Sigurður Reynir Magnússon frá Stakkahlíð fæddist á Seyðisfirði 26. 08. 1952. Hann lést á Gjörgæsludeild Landsspítalans 21. maí síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Magnús Sigurðsson f. 1917 d. 1983 Sigríður Ásta Stefánsdóttir f. 1927 d. 1998 bændur í Stakkahlíð, Loðmundarfirði. Systkini Reynis eru: 1) Anna Kristín, f. 1949, maki Áskell Gunnar Einarsson. f. 1945 2) Óla Björg, f.1951, sambýlismaður Ólafur Vignir Sigurðsson f. 1947.3) Stefán Smári, f. 1960, maki Sigríður Þórstína, f.1965 4) Steindór Gunnar, f. 1962, maki Sigrún Broddadóttir, f. 1962. Árið 1978 giftist Reynir, Þrúði Þórhallsdóttur f. 1957. Börn þeirra eru : 1) Eva Sædís, f. 29.10. 1976, maki Snorri Marteinsson, börn þeirra eru Júlíus Patrik f. 2005 og Hilmir Örn f. 2007. 2) Davíð Sindri, f. 12.8. 1979, 3) Magnús , f. 4.2. 1989. Reynir og Þrúður skildu árið 2003. Reynir ólst upp í Loðmundarfirði til 15 ára aldurs, hann var í barnaskóla sem starfræktur var á Sævarenda í Loðmundarfirði en fór síðan í Alþýðuskólann á Eiðum og lauk þaðan landsprófi. Reynir fór ungur til sjós og vann við sjómennsku í nokkur ár áður en hann hóf nám við Iðnskóla Seyðisfjarðar í vélvirkjun. Hann lauk síðan námi í vélvirkjun hjá Vélsmiðjunni Stál á Seyðisfirði. Eftir það lá leið hans til Akureyrar þar sem hann lauk námi í bifvélavirkjun hjá Bifreiðastöð Akureyrar. Hann starfaði þó lengst af hjá Slippstöðinni á meðan hann bjó á Akureyri. Árið 1979 fluttist Reynir til Noregs og bjó þar í eitt ár, þar starfaði hann við ýmis tilfallandi störf en þó aðallega stálsmíði. Á sama tíma hann notaði tækifærið og jók á þekkingu sína í sínu fagi. Hann flutti heim til Íslands og bjó á Egilsstöðum þar sem hann starfaði við þær starfsgreinar sem hann hafði menntað sig til. Árið 1999 flutti hann til Danmerkur og lauk námi sem véliðnfræðingur og starfaði hjá Sauer Danfoss eftir að hann lauk námi. Hann bjó í átta ár í Danmörku en árið 2007 flutti hann aftur til Egilsstaða þar sem hann bjó til dánardags. Reynir hafði alltaf sterk tengsl við æskuslóðirnar í Loðmundarfirði og fór þangað eins oft og hann gat, hann hafði mikinn áhuga á stangveiði og einnig átti hann trillu sem hann stundaði sjósókn á sér til ánægju. Reynir hafði einnig brennandi áhuga á Bridge og var virkur Bridge spilari og má segja að spilamennskan hafi verið hans ástríða ásamt veiðinni. Kveðjustund verður í Egilsstaðakirkju laugardaginn 30. Maí kl. 14:00.

Elsku bróðir minn, nú ertu horfinn frá okkur alltof, alltof snemma. Það hefur verið höggvið stórt skarð í systkinahópinn og fjölskylduna alla sem ekki verður fyllt í. Minningarnar fljúga í huga mínum alveg frá því við vorum börn að alast upp í Stakkahlíð. Við áttum ótal ævintýri þar í bernsku sem aldrei munu glatast í minningunni. Án þín hefur þau ekki gerst.
Þegar við fullorðnuðumst fórum við systkinin hver sína leiðina en höfðum sterkt tengsl og fylgdumst með hvor öðru í leik og starfi. Þú hafði sterkar skoðanir á öllu milli himins og jarðar sem einkenndi persónuleika þinn enda skarpgreindur. Ég gæti skrifað lengi um lífshlaup þitt en vel að eiga það í huga mér. Mér þykir óendanlega vænt um að þér hafi tekist að koma af sjúkrahúsinu í Goðheimana til Gunnars bróður og fjölskyldu 2. maí síðastliðinn. Þú spjallaðir við okkur og borðaðir góðgæti, en ferðina fórstu meira af þrautsegju en getu. Þinn baráttuvilji kom glöggt fram í alvarlegum veikindum þínum, en spilinu tapaðir þú 21. maí síðastliðinn.
Börnin þín hafa misst mikið, þú varst kletturinn þeirra og sagði oft við mig í vetur hve vænt þér þótti um þau. Það var þín þrá að þeim farnaðist vel í lífinu.
Ég veit að þú ert með okkur, við hittumst síðar kæri bróðir.
Takk fyrir allt.

Ég stend á klettabrún
horfi yfir dalinn
Sé hlíðarnar og gilin,
árnar og lækina
Kem út á leitið,
sé bæinn og hraunið,
öldurnar við sandinn,
sólin skín.
Fjöllin halda utan um mig.
Mér líður vel.


Þín systir,

Anna Kristín.