23. mars 1994 | Miðopna | 667 orð

Davíð Oddsson forsætisráðherra á fundi með fréttamönnum í Tókýó í gær Japanar

Davíð Oddsson forsætisráðherra á fundi með fréttamönnum í Tókýó í gær Japanar gætu ekki keypt afurðir vegna stefnu hvalveiðiráðsins Tókýó. Frá Benedikt Stefánssyni, fréttaritara Morgunblaðsins.

Davíð Oddsson forsætisráðherra á fundi með fréttamönnum í Tókýó í gær Japanar gætu ekki keypt afurðir vegna stefnu hvalveiðiráðsins Tókýó. Frá Benedikt Stefánssyni, fréttaritara Morgunblaðsins.

HVALVEIÐAR Íslendinga geta ekki hafist fyrr en tryggt er að hægt verði að selja afurðirnar erlendis. Ljóst er að Japanar, líkt og aðrar þjóðir innan Alþjóðahvalveiðiráðsins, ættu í erfiðleikum með að réttlæta innflutning á hvalkjöti miðað við núverandi stefnu ráðsins. Þetta kom m.a. fram á blaðamannafundi sem Davíð Oddsson forsætisráðherra hélt í Tókýó í gær. "Íslendingar töldu að Alþjóðahvalveiðiráðið lyti ekki lengur lögum heldur hefði verið tekið yfir af hagsmunahópum. Það var skoðun okkar að hryðjuverkasamtök á borð við Greenpeace hefðu mun meiri áhrif á stefnu ráðsins en eðlilegt getur talist. Af þeim ástæðum töldum við rétt að segja okkur úr ráðinu," sagði forsætisráðherra. Davíð átti einnig stuttan fund með Masayoshi Takemura, aðalritara ríkisstjórnarinnar og leiðtoga Shinseito Sakikage, Nýja forystuflokksins, síðdegis í gær.

Á fundi Davíðs og Takemura í forsætisráðuneytinu var fjallað almennt um samskipti landanna. Þar sem ferð forsætisráðherra til Japans var óformleg heimsókn í boði Japansk-íslenska vináttufélagsins og Sports Nippon-dagblaðanna, var ekki talin ástæða til þess að ræða einstök efnisatriði. Hvalveiðimál bar á góma að sögn Davíðs, en stefna ríkjanna eða framtíðahorfur voru ekki ræddar. Fundurinn stóð í um fimmtán mínútur. Morihiro Hosokawa forsætisráðherra lauk opinberri heimsókn til Kína í gær og gat því ekki tekið á móti Davíð.

Blaðamannafundur forsætisráðherra fór fram í Fréttamiðstöð Japans að viðstöddum á fimmta tug blaðamanna og ljósmyndara. Fyrirspurnir beindust einkum að hvalveiðimálinu og því hvort Davíð myndi óska eftir því við Takemura að Japanar veittu Íslendingum meiri stuðning í þessu máli, eða hvort hann myndi gefa Japönum holl ráð um stefnu þeirra. Davíð sagði ekki tilefni til að bera fram slíka ósk né hlutverk sitt að gefa slík ráð. "Ég held að japönsk stjórnvöld séu fullfær um að marka eigin stefnu," sagði hann.

Málstaður hvalveiðiþjóða að vinna á

Davíð útskýrði afstöðu Íslendinga til hvalveiða. Íslendingar teldu að nýta bæri afurðir hafsins af skynsemi og gæta jafnvægis í lífkeðjunni. Hefði þjóðin þegar sýnt ráðdeild við stjórn á fiskveiðum við landið. "Nú þegar hvalastofnarnir fara vaxandi hlýtur það að koma niður á fiskistofnunum sem eru Íslendingum svo mikilvægir. Hvalirnir munu éta meiri og meiri fisk og þannig ganga á stofnana. Ég held að málstaður okkar og, ég leyfi mér að segja, málstaður Japana muni njóta æ meira fylgis þegar fólk byrjar að hugsa um þessi efni rökrétt en ekki bara á grundvelli tilfinninga," sagði hann.

Forsætisráðherra sagði að svo virtist sem bandarísk stjórnvöld væru nú að linast í andstöðu sinni við veiðar á hvölum. Þau hefðu ekki gripið til aðgerða þegar Norðmenn hófu veiðar að nýju. Þá vekti einnig athygli að í samningi um inngöngu Norðmanna í Evrópusambandið væri gert ráð fyrir að Norðmenn mættu veiða hvali fyrst um sinn til eigin þarfa. "Íslendingar hafa hins vegar ekki bolmagn til að nýta hvalaafurðir allar innanlands. Þótt við séum miklir matmenn eins og sjá má á mér, eru því takmörk sett hvað við torgum miklu," sagði Davíð.

Forsætisráðherra var einnig spurður um viðhorf Íslendinga til inngöngu í Evrópusambandið. Sagði Davíð að Íslendingar teldu sig hafa náð flestum markmiðum inngöngu með samningi um Evrópska efnahagssvæðið. Það væri stefna ríkisstjórnarinnar að innganga í Evrópusambandið væri ekki á dagskrá. Fyrir því væru mörg rök. Þyngst vægi að Íslendingar væru ekki tilbúnir að framselja forræði yfir fiskistofnum við landið til Brussel og hættan á að glata fullveldi þjóðarinnar, sem kynni að mega sín lítils í samneyti við fjölmenn ríki álfunnar.

Viðtökur einstakar

Í samtali við fréttaritara sagði forsætisráðherra að ferðin til Japans hefði verið lærdómsrík og viðtökur einstakar. Ljóst væri að forystumenn Japansk-íslenska vináttufélagsins væru mjög áhugasamir um að kynna Ísland betur í Japan og þá kosti sem það hefur upp á að bjóða. Þætti honum mikilvægt að rækta samband við þá aðila sem væru þjóðinni vinveittir, enda gæta það ávallt borið góðan ávöxt. Forsætisráðherra átti að halda frá Tókýó í morgun og er væntanlegur til landsins í lok vikunnar.

Davíð Oddsson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.