Reykjavík Miðborgin hefur eflst og fá verslunarrými eru laus í dag.
Reykjavík Miðborgin hefur eflst og fá verslunarrými eru laus í dag. — Morgunblaðið/Kristinn
„Í MIÐBORGINNI eru mörg brýn viðfangsefni sem nú verður gerlegt að sinna á sameiginlegum vettvangi kaupmanna, rekstraraðila, yfirvalda og annarra sem láta sig þetta svæði varða,“ segir Jakob Frímann Magnússon framkvæmdastjóri Miðborgarinnar...
„Í MIÐBORGINNI eru mörg brýn viðfangsefni sem nú verður gerlegt að sinna á sameiginlegum vettvangi kaupmanna, rekstraraðila, yfirvalda og annarra sem láta sig þetta svæði varða,“ segir Jakob Frímann Magnússon framkvæmdastjóri Miðborgarinnar okkar.

Á dögunum var haldinn stofnfundar nýs félags kaupmanna og rekstraraðila í miðborginni í samráði og samstarfi við Reykjavíkurborg. Borgarráð hefur gert samþykkt um samstarf og stuðning við félagið sem heitir Miðborgin okkar. Magnús Gunnlaugur Friðgeirsson var kjörinn fyrsti formaður félagsins, sem hefur það yfirlýsta markmið að stuðla að uppbyggingu, eflingu og markaðssetningu miðborgarinnar sem öflugs verslunar- og þjónustukjarna.

Hrein borg og hagstæð króna

Á þriðja hundrað aðila koma að félaginu og fer fjölgandi. „Miðborgin hefur að sumu leyti átt undir högg að sækja en allt er þar að færast til betri vegar að mínu mati,“ segir Jakob Frímann. „Eindrægni ríkir meðal þeirra sem aðild eiga að þessum vettvangi og menn ætla sér að snúa vörn í sókn. Raunar er staðan í miðborginni í dag ekki verri en svo að litlu færri verslunarrými eru þar í dag sem standa auð en þegar góðærið stóð sem hæst. Það má að hluta þakka dugnaði þeirra sem þarna starfa en einnig hefur gengi krónunnar átt sinn þátt í að erlendum ferðamönnum og viðskiptavinum hefur fjölgað til muna á milli ára. Þá hafa borgaryfirvöld kappkostað að halda verslunarkjarna miðborgarinnar hreinum og aðlaðandi. Senn líður að frágangi svæðisins á horni Austurstrætis og Lækjargötu, að ekki sé talað um þann gimstein sem Tónlistarhúsið verður.“