Karl Karlsson fæddist á Draflastöðum í Fnjóskadal þann 30.október 1912. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri þann 19.september sl. Foreldrar Karls voru hjónin Karl Ágúst Sigurðsson fæddur 13.ágúst 1873, dáinn 14.ágúst 1945 og Jónasína Dómhildur Jóhannsdóttir fædd 9.maí 1882,dáin 28.september 1921. Systkini Karls voru Kristín Mýrdal Karlsdóttir, Jóhann Þórður Karlsson, Ingibjörg Gunnþórunn Karlsdóttir, Helga Karlsdóttir, Ingimaría Karlsdóttir, Ingimaría Þorbjörg Karlsdóttir, Sigurður Karlsson, Gunnlaugur Karlsson, Kristinn Steingrímur Karlsson og Guðjón Karlsson. Eru þau öll látin. Þann 8.desember 1945 giftist Karl Lilju Hallgrímsdóttur frá Klaufabrekknakoti í Svarfaðardal, fædd 5.ágúst 1916. Foreldrar hennar voru Hallgrímur Einarsson og Soffía Jóhannesdóttir. Börn Karls og Lilju eru 1) Jónasína Dómhildur Karlsdóttir, fædd 30.maí 1946, dáin 18.nóvember 1951. 2) Halla Soffía Karlsdóttir, fædd 4.júní 1950 og maður hennar Atli Friðbjörnsson fæddur 20.maí 1950. Synir þeirra eru Karl Ingi Atlason fæddur 27.september 1977 og Björn Snær Atlason fæddur 14.febrúar 1982. 3) Jónasína Dómhildur Karlsdóttir fædd 27.júní 1957 og maður hennar Gunnlaugur Einar Þorsteinsson fæddur 6.apríl 1946. Börn þeirra eru 1)Anna Lilja Gunnlaugsdóttir fædd 23.desember 1978,börn hennar eru Rut Marín fædd 10.mars 2006 og Gunnlaugur Orri fæddur 9.ágúst 2009. 2) Þorsteinn Mikael Gunnlaugsson fæddur 26.mars 1983 og unnusta hans er Jóhanna Lind Þrastardóttir fædd 19.maí 1988. 3) Helgi Pétur Gunnlaugsson fæddur 27.september 1990. Karl og Lilja bjuggu alla sína búskapartíð í Klaufabrekknakoti að undanskyldum árunum 1946 og 1947.

Við hjón vorum á ferð um Fnjóskadal á leið í haustlitaferð þegar okkur bárust fréttir að Karl fóstri minn Karlsson hafi líka lagt upp í ferð, örugglega líka litríka, en á einhvern hátt endanlegri.  Það líkist honum að ferðbúast á svo fögrum degi  og ekki ólíklegt að hann hafi farið um Fnjóskadalinn, þar sem náttúran skartaði sínum fegurstu litum sem speglaði sig í öllum vatnsflötum í ljúfri ferð okkar í  Mývatnssveit.  Þegar fréttin barst vorum við í augsýn við Draflastaði, fæðingastaðar Karls, nýlega komin ofan af Víkurskarði.  Þar höfðum við fylgst með fjárgöngum vestan til í skarðinu, þar sem tvílitt fé stefndi í gagnstæða átt við gangnamenn.  Féð vildi austur í átt að Fnjóskadal og upp kom minning um tvílitt forustufé þaðan og hugurinn reikaði til bernskuminninga úr sumrum mínum í Svarfaðardal hjá Kalla og Lilju í Klaufabrekknakoti.

Ég átti þess kost, ekki margra ára gamall að komast í Sveit hjá þeim heiðurshjónum og sumrin urðu það mörg að ekki verður nú talið lengur.  Hvert vor kallaði sveitin, fangaði huga drengs, er átti að keppast við fjölgun lesinna atkvæða af mínútublöðum sem áttu til að hrynja út úr lestrarbókinni til að koma upp um afrekaleysi drengsins.  Sauðburður að vori fyrir snöggklipptan dreng með þykka skinnhúfu og göngur að hausti fyrir hann síðhærðan, tafði árangur kappans í lestrarhraða og sundnám.

Skinnhúfurnar sem vinnumennirnir voru með að heiman, höfðu þá fengið að víkja fyrir ljósleitu kaskeiti sem Kalli keypti snemmsumars þegar hann fór í kaupstað og keypti húfur sem betur hæfðu sumri.  Í stað skólanámsins var margt annað sem bætti við kunnáttu og þroska unga drengsins með þessari sveitadvöl, eiginlega alvöru gildi, sem fylgdu honum út í lífið.

Af dvölinni var margt lært, því auðvitað var litrófið annað í Svarfaðardal en á mölinni, eins og Kalli kallaði líf fólks í þéttbýlinu.  Virðing hans fyrir lífi og hversu mikla gæsku var hægt að leggja út af vináttu við dýrin, en oftast lét hann sér ekki nægja að sinna sínum bústofni því margar ferðir fór hann til aðstoðar á öðrum bæjum Dalsins.

Upp í hugann kemur mynd úr einum slíkum leiðangri, er hann kom frá bæjum handan Dalsár.  Hann á Létti, bleikálóttum hesti sem hann hafði miklar mætur á, þeir á svo miklum harðaspretti, á hraða ljóssins í huga unga drengs og hvernig þeir komu, hetjurnar upp á bæjarhólinn, þrenningin sem ein heild, Kalli sitjandi á Létti og bera við himinn, með hnakktöskuna aftan við sig og Grípur, hundurinn hans fylgdi fast á hæla hestsins.  Kalli var dýravinur í hæsta máta og glöggur á fénað, þannig þekktist allur bústofn býlisins með nafni og líktust fyrstu bréf sumarsins heim til foreldrana búfjárskýrslum Kalla, þar sem allt var upptalið með nöfnum og innbyrðis skyldleika, bæði kýr, hestar, hundar, kettir, dúfur og kindur, alla vega forystuféð eins og Stormur og Gola.

Ekki var aldur unga fólksins hár þegar hann treysti því fyrir ýmsu, bæði smáu og stóru og gerði þau ábyrg fyrir mörgu þó hann hafi vakað yfir, hvort sem það var að vinna með amboðum, dráttarhestinum Jarpi eða Farmal Cub sem ekki var alltaf auðvelt í brekkum Klaufa.  Dugnaður hans og fólksins var mikill, en á móti fékk hver sitt að launum, þannig gat áheit um ófeiga gimbur um hvort hún kæmi af fjalli um haustið, orðið að fyrsta fjárstofni tveggja vinnumanna, sem síðar fékk vaxa í sex kindur hjá mér einum.  Ekki lítill bústofn það, en seðill sem greiddur var í lok fyrstu sumar­dvalar er einnig greyptur í hugann, auðæfi sem eru barni áþreifanleg og lagt í sjóð.  Þannig var fetað og allt raðaðist rétt saman því margt fékk drengurinn að reyna, sem hann hefði ekki vilja missa af, þar sem vélvæðing var ekki á hæsta stalli þar sem Kalli sneið vesti eftir vexti, en búið var ekki það stærsta í sveitinni og hefði hann því að ósekju mátt vera fleirum fyrirmynd í nútíð.  Kalli barst lítt á og þegar ég kom fyrst til þeirra var fjölskyldan nýlega flutt Gamla bæ, sem stóð búinu til gagns þó ekki væri til íbúðar, langt fram yfir mína veru í Klaufabrekknakoti.  Margt væri öðruvísi í nútíð ef sumir áhrifamenn hefðu haft brot af dyggðum, reglu- og nægjusemi Karls Karlssonar í Klaufabrekknakoti.  Það var einnig heilmikil hagfræði í því fólgin að sjá þegar við krakkarnir tíndum ullarlagða af girðingum og settum í poka og fyrir það gátum við fengið stóran brúnan bréfpoka af ilmandi appelssínum í vöruskiptum, en þá voru þær ekki daglegar á borðum.

Mesta yndi hafði Kalli af að sýsla með kindur og hesta, þó hann segði kýr nauðsynlegar.  Því varð flórmokstur, kúarekstur, kúayfirseta á ógirtum túnum verk vinnumanna, en yfirsetan gaf næði til að horfa uppí himininn og láta hugan líða um á skýjum.  Það var einnig á þeirra ábyrgð að hlaupa daglega í veg fyrir mjólkurbílinn og til að kippa mjólkurbrúsunum uppúr kælingunni niður í Lambá áður en bíllinn kom að brúsapallinum, en áttu þá einnig í samskipti við hetjulega mjólkurbílstjórana sem sveifluðu brúsunum léttilega inn á bílinn með annarri, og svo komu þeir líka með pakkana að heiman, en með þá gat Kalli orðið ansi glettinn, enda stríðinn mjög og gat eignahald pakkans verið í þó nokkurri óvissu um smá tíma.

Ekki einungis voru húsdýrin sem fengu hlýju búenda, því til yndis voru dúfur hafðar og mikil gleði þegar Kalli eignaði mér hvíta dúfu úr stofninum.  Ekki sýnist all vera gott í henni veröld því smyrill greip dúfuna mína, það þrátt fyrir að við krakkarnir öskruðum úr okkur lungun, eins og oftar þegar hann sást.  Nú eltist ég við hann og fleiri í fuglaskoðunum, enda lærðust nöfn margra fugla á þessum árum.

Margra ánægjustunda átti ég því í Klaufabrekknakoti og var lífið ekki eintóm vinna og minnast má bús okkar krakkana sem systurnar Halla og Domma nefndu Draflastaði.  Þetta var alvöru bú, húsið var fyrrverandi ljósavélaskúr, eftir að hann lauk fyrra hlutverki sínu við komu rafmagns í Dalinn.  Þar breyttust leggir í vökrustu gæðinga, lambahorn í sauðfé og kindakjálkar í mjólkandi kýr, en völur urðu að fjárhundum, allt eins og í fyrirmyndarheimi þó girðingarnar væru gerðar úr rekaviðarspítum sem tengdir voru saman með gaddavír" úr garni sem rakið var við opnun fóðurblöndupoka.

Til skemmtunar var margt gert, þó þau hjón hafi verið hófstilli í því sem öðru, enda reglufólk, en mannfagnaðir gangnadaga, slægjuhöld á Grund voru eftirminnileg tilbreyting og einnig prúðbúið fólk í kirkjuferðir til Urða, þar sem fólkið hennar Lilju bjó, og stundum gátu ærsl orðið þegar börnin komu saman.

Hver myndi ekki þakka Kalla fyrir að fá að fara með í haustgöngur á hestum.  Við störf fyrstu sumrana lék Jarpur stórt hlutverk, sterkur og hægur fyrir framan ækið, en vel hastur á brokkinu, þannig að fjöllin háu í Svarfaðardal sáust milli berbaks og knapanna, sem stundum voru tveir.  Í göngur var farið á reiðhestum og þá var gaman að lifa, hvort sem hlutverkið var hestasveinn upp á Vatnsdal, gangnamaður til Tungnaréttar og ekki síst fjárrekstarmaður þegar safnið var rekið heim.

Kalli var fyrirmynd, enda kallaði hann mig oft Björn bónda, þegar vel lá á og þótti mér það heiðursheiti.  Ekki varð það þó úr, en komist þó í nálægð við sveitastörf í Eyjafirði vegna kvonfangs og rúman tug ára hélt ég sjálfur nokkra hesta  hér á mölinni, með hnakk frá Kalla.

Heimsóknir í Klaufabrekknakot eftir 7-8 ára sumardvalir og margar síðari sumarleyfisdvalir mínar hefðu auðvitað mátt vera fleiri í seinni tíð, en Kalli ásamt fjölskyldu hans reyndust mér og mínum vel og vona ég að ég hafi getað að einhverju leiti launað greiðann með aðkomu minni að húsagerð býlisins.

Nú er Kalli farinn á vit feðranna og hittir vafalítið fljótt marga sem hann þekkti hér, en hann var  áhugamaður um dulræna hluti og hefur öruggleg haft vissu um góðar móttökur.  Hægt er að hugsa sér að hann setjist á bekk við hlið tvíburabróður síns, líkt og á skemmtilegri mynd af þeim ungum, Siggi snöggklipptur og Kalli með lambakrulluhár, síðhærður eins og sumir aðrir að hausti, nema hvað lokkarnir gerðu hár hans miklu umfangsmeira.

Með þessum fátæklegu orðum vil ég þakka Kalla fyrir allt og allt, um leið og við sendum Lilju, Höllu, Dommu og fjölskyldum þeirra samúðarkveðjur.  Far þú í friði, minning lifir um góðan Karl.

Björn Jóhannsson og fjölskylda.