STOFNUN um fjármálalæsi við Háskólann í Reykjavík telur að nýboðaðar aðgerðir í þágu heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins komi lítt að tilætluðum notum nema fyrstu þrjú til fjögur árin.
STOFNUN um fjármálalæsi við Háskólann í Reykjavík telur að nýboðaðar aðgerðir í þágu heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins komi lítt að tilætluðum notum nema fyrstu þrjú til fjögur árin. Eftir það verði heildargreiðslubyrði lána meiri ef menn tengi lán við greiðslujöfnunarvísitölu í stað tengingar við vísitölu neysluverðs. Því sé með aðgerðunum verið að ýta greiðsluvanda heimilanna á undan sér. Launahækkanir eins hóps muni hækka lán annarra hópa og launahækkanir framtíðarinnar verði í reynd eyrnamerktar bönkunum.

Helsti gallinn við aðgerðirnar sé einkum fólginn í því að afborganir lána skuli tengdar við þróun launa og atvinnustigs. Þegar greiðslugetan aukist með hækkandi launum og auknu vinnuframboði hækki greiðslubyrðin. Hætta sé á að það leiði til þess að reynt verði að halda launum niðri.