Sigurður Karlsson fæddist í Bjálmholti í Holtum 24. september 1928. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi miðvikudaginn 20. maí sl. Foreldrar hans voru hjónin Kristín Ólafía Sigurðardóttir frá Bjálmholti, f. 26.4. 1896, d. 1.9. 1974, og Jón Karl Ólafsson frá Austvaðsholti, f. 20.12. 1898, d. 17.7. 1969. Systir Sigurðar er Borghildur Sjöfn, f. 12.6. 1937 í Bjálmholti. Sigurður bjó allan sinn aldur í Bjálmholti og stundaði þar búskap. Útför Sigurðar verður gerð frá Marteinstungukirkju í Holtum í dag, 30. maí, kl. 14.

Við mikinn söknuð get ég yljað mér við margar fallegar og góðar minningar um mann sem spilaði mikinn og stóran sess í mínu lífi. Minningarnar síðan ég var í sveitinni að hjálpa til við sauðburðinn og almenn bústörf og  þegar þú leyfðir mér að keyra Land Roverinn um túnin og þið Borghildur sátuð í kremju í framsætinu bara svo ég, litla stelpan ykkar, gæti fengið að keyra um. Einnig þegar ég var að fermast og þú komst með mér að altarinu þar sem þú varst veikur þegar þú fermdist og við grínuðumst alltaf með það að við fermdumst saman. Við vorum svo miklir vinir og þú minn mesti trúnaðarvinur. Við töluðum um allt milli heima og geima og alltaf gat ég leitað til þín. Þú varst mér eins og faðir og ég fann væntumþykju þína í minn garð. Allur tími sem við áttum saman var mér afskaplega mikilvægur.

Með söknuði í hjarta mínu kveð ég þig elsku Sigurður minn. Ég veit að þú vakir yfir mér og Borghildi og öllu okkar fólki og munt taka mér opnum örmum þegar að mínum tíma er komið.

Hvíl í friði elsku vinur.

Þín vinkona

Andrea Ösp.