Einar Árnason fæddist í Reykjavík 13. júní 1945. Hann lést á Landspítalanum 24. mars sl. Foreldrar hans voru Ingibjörg Einarsdóttir, f. 25. nóvember 1904, d. 17. september 2002, og Árni Þórðarson, skólastjóri, f. 3. júní 1906, d. 10. október 1984. Systir Einars er Steinunn, f. 2. mars 1942, gift Ólafi Ottóssyni, f. 8. apríl 1943. Dóttir Einars og Guðlaugar Löve er Berglind, f. í Reykjavík 27. júní 1966, gift Gauta Jóhannessyni og eiga þau tvö börn, Gretti, f. 1991, og Auði, f. 1996. Dóttir Einars og Ingibjargar Nönnu Norðfjörð er Ingibjörg, f. í Reykjavík 20. desember 1969. Sonur Einars og Arndísar Finnbogadóttur er Árni Þór, f. á Ísafirði 8. maí 1979. Einar stundaði nám við Hagaskóla, Héraðsskólann á Reykjum í Hrútafirði og lýðháskóla í Danmörku. Einar starfaði í Landsbanka Íslands, var sölumaður hjá Kristjáni G. Gíslasyni og Íslensk-ameríska verslunarfélaginu. Starfaði hjá Samvinnutryggingum í Reykjavík, á Egilsstöðum og á Ísafirði. Tók síðan við skrifstofustjórn hjá Steiniðjunni hf. á Ísafirði og síðar Ljóninu sf. á Ísafirði eða þar til hann stofnaði eigið fyrirtæki, Seríu sf. og síðan Hljómtorg sem hann rak þar til hann flutti til Reykjavíkur árið 1989. Einar var mjög virkur þátttakandi í félagsstörfum meðan hann bjó á Ísafirði, var frímúrari, félagi í Lionsklúbbnum, Junior Chambers, Bridgefélaginu og Skíðafélaginu og sjálfsagt fleiri félögum. Einar veiktist alvarlega á árinu 1990 og bjó síðustu 15 ár ævi sinnar í Oddshúsi við Sléttuveg í Reykjavík og naut þar frábærrar umönnunar starfsfólksins í húsinu. Útför Einars fór fram í kyrrþey.

,,Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað?

Þessi spurning skálds, sem sjálft naut fárra hérvistarára, kom í hugann þegar vinur okkar Einar Árnason kvaddi þótt brotthvarf hans kæmi í sjálfu sér ekki á óvart þegar horft er til baka. Já, hvenær glötuðu dagar lífs hans lit sínum? Þessa góða drengs sem allir sem kynntust nutu nærvistar við; sem ávallt var reiðubúinn að rétta fram hönd þá þörf var á; manns sem kunni að hlusta og virða skoðanir annarra, þótt fastur væri fyrir ef því var að skipta. Hvarf litríki lífs hans daginn sem áfallið, sem leiddi til þess að eiginleikinn til að tjá sig var ekki lengur til staðar, reið yfir? Áfall sem leiddi af sér 18 ára þolraun, sem hann bar með karlmennsku og slíkri reisn, er best lét, að á samverustundum upplifðu vinir að sitthvað af gömlum venjum  hafði honum tekist að varðveita. Það þótti okkur vænt um. Og sami ljúflingurinn var enn til staðar. Vinum var vel fagnað. Gestabókin á sínum stað.

Áratuga vináttu undirritaðra og Einars verður ekki gerð skil í fáeinum orðum. Hún hófst á Ísafirði nokkru eftir þangað komu hans. Segja má að hann hafi fljótt fléttast inn í ákveðinn vinahóp, Reykvíkingur, vesturbæingur og KR-ingur, svo auðveldlega að fyrr en varði var hann eins og hver annar heimamaður. Þannig var hann. Auðtekinn og gefandi. Þeir er nutu vináttu hans gleyma honum ekki. Sjálf höfum við margs að minnast: Fjögurra para hópsins sem árum saman fagnaði nýju ári og innsiglaði vináttu liðinna stunda á gamlárskvöld; ferðalaga innanlands og utan, að ógleymdum laxveiðiferðum í Djúpinu, svo fátt eitt sé nefnt utan daglegra samskipta, sem síður drukkna í amstri hversdagsins í litlum samfélögum en hinum stærri. Einar var góður bridgespilari og laxveiði var ástríða hans um árabil. Samvistum með honum á árbakkanum verður ekki með orðum lýst. Hugurinn nær að fanga þær og það nægir.

Einar Árnason var ekkert öðru vísi en við hin hvað það varðar að stundum gaf á bátinn. Beina leiðin er ekki alltaf auðrötuð. Það breytti þó í engu lífsmunstrinu sem hann svo ríkulega hafði tileinkað sér, að sælla er að gefa en þiggja. Hvert sem umhverfi og aðstæður voru var Einar alltaf samur.

Endaspretturinn var vini okkar erfiður. Undirritaður, sem kom að sjúkrabeði hans fáeinum dögum eftir áfallið fyrir rúmum átján árum, er þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að setjast hjá honum örskotsstund áður en hann kvaddi; sannfærður um að þrátt fyrir allt hafi hann náð kveðju minni.

Við hjónin erum fullviss um að við mælum fyrir hönd margra er við kveðjum þennan góða vin og biðjum honum velfarnaðar í ríki Höfuðsmiðsins. Víst er að þar hefur hann verið leiddur að vötnum þar sem hann nú nýtur næðis.

Börnum Einars, Berglindi, Ingibjörgu og Árna Þór, svo og öðrum ættingjum sendum við kveðjur með þeirri ósk að allar þær góðu minningar sem tengjast honum megi ylja þeim allar þær ókomnu stundir sem þeim eru ætlaðar.

Sigurður J. Jóhannsson, Sæunn S. Sigurjónsdóttir.

Árni Þórðarson, faðir Einars Árnasonar, og Sesselja Þórðardóttir, föðuramma mín, voru systkini. Einungis eru tæpar þrjár vikur á milli okkar Einars í aldri og þar sem við bjuggum á Kvisthaganum í Reykjavík, hann á númer 17 og ég á númer 19, þá vorum við leikfélagar og æskuvinir. Við vorum heimagangar hvor hjá öðrum og er mér minnisstætt hve heimilin voru gjörólík. Annars vegar átta barna heimili með umferð eins og á járnbrautarstöð, en hins vegar kyrrlátt heimili þar sem allt var í röð og reglu og húsmóðirin Gagga átti ávallt gnægð af gómsætum kökum fyrir unga athafnamenn. Við Einar fylgdumst að í skóla og leik fram til 14 ára aldurs og þótt við færum hvor í sína áttina til frekara náms náðum við síðar saman í leik og gleði á Glaumbæjarárunum og við veiðar í Húnavatnssýslu.
Einar var traustur vinur, hrekklaus, skemmtilegur og alltaf til í tuskið. Hann hafði góðlegt glettið bros sem ávallt yljaði og ósjálfrátt leið manni vel í návist hans.
Þótt Einar hafi komið víða við í starfi þá var það ekki svo að hann væri ekki vel liðinn heldur höguðu kringumstæður því að hann varð að skipta um vinnustaði. Þegar hann vann hjá Samvinnutryggingum í Reykjavík var hann fenginn til þess að leysa af umboðsmann fyrirtækisins á Egilsstöðum, er fór í ársleyfi. Einari líkaði dvölin þar vel, en umboðsmaðurinn kom aftur og Einar varð að víkja. Síðar var hann á sama hátt fenginn til þess að leysa af umboðsmann Samvinnutrygginga á Ísafirði, en er sá kom aftur úr leyfi ákvað Einar að verða um kyrrt á Ísafirði. Vann hann fyrst hjá öðrum, en síðar við eigið fyrirtæki.
Einar bjó á Ísafirði fram til ársins 1991 er hann fékk heilablóðfall og dvaldi eftir það á Reykjalundi og í þjónustuíbúð í Oddshúsi við Sléttuveg í Reykjavík. Við heilablóðfallið röskuðust talstöðvarnar en þrátt fyrir helftarlömun gat Einar unnið á vernduðum vinnustað á meðan þau störf gáfust. Glettna brosið var enn til staðar og við gátum hlegið saman að gömlum uppákomum þótt Einar gæti ekki myndað orð né skrifað. Það var ávallt gaman að heimsækja Einar, þótt stopult væri í seinni tíð. Ég sendi börnum hans og ættmennum samúðarkveðjur við fráfall góðs drengs.

Stefán Pálsson.