Albert Ólafsson bakarameistari fæddist í Reykjavík 8. október 1924. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 13. júní síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Ólafur Bjarnason vélstjóri í prentsmiðjunni Gutenberg, f. á Seyðisfirði 5. júní 1887, d. 12. febrúar 1956, og Efemía G. Albertsdóttir, f. á Reykhólum í Reykhólasveit 8. júní 1889, d. 9. janúar1934. Alsystkini Alberts voru Margrét Jensína, f. 29. júní 1918, d. 11. september 1973, og Páll, f. 14. desember 1922, d. 2. nóvember 1994. Eftir að móðir Alberts deyr kvæntist faðir hans Önnu F. Ólfjörð, f. 15. des. 1891, d. 13. jan. 1961, og elst hann upp hjá þeim. Hálfbróðir Alberts samfeðra var Bjarni, f. 19. október 1907, d. 13. apríl 1967. Albert var tvíkvæntur. Fyrri kona hans hét Oddrún Sigurðardóttir, f. 23. ágúst 1928, d. 16. maí 2006. Þau slitu samvistum. Dætur þeirra eru 1) Anna Efemía Thorsen, f. 8. október 1950, maður hennar er Benny Thorsen, f. 10. desember 1947. Þau eiga 2 syni, Dan Frimann Thorsen, f. 17. desember 1968, sambýliskona Rikke Klitgarde, þau eiga eina dóttur. Casper Frimann Thorsen, f. 17. okt. 1973, hann á einn son. 2) Sigþrúður Albertsdóttir (Didda), f. 24. apríl 1952, d. 7. september 2003. Fyrrverandi maki Óttar Ottósson. Þeirra sonur er Kjartan Þór, f. 13. júní 1988. 3) Erla Albertsdóttir, f. 22. júlí 1955. Seinni kona Alberts er Ragnhildur Einarsdóttir, f. í Reykjavík 17. september 1933. Foreldar hennar voru Kristín Þorleifsdóttir, f. 21. janúar 1900, d. 6. júní 1973 og Einar Runólfsson, f. 23. apríl 1886, d. 10. október 1962. Þau giftust 30. september 1961. Synir þeirra eru 1) Einar, f. 30. mars 1957. 2) Ólafur, f. 6. febrúar 1962. Kona hans er Imelda Caingcoy, börn hennar eru Aimee Sambajon, f. 1991 og Antonio Sambajon, f. 1995. 3) Albert, f. 6. maí 1969. Albert lærði bakariðn árið 1940 í Bernhöftsbakarí hjá Sigurði Bergssyni og var þar í 17 ár. Hann tók við rekstri bakarís Náttúrulækningafélagsins árið 1957 og rak það í 5 ár. Í júní árið 1962 stofnar hann ásamt Sigurði Bjarna Jónssyni A&B bakaríið, hann kaupir hlut Sigurður einu ári seinna. Hann rekur A&B bakaríið í 35 ár eða til 1997. Albert var í stjórn bakarasveinafélagsins um tíma. Útför Alberts verður gerð frá Fossvogskirkju í dag, 23. júní,

Nú er fallinn frá öðlingsmaðurinn Albert Ólafsson, hann Addi í Blokkinni, maðurinn hennar Rögnu föðursystur. Addi var einstakur maður, jákvæður og ávallt skapgóður. Hann var traustur vinur og stóð með sínum.

Faðir okkar hefði ekki getað hugsað sér betri mág enda voru þeir alla tíð miklir mátar. Fjölskyldurnar áttu mikið samneyti. Minnistæð eru öll áramótin sem við áttum hjá Adda og Rögnu í Blokkinni. Þá var farið upp á þak og horft yfir borgina um leið og kveikt var í flugeldunum okkar með áramótavindlinum, en Addi hafði þann sið að púa vindil um áramót. Þegar nýja árið gekk í garð ræddu þeir félagar heimsins gagn og nauðsynjar í þaula enda báðir með sterkar skoðanir sem einatt fóru saman. Oft þóttust þeir þó vera á öndverðum meiði, sér til skemmtunar.

Heimili Adda og Rögnu í Sólheimum 25 var notalegt heim að sækja. Það var oft glatt á hjalla í Blokkinni, uppátækjum okkar ávallt vel tekið og alltaf tími til að gera hlé á þjóðfélagsumræðum til að sjá stutt frumsamin leikrit eða loftfimleika. Þar var aðeins ein krafa, það mátti enginn vera með læti í eftimiðdaginn, þá var Addi að leggja sig, því hann fór svo snemma til vinnu.

Addi var hæglátur en hafði engu að síður sterkar skoðanir. Pólitíkin var honum alltaf hugleikin og hann hafði óbilandi trú á lýðræði, jafnrétti og bræðralagi. Hann var sósíalisti, atvinnuveitandi og traustur í baráttu fyrir bættum hag alþýðunnar. Addi var líka baráttumaður fyrir hag einyrkja gagnvart ægivaldi verksmiðju fjöldaframleiðslu sem nánast þurrkaði út sjálfstæð bakarí á Íslandi.

Margir eiga eftir að sakna Adda í AB bakaríinu á Dalbraut enda vinsæll viðkomustaður margra, fólks á öllum aldri og úr öllum stigum þjóðfélagsins. Bakaríð var alvöru fjölskyldufyrirtæki og félagsmiðstöð þar sem allir voru velkomnir. Addi var alltaf mættur til vinnu fyrir klukkan fimm á morgnana og margir lögðu það í vana sinn að kíkja inn og fá kaffibolla í morgunsárið. Þar urðu oft ákafar umræður sem Addi tók virkan þátt í án þess að fallast nokkru sinni hönd úr verki. Bolludagurinn var alltaf sérstakur og þann dag var alltaf allt fullt, enda bollurnar víðfrægar og allir leystir vel út. Seyddu rúgbrauðin báru hróður bakarísins víða.

Þau voru ófá skólabörnin úr hverfinu sem komu við á leiðinni úr sundi til að kaupa sér snúð enda vel útilagðir, gómsætir með helling af glassúr. Við krakkarnir, systkinabörn Rögnu, nutum tengslanna til fullnustu.

Frá því að Addi dró sig í hlé frá bakstrinum hafa margir reynt að falast eftir leyndarmálinu, snúðauppskriftinni, en hún bíður þess að einhverjir úr fjölskyldunni taki við keflinu.

Á seinni árin eftir að við komust til vits og ára var alltaf notalegt að setjast með Adda og ræða brennandi málefni, stefnu og stöðu í stjórnmálunum líðandi stundar. Adda er sárlega saknað úr hornstólnum í Sólheimunum. Við minnumst Adda í Blokkinni með virðingu og þakklæti fyrir samverustundirnar og vottum Rögnu og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.

Ásta, Einar, Kristín og Björk Þorleifsbörn.

Ásta, Einar, Kristín og Björk Þorleifsbörn.

Nú er Addi farinn og þið eigið öll um sárt að binda

Addi bakari eins og við kölluðum hann alltaf hefur lokið lífsgöngu sinni hér á þessari jörð. Við munum öll sakna hans en munum eftir honum sem sérstaklega hlýlegum og skemmtilegum manni. Hláturmildur og glaður og hvers manns hugljúfi. Mér þykir sárt að hafa ekki haft tækifæri til að hitta ykkur oftar eftir að við Maggi fluttum vestur.

Elsku Ragna mín! Ég og Magnús sendum þér og fjölskyldu þinni hugheilar kveðjur og vottum ykkur innilega samúð ykkar.

Valborg Soffía og Magnús.

Valborg Soffía og Magnús.