[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Friðrik G. Friðriksson gagnrýndi Haga í Silfri Egils síðasta sunnudag fyrir markaðsráðandi stöðu og sagði að fyrirtækið héldi öðrum markaðsaðilum í heljargreipum og skipta þyrfti um eigendur.
Friðrik G. Friðriksson gagnrýndi Haga í Silfri Egils síðasta sunnudag fyrir markaðsráðandi stöðu og sagði að fyrirtækið héldi öðrum markaðsaðilum í heljargreipum og skipta þyrfti um eigendur. Friðrik rifjaði upp viðtal við Jóhannes Jónsson kaupmann sem birtist í Tímanum 26. mars 1991. Jóhannes hafði þá stofnað Bónus og var að reyna að keppa við Hagkaup, sem þá var risinn á íslenskum matvörumarkaði.

Jóhannes sagði m.a. við Tímann:

„Það er afar óhollt í kapítalísku þjóðfélagi, að eitt fyrirtæki verði svo stórt að það nái kannski 30-40% markaðshlutdeild. Það á sér hvergi hliðstæðu í nágrannalöndum okkar að eitt fyrirtæki nái slíkum tökum. Það eru rosaleg völd fólgin í því að vera smásali. Náir þú góðum tökum á smásölumarkaði, þá nærð þú líka kerfisbundið tökum á ákveðnum iðnaði. Það er mjög hættulegt bæði framleiðendum og innflytjendum verði einn smásali mjög stór.“

Þessi sami Jóhannes, jafnan kenndur við Bónus, sagði í grein hér í Morgunblaðinu sl. fimmtudag að neytendur sjálfir ættu að fá að ráða því hvar þeir versla, en ekki stjórnvöld. Jóhannes minnist ekki einu orði á einokun, eða markaðsráðandi stöðu og hættur hennar fyrir neytendur. Hvert orð hans er augljóslega gleymt frá því fyrir 18 árum, enda Jóhannes nú í hlutverki einokunarrisans alltumlykjandi, en ekki þess litla sem er að reyna að brjótast inn á samkeppnismarkað. Orð Jóhannesar frá því fyrir 18 árum hitta hann sjálfan fyrir eins og búmerang.

Jóhannes segir líka að Bónus hafi aldrei gengið betur. Já, reksturinn hjá Jóa karlinum í Bónus gengur svo vel að hann vílar ekki fyrir sér að kaupa fjórar heilsíðuauglýsingar undir Bónustilboðin í fimmtudagsblaði Fréttablaðsins og þá eru ótaldar aðrar tíu heilsíðuauglýsingar í sama blaði frá Hagkaupum, Debenhams, Blómavali, Húsasmiðjunni, Smáralind og Kringlunni. Góði reksturinn á verslunum þeirra Bónusfeðga fer létt með að kaupa eins og fimmtán litlar heilsíður af auglýsingum í einu og sama dagblaðinu, þeirra dagblaði að sjálfsögðu. Þetta hefði ónefndur fyrrverandi utanríkisráðherra sennilega kallað „Rífandi gang“!

Jóhannes ræðir í engu gagnrýni og ásakanir um að Bónus beiti birgja óeðlilegum þrýstingi, sem Jón Gerald Sullenberger hefur haldið fram fullum fetum að væri staðreynd og að birgjar þyrðu einfaldlega ekki að eiga í viðskiptum við hann af hræðslu við Bónusveldið, en Jóhannes fær ekki betur séð en keppinautarnir lifi góðu lífi. Honum tekst að telja upp heila tvo keppinauta, Fjarðarkaup og Melabúðina.

„Sem betur fer ræður fólk því, hvar það kaupir í matinn og enginn er dreginn nauðugur inn í Bónus. Bónus hefur einfaldlega ódýrari vörur að bjóða og þess vegna koma viðskiptavinirnir og hafa gert í 20 ár. Ég hef heldur ekki heyrt að framleiðendur neiti að selja Fjarðarkaupum eða Melabúðinni vörur. Reyndar sé ég ekki betur en þessi fyrirtæki lifi bara góðu lífi á markaðnum hlið við hlið,“ segir kaupmaðurinn kokhrausti.

Í aprílmánuði 2006 fór ég til Bretlands til þess að eiga viðtal við Jim Dowd, þingmann Verkamannaflokksins, sem var formaður þingnefndar sem kannaði smásölumarkaðinn í Bretlandi og sérstaklega áhrif þess á neytendur og samkeppni í Bretlandi að Tesco var komið með yfir 30% markaðshlutdeild í smásölunni á Bretlandseyjum. Þetta var Bretum mikið áhyggjuefni.

Í grein sem ég skrifaði eftir heimkomuna stóð m.a. í inngangi: „Um margra ára skeið hefur átt sér stað umræða hér á landi, ekki síst á síðum Morgunblaðsins um samþjöppun á smásölumarkaði á Íslandi, einkum matvörumarkaði, þar sem fáir stórir skipta með sér svo til allri kökunni. Í Bretlandi hefur sama umræða staðið um nokkurra ára skeið og nú er það jafnvel til skoðunar að breyta lögum þar í landi til þess að torvelda þeim stóru að verða enn stærri.“

Orðrétt sagði Jim Dowd m.a.: „Segja má að einstaklingur í dag geti farið í gegnum lífið allt og aldrei verslað annars staðar en í Tesco. Frá vöggu til grafar getur Tesco fullnægt öllum þörfum einstaklingsins. Er það slík einsleitni sem við viljum festa í sessi? Tesco selur allt frá dagblöðum til bíla. Hvers konar matvöru, húsgögn og hvaðeina og þeir hafa verið að dýpka markaðshlutdeild sína að undanförnu. Ég nefni Tesco sérstaklega af þeirri einu ástæðu að þeir eru langstærstir, með um 30% markaðshlutdeild og með yfirlýst áform um að stækka verulega á næstu árum.“

Er ekki sama staða hjá okkur og hjá Bretum, nema hvað markaðshlutdeild Bónusfeðga er miklum mun meiri en Tesco í Bretlandi? Geta Íslendingar ekki bara siglt í gegnum lífið frá vöggu til grafar án þess að versla nokkurn tíma við aðra en þá Bónusfeðga? Er það slík einsleitni sem við viljum?!

agnes@mbl.is