Ástríður Hólm Traustadóttir eða Ásta eins og hún var alltaf kölluð, fæddist á Akranesi þann 9. janúar 1962. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans við Hringbraut þann 9. júlí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Agnes Sigurðardóttir f. á Akranesi 24. október 1931 og Trausti Ingvarsson vörubílstjóri á Akranesi f. í Stíflu, V-Landeyjahrepp þann 15. júní 1926 d. 9. júní 1977. Systkini Ástu eru Ólöf Guðrún Gerstacker f. 9. júlí 1951 d. 4. júní 2008 og Ingvar Hólm f. 30. apríl 1954. Hálfbróðir Ástríðar samfeðra er Jakob Adolf f. 18. ágúst 1946. Ásta giftist Óskari Má Ásmundssyni f. 17.04.1959 þann 4. maí 1985 í Reykjavík. Foreldrar hans eru Jónína Ágústsdóttir f. 21.1.1923 og Ásmundur Pálsson f. 20.2.1915 d. 10.2.1996. Börn Ástu og Óskars eru Bjarki Már f. 13.05.1987 og Trausti Már f. 28.3.1992. Dóttir Ástu og Jóhanns Einars Guðmundssonar er Margrét f. 9.11.1982 og er hún í sambúð með Hafþóri Theodórssyni f. 6.3.1981. Eiga þau tvö börn Viktor Blæ f. 30.8.2002 og Ástu Maríu f. 16.11.2008. Ásta ólst upp í foreldrahúsum á Akranesi en á unglingsárunum missti hún föður sinn. Að lokinni skólagöngu vann hún m.a. við verslunarstörf í Skagaver. Árið 1984 fluttist hún ásamt móður sinni til Reykjavíkur og stofnaði þar heimili með eiginmanni sínum og dóttur. Starfaði hún fyrst á leikskólanum Bakkaborg og síðan um árabil í Þinni verslun við Seljabraut. Síðustu ár starfaði hún sem sölufulltrúi hjá A. Karlssyni/Besta. Útför hennar fer fram frá Seljakirkju í dag þriðjudaginn 21. júlí og hefst athöfnin kl. 15.

Ekki grunaði ég þegar við hittum hana elsku Ástu sl. jól að það yrði í hinsta sinn sem við fengum að njóta samveru hennar.  Við urðum harmi slegin er við fengum fréttirnar um að hún væri látin, hún fór alltof, alltof snemma.

Ég kynntist Ástu fyrst er hún kom inní fjölskylduna fyrir um 26 árum, þegar Óskar móðurbróðir minn og hún byrjuðu saman.  Hún varð strax ein af mínum uppáhalds", yndisleg og skemmtileg manneskja, svo hjartahlý og hugulsöm.  Ég gleymi því aldrei þegar hún kom heim til okkar á 15da afmælisdaginn minn með gjöf handa mér þó svo að það væri engin veisla, hún var sú eina sem gerði það og var fallega þurrskreytingin upp á borði hjá mér í mörg ár.  Ég man líka þegar hún hélt upp á barnaafmæli þá var svo gaman að koma til þeirra, því það voru sko veislur í lagi, svo flottar kökur og mikið lagt í allt.  Það var reyndar alltaf gaman að koma til þeirra, hún hélt svo fallegt heimili.

Ég er mjög leið yfir því að geta ekki kvatt hana þar sem ég bý erlendis og kemst ekki í jarðaförina.  Vil ég senda elsku Óskari frænda og börnunum þeirra okkar dýpstu samúðarkveðjur og megi Guð vera með ykkur í þessari miklu sorg.  Gott er þó að hugsa til þess að hinum megin taka á móti henni nánir fjölskyldumeðlimir og vinir, m.a. móðir mín, svo hún er í góðum höndum, ég efast ekki um það.  Bless elsku Ásta, þín verður sárt saknað, ég er mikið þakklát fyrir að hafa þekkt þig.

Jóna Dís Steindórsdóttir og fjölskylda.

Hún  Ásta vinkona mín og skólasystir hefði orðið 48 ára í dag hefði hún lifað.  Þegar við hittumst árgangurinn haustið 2007 til að halda upp á að heil þrjátíu ár væru síðan við kláruðum grunnskólann, var Ásta mætt hress og kát að venju. Ekkert okkar gat grunað þá að innan árs væri Ásta látin.  Hún var í essinu sínu síbrosandi og skemmtileg. Við höfum rætt það okkar á milli í vetur skólasystkinin hvað allt er í heiminum hverfult og við ráðum ekki okkar næturstað. Við sem plönuðum að halda saman upp á fimmtugsafmælið okkar með stæl, en núna vantar tvo í hópinn. Ástu sem lést á afmælisdegi Lóu systur sinnar og Ödda Vilmundar sem varð bráðkvaddur í september. Við munum hins vegar minnast þeirra með glans þegar við verðum fimmtug og skála fyrir þeim.

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að geta sagt að Ásta væri vinkona mín.  Ég var fastagestur á heimili hennar og Öddu mömmu hennar, en pabba sinn missti Ásta á unglingsárum. Við vorum með eindæmum háværar en með afbrigðum skemmtilegar, alla vega að eigin áliti. Adda sat iðulega með okkur skessunum og hafði lúmskt gaman af. Mig rekur ekki minni til að hún hafi mikið sussað á okkur. Á þessum árum var svo margt að brjótast um í kollinum á manni. Skólalærdómur var nú ekki ofarlega á blaði, unglingsástir tóku mikinn tíma eins og verða vill.  Já, það var gaman að vera til.

Seinna vorum við saman í saumaklúbb með nokkrum vinkonum og við að horfa á myndir frá þeim tíma er gott að minnast þessara ára.  Árgangurinn 1962 á Skaganum missti mikið við fráfall Ástu og síðar Ödda, því einhvern veginn gerðum við aldrei ráð fyrir því að maðurinn með ljáinn bankaði upp á hjá okkur, því við erum svo ung og eigum svo mikið eftir að gera. Ég kveikti á friðarkerti hjá mér um jólin til að minnast Ástu. Margt er að muna, ljúft er að minnast og það yljar núna í  upphafi árs.  Mig langar fyrir hönd okkar skólasystkinanna þakka Ástu fyrir samfylgdina. Bros hennar á myndum frá haustinu 2007 er eitthvað sem við tökum með okkur inn í framtíðina og varðveitum í minningunni. Það er sárt að sakna, en allir sem þekktu Ástu sakna, því gleðin er systir sorgarinnar og gleði veitti hún þessi elska.  Megi minningarnar  um Ástu verða ljós í lífi okkar allra.

Árgangur 1962 á Akranesi

Sigrún Ríkharðs