Tvíeyki Lady & Bird „... er efnið sem listamennirnir hafa úr að spila úrvalsgott ... og Þorvaldur Bjarni útsetur músíkina með miklum bravúr.“
Tvíeyki Lady & Bird „... er efnið sem listamennirnir hafa úr að spila úrvalsgott ... og Þorvaldur Bjarni útsetur músíkina með miklum bravúr.“ — Ljósmynd/Kjartan
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er ekki ofsagt að Barði Jóhannsson, jafnan kenndur við hljómsveitarnafnið Bang Gang, hafi fundið sálufélaga sinn – tónlistarlega séð – í söngkonunni Keren Ann Zeidel.
Það er ekki ofsagt að Barði Jóhannsson, jafnan kenndur við hljómsveitarnafnið Bang Gang, hafi fundið sálufélaga sinn – tónlistarlega séð – í söngkonunni Keren Ann Zeidel. Samstarfsverkefni þeirra, hvar þau kalla sig Lady & Bird, gengur sérdeilis vel upp enda fellur rödd Keren fullkomlega að hinni melódísku músík Barða. Á síðasta ári fengu gestir Listahátíðar í Reykjavík að hlýða á tónlist tvíeykisins með nýstárlegum formerkjum, en þá héldu þau tónleika í Háskólabíó ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands í samvinnu við Listahátíð í Reykjavík. Lögin sem flutt voru á tónleikunum voru útsett fyrir sinfóníu af Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni og í kjölfar flutningsins fór Frakklandsarmur útgáfufyrirtækisins EMI þess á leit við listamennina að gefa afraksturinn út. Hann er hér kominn undir heitinu La Ballade Of Lady & Bird og er í stuttu máli sagt happafengur.

Sitt í hvoru lagi hafa þau Barði og Keren Ann sent frá sér úrvalsefni hingað til og því ekki við öðru að búast en að þeim færist vel úr hendi að spila og semja saman. Sú hefur líka verið raunin og því er nægur efniviður við hendina til að moða úr eins og eina tónleikadagskrá. Lögin á diskinum eru fimmtán talsins og skipta þau plássinu nokkurn veginn jafnt sín á milli; aðallega er um sólóefni þeirra að ræða og er aðeins eitt lag af samnefndri plötu þeirra frá 2006. Eins og fyrr sagði er efnið sem listamennirnir hafa úr að spila úrvalsgott, lögin allajafna seiðandi og melódísk, og Þorvaldur Bjarni útsetur músíkina með miklum bravúr. Útkoman er enda feikivel heppnuð á alla kanta og fagnaðarefni að tónleikarnir skyldu teknir upp á sínum tíma og gefnir út í framhaldinu.

Úr vöndu er að ráða ef nefna á einhver eftirlætislög á La Ballade Of Lady & Bird , en útsetningin á „Not Going Anywhere“ er meistaralega vel heppnuð, „One More Trip“ sömuleiðis og síðast en ekki síst „For You And I“. Í síðastnefnda laginu minnir margslungin laglínan einna helst á eitthvað sem franski dúettinn Air væri líklegur til að hrista fram úr erminni. En restin er ekkert slor heldur; ljóst er að ekki var í kot vísað í Háskólabíó fyrir gestina og stemmningin skilar sér bráðvel gegnum þessa afbragðs upptöku.

JÓN AGNAR ÓLASON