22. október 1253 Flugumýrarbrenna. Sturlungar brenndu bæinn á Flugumýri í Skagafirði, en þar stóð brúðkaup. Í brennunni fórust 25 manns. Gissur Þorvaldsson leyndist í sýrukeri, komst undan og hefndi fyrir verknaðinn. 22.

22. október 1253

Flugumýrarbrenna. Sturlungar brenndu bæinn á Flugumýri í Skagafirði, en þar stóð brúðkaup. Í brennunni fórust 25 manns. Gissur Þorvaldsson leyndist í sýrukeri, komst undan og hefndi fyrir verknaðinn.

22. október 1903

Ásgrímur Jónsson opnaði fyrstu málverkasýningu sína í Melsteðshúsi við Lækjargötu í Reykjavík og sýndi fimmtíu myndir. „Virðist hann vera mjög gott efni í listamann,“ sagði í Þjóðólfi. Í Ísafold var sagt að Íslendingar væru að eignast listmálara „sem til fulls skilur íslensku náttúruna og getur því túlkað hana“.

22. október 1965

Radar var notaður í fyrsta sinn til hraðamælinga, á Miklubraut í Reykjavík. Sá sem hraðast ók var á 95 kílómetra hraða, þrátt fyrir rigningu og dimmviðri. Tekið var fram í fréttum að ökumaðurinn hefði verið utan af landi.

22. október 1970

Sýningar hófust á sænsku kvikmyndinni Táknmál ástarinnar í Hafnarbíói. Hún var auglýst sem fræðslumynd en margir sögðu hana vera klámmynd. Þrátt fyrir mótmæli og kærur var myndin sýnd 183 sinnum og um 40 þúsund manns sáu hana.

22. október 2004

Holtasóley var valin þjóðarblóm í atkvæðagreiðslu á vegum nefndar um leitina að þjóðarblómi Íslendinga. Í næstu sætum urðu gleym-mér-ei og blóðberg.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson.