Eftir Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is „ÞAÐ er ekkert eftir,“ segir Jónína Björg Ingvarsdóttir, en hún komst að því á föstudagskvöld að dýrmætu steinasafni þeirra hjóna á Teigarhorni við Berufjörð hafði verið stolið.
Eftir Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

„ÞAÐ er ekkert eftir,“ segir Jónína Björg Ingvarsdóttir, en hún komst að því á föstudagskvöld að dýrmætu steinasafni þeirra hjóna á Teigarhorni við Berufjörð hafði verið stolið. Hún metur safnið á um 15 milljónir króna og segir það hafa verið ótryggt.

Hjónin hafa verið með ferðatengda þjónustu á Teigarhorni undanfarin 17 ár. Jónína Björg segir að á þessum tíma hafi þau komið sér upp fágætu steinasafni. Eiginmaðurinn sé krabbameinssjúklingur og vegna læknismeðferðar hafi þau lítið getað verið á bænum í sumar og hafi farið alfarin suður í byrjun ágúst. Áður hafi þau gengið vandlega frá öllu og skemman, þar sem steinarnir hafi verið geymdir, hafi verið læst auk þess sem járnhlerar hafi verið settir fyrir gluggana.

Kunnugir þjófar

„Um 500 steinar hafa verið teknir,“ segir Jónína Björg og bætir við að hreinsað hafi verið út úr sýningarskápum og af nýuppstilltu söluborðinu. Hún segir augljóst að þjófarnir hafi þekkt vel til og gefið sér nægan tíma til þess að athafna sig. Hvorki hafi verið farið í útihúsin né íbúðarhúsið heldur aðeins í skemmuna. „Þetta eru menn sem þekkja greinilega vel til,“ segir Jónína Björg. Lögreglan var kölluð til og málið er í rannsókn.