loforð sem gefin höfðu verið. Fari svo að á það verði látið reyna fyrir dómstólum, hvort framangreind ákvæði neyðarlaganna standist stjórnarskrána og niðurstaðan verði sú að ekki megi breyta reglum í miðju spili, þá er ljóst að bókfært tap vegna þjónustu Seðlabankans við bankakerfi í þrenginum yrði lítið eða jafnvel ekkert. Það sýnir glöggt hve holur hljómur í hatursherferðinni gegn bankanum er. En ríkissjóður væri ekki betur settur, þvert á móti. En hinum lágkúrulegu spunameisturum ríkisstjórnarinnar og húsbændum þeirra væri þá töluverð vorkunn.

Umfjöllun Stefáns Svavarssonar

Einn þekktasti endurskoðandi landsins, Stefán Svavarsson, sem var innri endurskoðandi á vegum bankaráðs Seðlabankans, skrifaði mjög athyglisverða grein hér í blaðið sl. fimmtudag og fjallaði þar um veðlán Seðlabankans og skýrði hvaða tilgangi þau þjónuðu. Þar segir hann m.a.: „Lánveitingar bankans stöfuðu fyrst og fremst af lausafjárskorti bankanna sem ekki aðeins var innlent vandamál heldur erlent líka, eins og margoft hefur komið fram. Seðlabankinn fékk raunar ákúrur á þessum tíma þegar þessi veðlán voru að aukast fyrir að vera tregur til að að veita fleiri veðkosti; bréfin sem bætt var við voru eignavarin eða í erlendri mynt. Sú umkvörtun kom ekki aðeins frá viðskiptabönkunum sjálfum heldur einnig úr röðum stjórnmálamanna.“ Þessi lýsing endurskoðandans er hárrétt. Seðlabankar hvarvetna veittu bönkum um þessar mundir mjög mikla fyrirgreiðslu án sérvarinna veða, en auðvitað aðeins bönkum sem voru með eiginfjárstöðu í lagi samkvæmt endurskoðuðum reikningum. Fer því fjarri að allt það dæmi hafi verið gert upp. Naumast er lengur um það deilt, enda óvéfengjanlegt, að Seðlabankinn gerði sér fyrstur stjórnvalda grein fyrir þeim erfiðleikum sem bankar gætu lent í vegna fjármögnunarvanda í erlendri mynt. Gerði hann inn á við ítrekað grein fyrir sínum áhyggjum og út á við í þeim mæli sem óhætt væri, ef hann ætlaði ekki að flýta fyrir falli bankanna. Þótt jafnvel harðsvíruðustu spunameistarar geti nú orðið ekki annað en viðurkennt þessa staðreynd, telja þeir sig eiga krók á móti bragði. Þeir spyrja sem svo: Fyrst Seðlabankinn hafði þessar miklu áhyggjur af því að bankarnir gætu ekki mætt erlendri fjármögnunarþörf sinni þegar liði á árið 2008, hví hættu þeir ekki að lána bönkunum, þegar þeim varð þetta ljóst? Þetta virðist við fyrstu sýn vera réttlætanleg spurning, en þó er ekki allt sem sýnist. Ef Seðlabankinn hefði lýst því yfir að hann veitti ekki lán sem hefðu viðskiptabankana þrjá að veði hefðu þeir orðið að loka fáum mínútum eða klukkustundum síðar. Þá væru sjálfsagt ekki neinir í vafa um hver eða hverjir hefðu komið bönkunum á hausinn! En þess utan var staðreyndin sú að ekki varð betur séð, samkvæmt endurskoðuðum reikningum og ársfjórðungsskýrslum að eignastaða bankanna væri slík, að þótt þeir gætu ekki lengur haldið úti rekstri myndu veð halda í uppgjöri að mestu eða öllu leyti.

Samfylkingarmenn kenna öðrum en bankamönnum um bankahrunið

Um framangreind atriði segir hinn reyndi endurskoðandi í grein sinni: „Í reikningsskilum viðskiptabankanna í árslok 2007 og á miðju árinu 2008 kom fram að afskriftareikningar útlána námu aðeins 1% af útlánum. Þremur mánuðum síðar sýndist því haldið fram að afskriftareikningur þyrfti að vera 50% eða jafnvel hærri. Hvernig í dauðanum mátti þetta vera? Það er aldeilis fráleitt að hiksti í endurfjármögnun á hægri hlið efnahagsreiknings leiði sjálfkrafa til þess að eignahliðin hrynji; þar á milli er ekki beint orsakasamband.“ Síðar í sömu grein kemur skýringin fram. Eftir að bankarnir eru komnir í þrot og ekki er lengur hægt að vera með feluleik og fegrunaraðgerðir og rýnt er í gögn sem að baki lágu þá sést að „stór hluti afkomunnar var bara froða“. Það hefur verið ríkur vilji til þess, ekki síst hjá samfylkingarmönnum og spunameisturum þeirra að kenna öðrum um bankahrunið en bankamönnunum sem ábyrgðina báru og eigendum bakanna, sem jafnframt voru stærstu skuldararnir. Jafnvel þeim sem andæfðu og vöruðu við er reynt að stilla upp í sökunautaforystu. Hvernig stendur á þessu? Einhvern tíma munu fást svör við því.

Veð eru tekin í eignum, ekki skuldum

Það átti að vera hápunktur herferðarinnar sem átti að leiða til þeirrar sælu niðurstöðu að „tap Seðlabankans væri mesta tap alls hrunsins og þungbærara en sjálft Icesaveklúður ríkisstjórnarinnar að fá virtan samfylkingarfræðimann, sem verið hefði í útlöndum og þekkti fræga menn, til að slá lokastrikið undir ófrægingarlotuna. Þá þyrfti ekki lengur um málið að deila. En það fékk illan endi og það var með vísun til þess sem fyrirsögn bréfsins var valin. Fræðimaðurinn hellti sér yfir Seðlabankafólkið af miklu yfirlæti, eins og slíkum er tamt og sagði að því hefði borið að taka veð í innistæðum innistæðueigenda í bönkunum! Hann er vísast eini maðurinn sem vitað er um að hafi samtímis farið út af í fyrstu beygju og gatað á fyrsta efnisatriðinu í bókinni fyrir byrjendur. Bankar skulda innistæðueigendum innistæður þeirra en eiga þær ekki. Á fyrsta ári í verslunarskóla vita allir menn, líka þeir sem lesa ekki heima að menn taka veð í eignum manna eða banka en ekki í skuldum þeirra! Hafi hinn mikli fræðimaður samfylkingarinnar unnið í Seðlabanka Bandaríkjanna hlýtur það að hafa verið í uppvaskinu.