ALMENN greiðslujöfnun á öllum verðtryggðum húsnæðislánum er nýjasta úrræðið sem ríkisstjórnin hefur kynnt til sögunnar fyrir heimili, einstaklinga og fyrirtæki.
ALMENN greiðslujöfnun á öllum verðtryggðum húsnæðislánum er nýjasta úrræðið sem ríkisstjórnin hefur kynnt til sögunnar fyrir heimili, einstaklinga og fyrirtæki. Greiðslujöfnunin felur í sér að upphæð afborgunar tekur mið af því sem hún var í janúar 2008 og verður hún tengd greiðslujöfnunarvísitölu í stað neysluvísitölu.

Til að byrja með lækka afborganir, en þegar fram líða stundir þyngjast þær aftur og hugsanlega verður greiðslubyrðin á endanum þyngri en hún hefði orðið án greiðslujöfnunar.

Stofnun um fjármálalæsi við Háskólann í Reykjavík telur helsta gallann við aðgerðirnar að afborganir skuli tengdar þróun launa og atvinnustigs. Þannig muni launahækkanir eins hóps hækka lán annarra og launahækkanir framtíðarinnar verði í reynd eyrnamerktar bönkunum.

Þegar greiðslugetan aukist með hækkandi launum og auknu vinnuframboði þyngist greiðslubyrðin. Hætta sé á að það leiði til þess að reynt verði að halda launum niðri.

Vilji lántakendur ekki greiðslujafna lánin sín þurfa þeir að tilkynna það til lánveitanda síns í síðasta lagi 20. nóvember. Þeir sem ekki þurfa nauðsynlega á greiðslujöfnun að halda ættu því að hugsa sinn gang.

Breytingar á afborgunum

10 milljóna króna verðtryggt íbúðalán, tekið 1. júlí 2007 með 4,15% vöxtum:

*Upphaflegar mánaðarlegar afborganir af slíku láni voru um 42.700 krónur. Sú upphæð hafði hækkað í 54.800 kr. í byrjun þessa mánaðar, eða um tæpar tólf þúsund krónur.

*Fyrsta afborgun eftir greiðslujöfnun ætti hins vegar að lækka afborganir töluvert sem yrðu þá 45.600 kr. til að byrja með.

  • Dýrara til lengri tíma | 6