Síðustu vikur og mánuðir hafa sýnt og sannað að það er barnsleg og bjartsýn hugmynd að ætla þingmönnum að hafa vit fyrir þjóð sinni. Þjóðin ber ekki lengur traust til þingmanna sinna enda hafa þeir lítið gert til að vinna til þess.
Síðustu vikur og mánuðir hafa sýnt og sannað að það er barnsleg og bjartsýn hugmynd að ætla þingmönnum að hafa vit fyrir þjóð sinni. Þjóðin ber ekki lengur traust til þingmanna sinna enda hafa þeir lítið gert til að vinna til þess. Frá þessu, eins og flestu, eru þó undantekningar og má þar helst nefna Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon sem hafa unnið af heilindum og heiðarleika. Verst að þau virðast nær ein á báti í þeim efnum.

Stjórnarandstöðuflokkarnir hegða sér einkennilega. Í draumkenndu ástandi lagðist Framsóknarflokkurinn í betliför til Noregs til að fá lán sem átti að bjarga þjóðinni en varð til athlægis þegar í ljós kom að lánið var einungis til í ímyndun þeirra. Sjálfstæðismenn gera síðan allt sem þeir geta til að vekja athygli landsmanna á því að allt væri hér á betri veg væru þeir við völd. Þeir lifa í þeirri von að þjóðin sé búin að gleyma því að það var einmitt stefna þeirra í áratugi sem leiddi þjóðina á brún gjaldþrots. Svo er Borgarahreyfingin, eða Hreyfingin, eða hvað það lið heitir nú í dag. Þar á bæ héldu menn að leiðin til að ná árangri í pólitík væri að gjamma sem mest í ræðupúlti á Alþingi um eigið ágæti. Það fór eins og það fór. Nú nýtur þessi hreyfing, sem átti að vera hreyfing fólksins, einskis trausts. Og þá er eftir að telja upp þann stjórnarandstöðuflokk sem er enn verri en þeir áðurnefndu og það er andófshreyfingin í Vinstri-grænum sem kennir sig óspart við samvisku sína. Þetta afl innan Vinstri-grænna er beinlínis að vinna gegn lausn brýnna mála og þar með gegn þjóðarhag.

Á tímum þegar þjóðin gerir kröfu til þess að stjórnmálamenn vinni saman, komist að samkomulagi og leysi úr stærstu vandamálunum sem við blasa kjósa stjórnmálamenn að halda áfram sandkassaleikjum og vera á móti lausnum bara vegna þess að þær komu ekki frá mönnum í „réttu“ liði. Menn geta komist upp með þannig leiki í góðæri og þá verður skaðinn ekki mikill. En á erfiðleikatímum verða slíkir sandkassaleikir hættulegir fyrir land og þjóð því þeir tefja afgreiðslu mikilvægra mála og koma þeim í enn verri farveg en fyrr.

En það er eins og stjórnmálamennirnir skilji þetta ekki. Þeir halda bara áfram að leika sér eins og ekkert hafi gerst. Kannski kunna þeir ekkert annað og sennilega er vit þeirra bara ekki meira en þetta. En þá vaknar sú spurning af hverju heiðarlegt og skynsamt fólk með sæmilega jarðtengingu sækir ekki í stjórnmálin. Ein ástæðan gæti verið sú að launin eru ekki nema þokkaleg. Önnur ástæða er einnig líkleg, en hún er sú að fólki með góða greind og skynsemd líkar ekki það sem það sér í íslenskri pólitík. Það vill ekki fara í sandkassann. Enda er hann einungis fyrir óþroskaðar sálir.

kolbrun@mbl.is

Kolbrún Bergþórsdóttir