Ýsuafli Í fyrra var 1.935 tonnum af ýsu hent í hafið og 1.090 tonnum af þorski samkvæmt mælingum á brottkasti. Það hafði heldur minnkað frá 2007.
Ýsuafli Í fyrra var 1.935 tonnum af ýsu hent í hafið og 1.090 tonnum af þorski samkvæmt mælingum á brottkasti. Það hafði heldur minnkað frá 2007. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tæplega sex milljón smáýsum og -þorskum var hent í hafið að meðaltali á hverju ári síðustu átta ár. Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunarinnar skilgreina þetta sem lágmarksbrottkast á Íslandsmiðum.
Eftir Ágúst Inga Jónsson

aij@mbl.is

Um þrjú þúsund tonnum af þorski og ýsu, einkum smáfiski, var hent í hafið á síðasta ári, samkvæmt mælingum Hafrannsóknastofnunarinnar. Í skýrslu um brottkastið segir að þessi þrjú þúsund tonn séu skilgreind sem lágmarksbrottkast á Íslandsmiðum hjá þeim fisktegundum sem það beinist að.

Ólafur Karvel Pálsson fiskifræðingur hefur stjórnað þessum mælingum síðustu átta ár, en um samvinnuverkefni Hafrannsóknastofnunarinnar og Fiskistofu er að ræða. Ólafur var spurður hversu mikið mætti áætla að brottkastið væri í heild. „Til að meta það þyrfti annars konar gögn heldur en við þessar mælingar og meiri rannsóknir og eftirlit,“ segir Ólafur.

„Hins vegar er að mínu mati ekki spurning að brottkastið er meira. Í raun getur hver sem er haft sína skoðun á því hversu mikið það er, en ég ímynda mér að annað brottkast sé ekki meira en sem nemur þessum þrjú þúsund tonnum.“

Ekki aukning samfara skertum heimildum

Hann segir að nokkuð skýr niðurstaða hafi fengist í þessum mælingum á brottkasti síðustu átta ár og vandinn sé augljóslega í þorski og þó einkum ýsu. Samanlagt brottkast þessara tegunda hafi ekki breyst mikið á milli ára, að árunum 2005 og 2006 undanskildum.

Ekki sé að sjá að veigamikil breyting hafi orðið á þessum tíma enda hafi ekki verið sérstakt átak í gangi á tímabilinu til að minnka brottkastið. Hann segist ekki hafa séð að brottkast hafi aukist með minni aflaheimildum.

„Aðvitað er þetta mikið magn sem er hent og væri sannarlega betur komið í landi,“ segir Ólafur. „Þó svo að talað sé um að brottkast sé sums staðar enn meira þá gerir það okkar hlut ekkert betri og það þarf að vinna meira í því að koma í veg fyrir brottkast.“

Hann segir að skoðuð hafi verið gögn fyrir aðrar tegundir, en mælingar á þeim hafi verið takmarkaðar og sjaldnast nægilegar til að meta brottkast. Aldrei hafi orðið vart brottkasts í ufsaveiðum og ekkert slíkt sé staðfest um karfa, þó sögur séu um slíkt. Brottkast á skarkola og steinbít hafi verið mælt og þó það geti verið hlutfallslega svipað og á þorski og ýsu þá sé aflinn mun minni, svo brottkastið sé ekkert í líkingu við fyrrnefndar tölur í tonnum talið.

Lengdarháð brottkast á ýsu og þorski

Í skýrslu um mælingar á brottkasti segir svo: „Aðferðin sem beitt er til að meta brottkast er háð því að tiltækar séu lengdarmælingar á afla upp úr sjó annars vegar (sjósýni), þ.e. áður en hugsanlegt brottkast á sér stað, og hinsvegar lengdarmælingar á lönduðum afla (landsýni), þ.e. eftir að brottkast hefur farið fram. Með samanburði á slíkum lengdardreifingum, og með tilteknum útreikningum, er unnt að meta brottkast, þar sem mismunur lengdardreifinganna er mælikvarði á brottkast.

Forsenda þessara útreikninga er að ekkert brottkast eigi sér stað eftir að tiltekinni lengd er náð. Aðferðin byggist þannig á því að brottkast sé lengdarháð og fiski (smáfiski) á tilteknu lengdarbili sé hent, að einhverju marki, en stærri fiskur hirtur.

Ef þessi forsenda er ekki til staðar, þ.e. ef fiski er hent tilviljunarkennt án tillits til lengdar, t.d. skemmdum fiski, eða öllum fiski af tiltekinni tegund er hent, t.d. vegna kvótastöðu útgerðar, þá er aðferðin ónothæf til að meta slíkt brottkast. Brottkast af þeim toga væri því viðbót við brottkast sem mælt er með þessari lengdarháðu aðferð.

Ætla verður að slíkt brottkast eigi sér stað í fiskveiðunum, en umfang þess er óþekkt stærð. Mat á slíku brottkasti krefst annarra gagna og aðferða en hér er beitt. Slík gögn eru ekki tiltæk og því ekki unnt að gera grein fyrir heildarumfangi brottkasts. Það brottkast sem lýst er í þessari grein er því skilgreint sem lágmarksbrottkast á Íslandsmiðum hjá þeim fisktegundum sem það beinist að.“