Fæddist á Hreiðarsstöðum í Svarfaðardal 2. Október 1916. Hún lést á Sjúkrahúsi Akureyrar 1. September síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Anna Jónsdóttir og Guðjón Daníelsson bændur á Hreiðarsstöðum. Friðrika var yngst átta systkyna, tvö létust í frumbernsku og var hún síðust til að kveðja. Friðrika giftist 1950 Friðjóni Kristinssyni, fæddum 30. Maí 1925, dáinn 16. Desember 2001. Börn þeirra eru Elsa Björg fædd 1951, maki Bjarni Oddsson og eiga þau þrjár dætur, Hildi, Auði, sambýlismaður Guðmundur Örn, þeirra dóttir Arna Sara, og Eyrúnu, Sveinbjörn fæddur 1954, maki Sigrún Árnadóttir og eiga þau þrjú börn, Árna Huldar, sambýliskona Ástrós B. Viðarsdóttir og eiga þau einn son, Friðjón Mar og Drífu. Fyrir átti Sveinbjörn soninn Magnús Arnar, maki Jófríður Hilmarsdóttir, þau eiga einn son, Hilmar Daða. Áður átti Friðrika eina dóttur, Önnu Jónu fædda 1945. Hennar dætur eru Anna Karin, maki Erik Byström, þeirra synir eru Ísak, Jakob og Albin, Åsa Margaretha, maki Jens Krey, sonur þeirra er Malte. Friðrika ólst upp á Hreiðarstöðum. Hún hlaut almenna skólagöngu og fór síðar í Húsmæðraskólann á Laugalandi í Eyjafirði. Hún stundaði ýmis störf utan heimilis, lengst af í frystihúsi á Dalvík þar sem hún starfaði til 78 ára aldurs. Útför Friðrika fer fram frá Dalvíkurkirkju föstudaginn 11. september klukkan 13:30.

Þar sem ég kemst ekki að útför Rikku, en svo var hún kölluð í daglegu tali, langar mig að minnast hennar með nokkrum orðum.  Ekki var hún lengi að kveðja hún Rikka mágkona mín.  Aðeins um  sólarhringur leið frá því hún veiktist þar til hún var öll.  Þetta var líkt hennar lífsstíl, hún var aldrei að hangsa yfir hlutunum enda geysilega vinnusöm og það gustaði stundum af henni.

Þau hjón byggðu sér fallegt hús á Dalvík og þar bjuggu þau í mörg ár.  Árið 1995 fluttu þau til Reykjavíkur til þess að geta verið nær börnum og barnabörnum.  Þau hjón voru góð heim að sækja,  hvort sem var á Dalvík eða í Reykjavík.  Gestrisni, kærleikur og snyrtimennska einkenndi þau bæði og voru þau kát og fjörug þegar því var að skipta.  Oft var gestkvæmt hjá þeim og höfðu þau gaman af.  Rikka var snyrtileg kona og naut þess að vera fín.

Eftir andlát Friðjóns flutti Rikka á Dalbæ, dvalarheimili aldraðra á Dalvík, þar sem vel var um hana hugsað og erum við sem tengdust henni afar þakklát fyrir.  Hún fór með þeim í ferðalög og hjálpaði til þegar þannig stóð ár.  Gaman þótti Rikku að koma hingað suður og taka þátt í ýmsum athöfnum, nú síðast í sumar kom hún í brúðkaup eins barnabarnsins og var ég svo heppin að hitta hana í þeirri ferð.  Fannst mér dálítið af henni dregið þó enginn vissi þá að þetta væri síðasta ferðin suður.

Rikka var mikil handavinnukona og útbjó margt fallegt og naut ég góðs af því hún sendi mér ýmislegt fallegt í jólagjöf.  Rikka var afar barngóð, þegar ég hrindi til hennar á kvöldin bað hún alltaf að heilsa börnunum, bæði stórum og smáum.  Ég sakna þessara símtala því yfirleitt var hún svo hress.  Nú biðja þessir sömu krakkar fyrir kæra kveðju við leiðarlok.  Það eru sonur minn og fjölskylda og þakka þau innilega fyrir sig.

Guð blessi minningu Friðriku Margrétar Guðjónsdóttur.

Elín S. Kristinsdóttir.