Heimsmet Bob Beamon svífur inn í ódauðleikann á Ólympíuleikunum 1968.
Heimsmet Bob Beamon svífur inn í ódauðleikann á Ólympíuleikunum 1968.
Sex sekúndur. Það tók Bob Beamon ekki lengri tíma að stökkva inn í sögubækurnar. Heimsmetið í langstökki sem hann setti á Ólympíuleikunum í Mexíkóborg 18. október 1968, 8,90 metrar, stóð óhaggað í 23 ár og þykir einn merkasti viðburður íþróttasögunnar.
Sex sekúndur. Það tók Bob Beamon ekki lengri tíma að stökkva inn í sögubækurnar. Heimsmetið í langstökki sem hann setti á Ólympíuleikunum í Mexíkóborg 18. október 1968, 8,90 metrar, stóð óhaggað í 23 ár og þykir einn merkasti viðburður íþróttasögunnar.

Heimsmetið í greininni hafði verið slegið þrettán sinnum frá aldamótunum 1900 og var meðalbætingin 6 sentimetrar, mest hafði metið verið bætt um 15 sentimetra. Þennan sögulega dag í Mexíkóborg bætti Bob Beamon heimsmetið um hvorki meira né minna en 55 sentimetra.

Heimurinn stóð á öndinni meðan þessi 22 ára gamli Bandaríkjamaður tók nítján skrefa atrennu og sveif síðan eins og fuglinn frjáls tæpa níu metra. Ekki dró það úr spennunni að mælibúnaður mótsins var ekki hannaður til að mæla svona langt stökk og því urðu menn að bregða gamla góða málbandinu á loft. Andrúmsloftið var rafmagnað á meðan.

Þegar Beamon dustaði af sér sandinn vissi hann að stökkið var gott, skokk hans var skrykkjótt á leiðinni til baka, en það var ekki fyrr en þjálfari hans og félagi í bandaríska landsliðinu, Ralph Boston, tjáði honum að hann hefði rústað heimsmetinu að hann gerði sér grein fyrir afrekinu. Við það hneig hann niður og huldi andlitið í höndum sér.

Búinn að eyðileggja greinina

Keppinautar hans hjálpuðu honum á fætur – furðulostnir. „Við erum eins og börn í samanburði við þetta stökk,“ sagði Sovétmaðurinn Igor Ter-Ovanesyan, handhafi gamla heimsmetsins, og Ólympíumeistarinn frá leikunum 1964, Lynn Davies, kvað enn sterkar að orði. „Þú ert búinn að eyðileggja greinina,“ fullyrti hann við Beamon.

Heimsmethafinn nýbakaði var alveg jafnundrandi og aðrir. „Ég hægði aðeins á mér áður en ég kom að plankanum en það skiptir iðulega sköpum eigi stökkið að vera gott. Hugurinn var tómur meðan ég stökk, eftir að hafa stokkið svona oft verða stökkin sjálfvirk. Ég var alveg jafnhissa og aðrir á lengdinni.“

Minnstu munaði raunar að Beamon yrði ekki með í lokaúrslitum í langstökkinu. Hann hafði átt frábært ár – unnið 22 af 23 mótum – en fann sig illa í forkeppninni daginn áður og gerði fyrstu tvö stökkin ógild. Ralph Boston hvatti hann hins vegar til að slaka á og stökkva upp svolítið frá plankanum í lokastökkinu. Það virkaði.

Beamon var hugsi um kvöldið. Hann hafði skömmu áður misst námsstyrk sinn við El Paso-háskólann í Texas eftir að hafa sniðgengið ásamt öðrum blökkumönnum keppni við Brigham Young, Mormónaskóla sem brigslað var um kynþáttamisrétti. Þá hafði honum sinnast við spúsu sína. „Það var allt að.“

Til að slaka á brá kappinn sér í bæinn, þar sem hann skellti í sig einu tequila-skoti. „Við það losnaði um spennuna og ég svaf eins og hestur,“ rifjaði hann síðar upp.

Meðvindur og þunnt loft

Að vonum var Beamon hylltur eftir metstökkið. Úrtölumenn gáfu sig þó fram og bentu á, að meðvindur hefði verið eins mikill og mögulega má, tveir metrar, og þunna loftið í Mexíkó hefði haft sín áhrif. Það er alveg rétt. Á móti kemur að allir bestu langstökkvarar heims voru meðal keppenda þennan dag og enginn þeirra komst með tærnar þar sem Beamon hafði hælana. Klaus Beer varð annar með 8,19 metra.

Beamon var viðkvæmur maður að eðlisfari og honum sárnuðu þessar efasemdaraddir. „Sumir sögðu að stökk mitt á Ólympíuleikunum hefði verið heppni. Maður tekur vangaveltur af þessu tagi nærri sér með tímanum,“ er haft eftir honum.

„Hvað geri ég eftir þetta?“ minnist hann að hafa hugsað á verðlaunapallinum. Í þeim skilningi hafði hann stokkið inn í tómið.

Það fór líka svo að Beamon komst aldrei nálægt því að bæta heimsmet sitt, stökk lengst 8,22 metra eftir Ólympíuleikana í Mexíkóborg. Hann meiddist illa árið 1970 og náði sér aldrei á strik eftir það. Smám saman hvarf hann af sjónarsviðinu.

Þess í stað gekk Beamon menntaveginn en hann lauk háskólaprófi í sálfræði árið 1972. Hann hefur unnið ötullega að félagsmálum frá því hann lagði keppnisskóna á hilluna, ekki síst með ungu fólki, og er virtur fyrirlesari. Beamon hefur af miklu að miðla en hann missti móður sína átta mánaða gamall og ólst upp við kröpp kjör á götum Queens. Hlutskipti hans í lífinu hefði hæglega getað orðið annað. Bob Beamon er 63 ára gamall í dag og býr í Flórída.

Sem fyrr segir stóð heimsmet Beamons í 23 ár eða þangað til landi hans, Mike Powell, bætti það um fimm sentimetra í Tókíó árið 1991. Það met stendur enn. orri@mbl.is