Alida Olsen Jónsdóttir fæddist á Ísafirði 22. desember 1924. Hún lést á heimili sínu 31. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Jón Bjarnason, f. að Tröð í Súðavíkurhreppi 2. janúar 1881, d. 3 júní 1929, og Daníela Jóna Samúelsdóttir, f. í Súðavík 17. september 1888, d. 17. júní 1940. Alida var yngst 13 systkina . Eldri systkinin eru nú öll látin. Eiginmaður Alidu var Kjartan Friðbjarnarson, f. í Siglufirði, 23. nóvember 1919, d. 29. apríl 2003 . Foreldrar hans voru Friðbjörn Níelsson, f. á Hallanda á Svalbarðsströnd 17. janúar 1887 og Sigríður Stefánsdóttir, f. 21. júní 1895 á Krakavöllum í Fljótum. Alida og Kjartan eignuðust 4 börn, þau eru: Ómar , f. 22. ágúst 1946, kvæntur Ragnheiði Blöndal, f. 9. mars 1943. Þau eiga fjögur börn. Ragnheiður á eitt barn úr fyrra hjónabandi. Súsanna, f. 18. nóvember 1949, gift Jakobi Halldórssyni, f. 8. nóvember 1947. Þau eiga fjögur börn, tvö þeirra eru látin. Kjartan , f. 26. apríl 1957, sambýliskona Ásta Lára Sigurðardóttir, f. 11. mars 1961. Þau eiga þrjú börn. Sigríður, f. 14. apríl 1959 og á hún þrjú börn með Smára Björgvinssyni. Þau slitu samvistum Barnabarnabörn Alidu eru nú 14 talsins. Kjartan átti fyrir 3 börn Daníel Jón, Öldu og Eddu. Alida ólst upp á Ísafirði. Fluttist til Siglufjarðar, unglingur. Kynntist þar Kjartani Friðbjarnarsyni, eiginmanni sínum. Bjó í Færeyjum og í Danmörku árin 1947 til 1951 er þau fluttu til Vestmannaeyja. Í Eyjum voru þau til ársins 1960, fluttu til Reykjavíkur. Til Siglufjarðar var flutt vorið 1968. Árið 1972 fluttu þau síðan til Hafnarfjarðar, þar sem þau bjuggu bæði til síðasta dags. Útför Alidu mun fara fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði, föstudaginn 11. september n.k. og hefst athöfnin kl: 13:00

Elsku amma.
Allt frá því ég var lítil stelpuskjáta hef ég litið upp til þín. Þú varst falleg, brosmild, söngelsk, góðhjörtuð, skáldglöð, fyndin, skemmtileg og síðast en ekki síst frábær leikfélagi. Þú varst yndisleg manneskja og mikið rosalega er ég heppin að hafa átt þig fyrir ömmu.


Það að gista hjá ömmu var eitt það skemmtilegasta sem ég gerði í bernsku. Við fundum okkur alltaf eitthvað til dundurs.  Við gáfum öndunum, spiluðum Olsen, lögðum kapal, sungum og héldum alvöru kaffiboð fyrir dúkkurnar þínar. Við vorum með kex og kók sem við borðuðum svo sjálfar og ég man hvað mér fannst það gaman. Einnig minnist ég þess að fyrir svefninn lastu oft fyrir mig úr Grimmsævintýrunum með  tilheyrandi  tilþrifum. Svo fórum við saman með allar bænir sem við kunnum og þar sem ég hef aldrei átt auðvelt með að fara að sofa þá sastu stundum hjá mér og söngst með mér og fyrir mig langt fram á kvöld.

Ég vildi óska að ég hefði getað eytt meiri tíma með þér síðustu árin. Það er synd að ekki sé til bók um líf þitt því ég veit að það eru margir sem myndu hafa gaman af því að lesa um allt það sem þú hefur gengið í gegnum.  Ég er rosalega  þakklát fyrir að hafa komið til þín síðasta daginn sem þú lifðir

og vildi óska að ég hefði getað heimsótt þig oftar á síðustu árum.

Þúsund kossar
Alida Ósk


Alida Ósk.

Ég vaknaði við símann þriðjudaginn 1.september. Þegar ég leit á símann sá ég að þetta var mamma sem var að hringja.
Ég vissi alveg hvað hún ætlaði að segja mér og ég vildi eiginlega ekki svara henni. Vildi ekki fá þetta símtal núna.
Ég svaraði henni nú samt og það var alveg eins og ég hélt, mamma sagði mér að amma væri dáin.
Amman mín var æðisleg. Hún var vinur minn og mér þótti svo vænt um hana. Ég gat talað við hana um alla hluti og það var alltaf svo gaman að fara í heimsókn til hennar í Hafnarfjörðinn.
Ég mun alltaf minnast hennar brosandi, hlæjandi og syngjandi. Ef ég ætti að lýsa henni með einu orði þá er ég ekki í vafa um hvaða orð ég myndi nota, Ligeglad. Það væri lítil mynd af henni í dönsku orðabókinni undir ligeglad.
Það er hún amma, ligeglad og henni fannst nú ekki leiðinlegt að sletta smá dönskunni.
Amma mín, ég man þegar ég var yngri hvað mér þótti gaman að fá að gista hjá þér og afa.
Það var alltaf svo sérstakt. Það voru einu skiptin sem ég vaknaði kl 6. Þá var farið inn í eldhús að borða morgunmat og það var alltaf svolítið spes. Þið áttuð þessar skrítnu skeiðar og hnífa sem voru sérhönnuð til að borða greipaldin. Það fannst mér mjög gaman og spennandi, þó mér hafi ekki þótt greipaldinið neitt spes til að byrja með, þá var það orðinn hlutur af því að gista hjá ykkur. Svo var farið í sund strax eftir morgunmatinn.
Tekinn smá sundsprettur og svo smá afslöppun með gamla fólkinu í heita pottinum.
Svo eftir sundið þá var alltaf spilað í smá stund eða lagður kapall.  Mér fannst spilið sem maður þurfti að nota bæði græna og rauða stokkinn svo skemmtilegt. Síðan var alltaf smá hádegisblundur tekinn áður en við fórum og brölluðum eitthvað sniðugt yfir daginn.
Það var líka oft sem maður fékk að smakka einhver furðulegan mat hjá þér, það var svolítið spes. Mér fannst alltaf gaman að fá að smakka eitthvað nýtt og skrýtið.  Eftir kvöldmat voru tekin nokkur spil fyrir háttinn og maður var yfirleitt kominn undir sæng fyrir 22.00
Mér fannst líka gaman af sögunni um Gretti sterka sem hangir upp á vegg í Hafnarfirðinum. Þú sagðir mér hana svolítið oft og hafðir gaman að.
Mikið rosalega á ég eftir að sakna þess að geta ekki heimsótt þig aftur og tekið utan um þig.
Ég er afskaplega feginn að við systkinin kíktum á þig þennan mánudag.  Það var gaman að geta fengið þig til að brosa og hlæja í síðasta skipti.  Þannig mun ég minnast þín, elsku amma mín.

Hvíl í friði.
Þitt barnabarn,

Bjarki Smárason.