Halldóra Sigurlaug Jónsdóttir fæddist í Þverárdal í Bólstaðarhlíðarhreppi, Austur-Húnavatnssýslu, 11. mars 1921. Hún andaðist á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar föstudaginn 25. september 2009.

Foreldrar Halldóru voru Jón Björnsson bóndi á Heiði, f. á Ytri-Löngumýri í Blöndudal, Austur-Húnavatnssýslu 17. júlí 1891, d. 27. júlí 1983, og Finney Reginbaldsdóttir húsfreyja, f. á Látrum í Aðalvík, Norður-Ísafjarðarsýslu 22. júní 1897, d. 7. desember 1988. Systir Halldóru er Sigríður Jóhanna Jóhannsdóttir, f. 28. apríl 1923. Kjörforeldrar Sigríðar Jóhönnu voru Jóhann Einarsson, f. 22. desember 1885, d. 9. apríl 1973 og Sigríður Þórunn Sigurðardóttir, f. 22.desember 1885, d. 1. júlí 1974.

Þann 24. ágúst 1946 giftist Halldóra, á Hólum í Hjaltadal, Jóhannesi Þórðarsyni yfirlögregluþjóni, f. á Siglufirði 29. september 1919. Foreldrar Jóhannesar voru Þórður Guðni Jóhannesson, f. á Sævarlandi, Laxárdal ytri, Skagafirði, 13. júlí 1890, d. 15. mars 1978, og Þórunn Ólafsdóttir, f. í Reykjavík 14. apríl 1884, d. 28. nóvember 1972.

Börn Halldóru og Jóhannesar eru: 1) Jón Finnur rafiðnfræðingur, f. 24. september 1951, d. 28. maí 2003. Fyrri kona hans er Guðrún Helga Hjartardóttur, f. 25. desember 1961. Þau skildu. Seinni kona hans er Ólafía Margrét Guðmundsdóttir ljósmóðir, f. 28. mars 1955. Dóttir þeirra er Margrét Finney, f. 12. desember 1997. Synir Jóns Finns eru: a) Jóhannes Már, f. 30. september 1974, móðir hans er Þóra Hansdóttir, f. 26.júlí 1954. Kona hans er Halldóra Íris Sigurgeirsdóttir, f. 14. desember 1972. Dóttir þeirra er Eydís Ósk, f. 10. mars 1999. b) Kjartan Orri, f. 20. júní 1978, móðir hans er Þorgerður Heiðrún Hlöðversdóttir, f. 3. ágúst 1955. 2) Soffía Guðbjörg hjúkrunarfræðingur, f. 11. maí 1957, maður hennar er Ólafur Kristinn Ólafs viðskiptafræðingur, f. 11. maí 1957. Dætur þeirra eru: a) Halldóra Sigurlaug, f. 23. júní 1985 og b) Magnea Jónína, f. 14. nóvember 1989.

Halldóra ólst upp í Skagafirði. Fram til 5 ára aldurs bjó hún á Sjávarborg í Borgarsveit og til 15 ára aldurs á Heiði í Gönguskörðum er hún flutti til Sauðárkróks. Hún hóf skólagöngu sína í farskólum til skiptis á bæjunum Heiði og Veðramóti og útskrifaðist gagnfræðingur frá Sauðárkróki. Hún stundaði síðan nám í húsmæðradeild Kvennaskólans í Reykjavík. Halldóra fór þá til starfa á Sjúkrahúsi Siglufjarðar. Á Siglufirði kynntist hún eftirlifandi eiginmanni sínum Jóhannesi Þórðarsyni og bjuggu þau þar eftir það. Halldóra vann meðal annars við verslunarstörf, síldarsöltun og ræstingar. Halldóra starfaði mikið að félagsmálum og lét til sín taka í mörgum félagasamtökum, meðal annars í Slysavarnafélaginu, Rauða krossinum, Krabbameinsfélaginu, Hjartavernd og Framsóknarflokknum. Í mörgum félögunum á Siglufirði var hún formaður um langt skeið. Hún starfaði jafnframt í nefndum á vegum Siglufjarðarbæjar.

Útför Halldóru fór fram í kyrrþey frá Siglufjarðarkirkju 17. október 2009.

Halldóra fluttist ung til Siglufjarðar þar sem hún fann sinn lífsförunaut Jóhannes Þórðarson. Þar bjuggu þau sér einstaklega fagurt heimili, sem margir eiga minningar um að hafa notið gestrisni og átt notalegar stundir. Þau eignuðust börnin sín tvö og komu þeim báðum til mennta. Ég kynnist Halldóru þegar við fórum að vinna saman í félagsmálum, hún var gjaldkeri í stjórn Framsóknarfélags Siglufjarðar meðan ég var formaður í rúma þrjá áratugi. Við áttum mjög gott samstarf. Elja hennar og dugnaður var mikill og er best lýst með orðum eins kunningja míns í öðrum flokki þegar hann sagði „Mikið öfunda ég þig að hafa hana Halldóru með ykkur“.

Það var eftir því tekið í Siglufirði þegar hún tók til hendinni og lagði málum lið.

Hún hafði orðið fyrir því á besta aldri að fá krabbamein sem hún læknaðist af, þá snéri hún sér af alvöru að störfum á félagsmálasviði. Þegar hún tók við formennsku í Krabbameinsfélagi Siglufjarðar fékk hún mig til þess að vera með sér í stjórn félagsins í mörg ár. Var það mér lærdómsríkt að vinna með henni. Félagið var ekki fjársterkt, en hún var fundvís á einstaklinga, sem áttu um sárt að binda, og veitti þeim stuðning. Þátttaka í hóprannsóknum vegna krabbameinsleitar á Siglufirði var með hæstu mætingu yfir landið í mörg skipti. Það var mikið að þakka hennar dugnaði og árvekni.

Halldóra var valin af bæjarstjórn Siglufjarðar í bygginganefnd Dvalarheimilis aldraða á Siglufirði. Störf hennar við það verkefni ber að þakka. Þetta hús er Siglufirði til mikils sóma og er öldruðum skjól í ellinni.

Hún sat í félagsmálanefnd fyrir Framsóknarflokkinn og skilaði þar starfi sem ástæða er að þakka fyrir. Halldóra var ein af stofnendum LFK 1981 og var í fyrstu stjórn samtakanna.

Þegar við hættum útgerð Togskips hf. 1982 falaðist Halldóra eftir húsnæði sem fyrirtækið átti og var ekki í notkun. Skemmst er frá því að segja að Slysavarnafélaginu var gefið húsið en Halldóra var þá formaður Slysavarnadeildarinnar Varnar. Það liðu ekki mörg ár þar til húsið hafði verið innréttað með góðum fundarsal á efri hæð og aðstöðu fyrir félagsstarfsemi Björgunarsveitarinnar Stráka á neðri hæð hússins.

Svipaða sögu er að segja um starfsemi Rauða krossins á Siglufirði þar sem hún tók við formennsku og kom upp félagsheimili á Aðalgötu 23. Í fjölda ára stóð hún ásamt Jóhannesi fyrir fatasöfnun ásamt öðrum störfum fyrir samtökin.

Halldóra var heiðruð fyrir sín fórnfúsu félagsmálastörf. Henni var veitt hin íslenska Fálkaorða og heiðruð af Slysavarnafélagi Íslands, Krabbameinsfélagi Íslands og Rauða krossinum.

Verk sín vann hún með dyggum stuðningi Jóhannesar. Þau hjón voru mjög samrýmd og oftast nefnd í sömu andrá þegar um var rætt.

Á þessari stundu er mér efst í huga þakklæti til Halldóru sem ég var svo heppinn að kynnast og fá að vinna með til fjölda ára, það starf var bæði þroskandi og mannbætandi.

Aðstandendum hennar sendum við Auður innilegar samúðarkveðjur.

Sverrir Sveinsson.

Á æskuheimili mínu á Siglufirði voru Halldóra og Jóhannes yfirleitt nefnd í sömu andrá. Þau voru bæði mjög ræktarsöm og miklir vinir vina sinna. Góðar minningar eru tengdar heimsóknum þessara heiðurshjóna til okkar á Hlíðarveginum og það var alltaf tekið vel á móti okkur þegar við komum á Hverfisgötuna. Halldóra hafði ákveðnar skoðanir á umræðuefnum líðandi stundar, var vel að sér um menn og málefni og hafði alltaf eitthvað til málanna að leggja. Hún var mikill félagsmálafrömuður, tók virkan þátt í stjórnmálastarfi og var formaður í mörgum líknarfélögum. En fyrst og fremst bar hún hag Siglufjarðar fyrir brjósti og beitti sér í ýmsum framfaramálum bæjarins. Missir Jóhannesar, Soffíu, tengdabarna og barnabarna er mikill. Blessuð sé minning Halldóru Sigurlaugar Jónsdóttur.

Jónas Ragnarsson.