21. október 1979 : „Einræðisherrar leggja sig jafnan mjög fram um að bæta ásjónu sína út á við. Augljóst er, að Kremlverjar hafa í hyggju að nota Olympíuleikana í Moskvu á næsta ári í þessu skyni.
21. október 1979 : „Einræðisherrar leggja sig jafnan mjög fram um að bæta ásjónu sína út á við. Augljóst er, að Kremlverjar hafa í hyggju að nota Olympíuleikana í Moskvu á næsta ári í þessu skyni. En ráðstafanirnar, sem grípa hefur orðið til í þessu kúgunarríki kommúnismans, til að leikarnir geti farið fram eru væglega til orða tekið ógeðfelldar. Hermönnum hefur verið skipað að leggja hönd á plóginn við smíði íþróttamannvirkja gegn þeirri einu þóknun að fá aðgöngumiða á leikana með skipun um að hrópa hvatningarorð til eigin manna. Fangar eru látnir vinna að gerð minjagripa. Hundruðum ef ekki þúsundum saman eru Moskvubúar fluttir frá heimilum sínum til þess, að þeir geti ekki komist í kynni við þá útlendinga, sem leikana sækja. Fangelsisdvöl manna er lengd og þannig mætti áfram telja þær hliðaraðgerðir, sem ráðstjórnin grípur til, þegar hún á von á fjölda gesta í heimsókn.“

22. október 1989 : „Borgarleikhús var formlega tekið í notkun á föstudagskvöld. Þar hefur Leikfélag Reykjavíkur fengið nýjan samastað. Áralöng barátta hefur borið ríkulegan ávöxt. Á engan er hallað, þegar sagt er, að Davíð Oddsson borgarstjóri hafi lagt það lóð á vogarskálina, sem þurfti til að ljúka þessu mikla verki með þeim glæsibrag, sem raun ber vitni. Þorsteinn Ö. Stephensen leikari sem flutti síðustu ræðuna við hátíðina í fyrrakvöld þakkaði Davíð sérstaklega og sagði engu líkara en leiklistargyðjan Þalía hefði snortið hann. Umbúnaður um leikara og gesti er allur annar í hinu nýja húsi en gamla Iðnó, þar sem Leikfélag Reykjavíkur hefur vaxið og dafnað og skapað listaverk sem féllu jafnt að þeim stakki og höfðuðu oft einstaklega vel til leikhúsgesta. Nýtt hús krefst nýs stíls. Baráttan fyrir þessu nýja húsi hefur um langt skeið sett svip sinn á starf Leikfélags Reykjavíkur. Henni er nú lokið á farsælan hátt.“