Adolf Guðmundsson
Adolf Guðmundsson
„HUGMYNDIRNAR hljóma illa í okkar eyrum.

„HUGMYNDIRNAR hljóma illa í okkar eyrum. Við útvegsmenn höfum þó haldið því fram að svona geti gerst nái þjóðir sem eru á öndverðum meiði við hagsmuni Íslendinga, auknum meirihluta í ráðherraráði Evrópusambandsins,“ segir Adolf Guðmundsson formaður LÍÚ.

Samtök útgerðarmanna á Spáni telja mikilvægt, nú við endurskoðun á sjávarútvegsstefnu ESB, að afnema ákvæði um veiðimagn og kvóta og vilja sóknarmark með framseljanlegum veiðiréttindum. Joe Borg, fiskveiðistjóri ESB, styður þetta.

„Frakkar nýta ekki allan sinn kvóta og Spánverjar vilja komast yfir veiðiheimildirnar enda hafa þeir verið þjóða öflugastir í kvótahoppinu svonefnda. Spáverjar eru sömuleiðis áfram um að komast í íslensku landhelgina. Hafa til dæmis verið mikið á karfamiðunum á Reykjaneshrygg, sem hefur hins vegar verið erfitt að fylgjast með, enda er lítið eftirlit í höfnum ríkja ESB þegar skip koma þar til löndunar, löndunartölur liggja ekki á lausu,“ segir Adolf og kveður þetta eina ástæðu þess að útgerðarmönnum hugnast ekki aðild að ESB.

Misheppnuð stefna

Joe Borg segir að með sóknarstýringu verði öllum afla landað og þannig megi draga úr brottkasti. Þetta telur Adolf Guðmundsson fráleitt, ESB setji málið í þennan búning sem yfirklór því sjávarútvegsstefna sambandsins frá árinu 2002 hafi misheppnast. ESB hafi fyrir nokkru sett fram grænbók með hugmyndum um breytingar á sjávarútvegsstefnu sem Spánverjar og Frakkar hafi hafnað. Því séu menn að þreifa eftir málamiðlun.

„Menn ná ekki betri tökum á fiskistofnunum með sóknarstýringu. Nú þarf til dæmis að draga úr veiði í Skagerak og Norðursjó um fjórðung sem helgast af því að innan ESB er enginn hvati til að ganga vel um auðlindina. Stýring og eftirlit eru ekki til staðar,“ segir Adolf. sbs@mbl.is