Anna Friðriksdóttir fæddist á Auðnum í Ólafsfirði 28. desember 1914. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 13. júní sl. Foreldrar hennar voru Friðrik Magnússon, f. á Efra-Nesi á Skaga 11. júní 1864, d. í Ólafsfirði 1. nóvember 1940 og Snjólaug Björg Kristjánsdóttir, f. á Ytra Garðshorni í Svarfaðardal 17. júlí 1873, d. í Ólafsfirði 17. október 1955. Þau voru bæði ættuð úr Svarfaðardal. Anna var yngst ellefu systkina. Systkini hennar voru 1) Árni, f. 1892, 2) Sigurlaug Hólmfríður, f. 1898, 3) Kristján, f. 1900, 4) Rögnvaldur Kristinn, f. 1902, 5) Sigurður Anton, f. 1903, 6) Friðbjörg Sigurjóna, f. 1905, 7) Páll Gunnlaugur, f. 1907, 8) Páll Gunnlaugur, f. 1909, 9) Sólveig Steinunn, f. 1912, og 10) Eiríkur Björn, f. 1913. Þau eru nú öll látin. Fyrstu æviárin var Anna hjá foreldrum sínum á Auðnum, síðan fluttu þau í Kálfsá. Þaðan fór hún tólf ára gömul með fjölskyldu Kristjáns bróður síns í Hólkot. Að lokinni fermingu og fullnaðarprófi barna fór hún að vinna fyrir sér sjálf. Hún fór í vistir, vann í fiski, í síld, á línu og önnur þau störf sem buðust. Hinn 24. nóvember 1934 giftist Anna Trausta Gunnlaugssyni, f. í Ólafsfirði 5. október 1910, d. á Akureyri 11. ágúst 1980. Þau eignuðust þrjá syni: 1) Kristinn Jóhann, f. 14. maí 1936, kona hans er Björk Gísladóttir, f. 1941. Börn þeirra, a) Helga, f. 1959, hún á þrjú börn og þrjú barnabörn, b) Snjólaug, f. 1962, hún á þrjú börn og þrjú barnabörn, c) Sigríður, f. 1964, hún á þrjú börn og tvö barnabörn, d) Trausti, f. 1965, hann á tvö börn, og e) Kristinn, f. 1974, hann á eitt barn. 2) Gunnlaugur Þór, f. 30. júní 1937, kona hans er Svava Lúðvíksdóttir, f. 1939. Börn þeirra eru a) Lúðvík Trausti, f. 1957, hann á fjögur börn og fimm barnabörn, b) Anna, f. 1959, hún á þrjú börn og fimm barnabörn, og c) Einar Þór, f. 1965, hann á tvær dætur. 3) Friðrik Gylfi, f. 1. mars 1949, kona hans er Guðrún Björk Pétursdóttir, f. 1950. Börn þeirra a) Fanney, f. 1970, hún á fimm börn og tvíbura sem létust nokkurra daga gamlir, b) Sigurður Ingi, f. 1972, hann á einn son, c) Trausti Snær, f. 1976, hann á þrjú börn, d) Einar Máni, f. 1980, e) Anna Rósa, f. 1981, og f) Erla Lind, f. 1989. Afkomendur Önnu eru 67, þ.e. 14 barnabörn, 32 barnabarnabörn og 18 barnabarnabarnabörn. Árið 1966 fluttu Anna og Trausti til Akureyrar ásamt yngsta syni sínum. Anna hóf störf í K. Jónsson á Akureyri en lengst af vann hún í Skógerðinni Iðunni. Anna hélt heimili ein í nærri 29 ár á Akureyri, oft var gestkvæmt og öllum veitt af mikilli rausn. Með dugnaði og elju bjó hún ein heima þar til hún fór á sjúkrahús og eyddi þar síðustu tveimur vikum ævi sinnar. Útför Önnu fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 23. júní og hefst athöfnin klukkan 10.30.

Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð,
hjartans þakkir fyrir liðna tíð,
lifðu sæl á ljóssins friðar strönd,
leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.
(Guðrún Jóhannsdóttir frá  Brautarholti.)

Hún Anna frænka mín og kær vinkona er dáin. Mér finnst ég hafa þekkt hana alla ævi. Hún var vinkona mömmu minnar þegar ég var lítil táta. Þegar hún kom í heimsókn þá fannst mér hún alltaf svo fín og falleg.


Svo liðu nokkur ár og Anna giftist honum Trausta sínum og bjó honum og drengjunum þeirra hlýtt og fallegt heimili. Það dró ský fyrir sólu á fyrstu hjúskaparárunum. Trausti og litlu drengirnir tveir veiktust harkalega af berklum. Þá sýndi Anna ótrúlegt þrek og þrautseigju. Auk þess að sitja löngum við sjúkrabeðina þurfti Anna að vinna hörðum höndum við störf sem aðallega voru við fiskvinnslu. En öll él birtir upp um síðir og feðgarnir þrír náðu sæmilegri heilsu en mörg voru þó örin eftir sem seinna gerðu vart við sig. Þegar Trausti var kominn til sæmilegrar heilsu gerðist hann farsæll sjómaður á eigin fari. Staðurinn orðinn blómlegt byggðarlag þar sem fólki vegnaði vel.

Á þessum árum hafði tognað úr mér og ég var í burtu í skóla. Þegar ég kom heim kom rúmlega tvítug giftist ég frænda hans Trausta. Anna eignaðist þriðja drenginn sinn 1949 og ári seinna eignaðist ég son. Drengirnir okkar urðu miklir félagar og mátar og eru enn í dag.

Anna og Trausti fluttust til Akureyrar 1967 og ég tel að fyrrum veikindi Trausta hafi átt sinn þátt í því. Þau keyptu sér íbúð í Þórunnarstræti og fengu bæði ágæta atvinnu. Á Akureyri var heimili þeirra öllum vinum opið og gestrisni Önnu og Trausta rómuð. Þau undu þarna glöð við sitt í þrettán ár en þá kom stóra höggið. Trausti varð bráðkvaddur 1980. Þá sýndi Anna enn einu sinni hvað í henni bjó reisn og elja. Hún bjó svo áfram í Þórunnarstræti, þar var hún ein í nær þrjátíu ár.

Ég stend í svo mikilli þakkarskuld við hana, að yfir það ná engin orð. Gæska hennar og hjálpsemi var ómetanleg þegar eitthvað var að í fjölskyldu minni. Mörg sporin átti hún t.d. á sjúkrahúsið þegar maðurinn minn, heitinn, eða ég, vorum þar sjúklingar. Hún náði til svo margra fleiri sem þörfnuðust aðstoðar eða hjálpar. Anna var alltaf svo fín og ung í anda að undrun sætti. Anna tók þátt í ýmsum samkomum og sprelli í góðra vina hópi. Mér fannst hún aldrei vera gömul kona, þó að styttast tæki í hálf-tíræðis afmælið. Sjálfsbjargarviðleitnin, eljan og vinnusemin fylgdu henni ævilangt. Við töluðumst við í síma undanfarið stundum daglega. Síðasta samtal mitt við hana var föstudaginn 28. maí, en þá viðurkenndi hún að hún væri nú dálítið lasin og þá hvarflaði að mér:

Húmar að hallar degi
heilagi faðir minn.
vegmóðan þjón á vegi
varðveiti kraftur þinn.

Að morgni laugardags komu aðstandendur Önnu að henni rænulausri og hún andaðist á sjúkrahúsinu á Akureyri hálfum mánuði síðar án þess að komast til meðvitundar.  Nú kveð ég elsku Önnu mína hinstu kveðju með orðunum.

Friður Guðs þig blessi  hafðu þökk fyrir allt og allt.

Guðlaug R. Gunnlaugsdóttir.