Halldór Kristinn Vilhelmsson fæddist í Reykjavík 24. apríl 1938. Hann lést á líknardeild Landakotsspítala aðfaranótt 17. júní sl. Foreldrar hans voru Árný Marta Jónsdóttir húsmóðir, f. á Stokkseyri 1902, d. 1989 og Vilhelm Stefán Sigurðsson trésmiður, f. á Sauðárkróki 1905, d. 1973. Systkini Halldórs eru Jón Magnús vélstjóri, f. 1937, kvæntur Steinunni Gísladóttur, og Kristín Sigríður, f. 1949, d. 1999. Halldór kvæntist árið 1962 Áslaugu Björgu Ólafsdóttur tónmenntakennara, f. 1939. Foreldrar hennar voru Hildigunnur Halldórsdóttir, f. í Reykjavík 1912, d. 1992 og Ólafur Þórðarson, f. á Ölfusvatni í Grafningi 1905, d. 1983. Börn Áslaugar og Halldórs eru þrjú: 1) Sigurður tónlistarmaður, f. 1963, kvæntur Stefaníu Adolfsdóttur búningahönnuði, f. 1960, börn þeirra eru Viktoría, f. 1993, Klara, f. 1995, og Tómas, f. 2002. 2) Hildigunnur fiðluleikari, f. 1966. 3) Marta Guðrún söngkona, f. 1967, gift Erni Magnússyni píanóleikara, f. 1959, börn þeirra eru Halldór Bjarki, f. 1992 og Ásta Sigríður, f. 1998. Sonur Arnar er Máni, f. 1985. Halldór lærði trésmíði hjá föður sínum og lauk fyrst sveinsprófi og síðar meistaraprófi frá Iðnskólanum í Reykjavík. Halldór starfaði við smíðar, bæði á verkstæði föður síns og afa og hjá Húsasmiðjunni, en lengst af var hann sjálfstætt starfandi. Halldór gekk til liðs við Pólýfónkórinn og söng með honum í 20 ár. Þar kynntist hann Áslaugu eiginkonu sinni. Hann fékk snemma tækifæri til að syngja einsöng með kórnum, m.a. í passíum og óratóríum Bachs og Händels. Halldór hóf ungur nám í söng, fyrst hjá Kristni Hallssyni en árið 1962 hóf hann nám við Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem aðalkennari hans var Engel Lund. Hann tók síðar við kennslu af henni við tónmenntakennaradeild skólans og kenndi þar frá 1982 til 2002. Halldór starfaði í KFUM og hófst þar langt og farsælt samstarf með píanó- og orgelleikaranum Gústaf Jóhannessyni. Halldór kom fram með öllum helstu kórum og hljómsveitum hérlendis á ferli sínum og flutti með þeim mörg af helstu stórvirkjum tónbókmenntanna auk fjölmargra nýrra íslenskra verka, en Halldór var ötull flytjandi íslenskrar samtímatónlistar. Hann var t.d. í miklu samstarfi við Gunnar Reyni Sveinsson tónskáld. Halldór söng sitt fyrsta óperuhlutverk 1962. Hann var einn af stofnendum Íslensku óperunnar og söng burðarhlutverk í allflestum uppfærslum hennar fyrsta áratuginn. Þá söng Halldór einnig mörg hlutverk í óperuuppfærslum Þjóðleikhússins. Margar hljóðritanir voru gerðar af Ríkisútvarpinu með söng Halldórs. Hann var virkur í félagsmálum tónlistarmanna og var m.a. í stjórn Samtaka um byggingu tónlistarhúss um tíma. Eftir farsælan feril sem einsöngvari sneri hann sér aftur að trésmíðinni í meira mæli. Einnig lagði hann stund á útskurð og hljóðfærasmíði. Halldór var einn af stofnendum sönghópsins Hljómeykis, sem hóf starfsemi fyrir 35 árum, og söng hann sína síðustu tónleika með þeim í janúar sl. Halldór söng einnig í Kór Vídalínskirkju hin síðari ár. Halldór verður jarðsunginn frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 25. júní, og hefst athöfnin klukkan 13.

Kveðja frá Tónlistarskólanum í Reykjavík

Fallinn er frá á 72. aldursári Halldór Vilhelmsson, söngvari og trésmiður.

Halldór var um langt árabil einn okkar fremsti baritonsöngvari, söng burðarhlutverk á fjölum Íslensku óperunnar, kom oft fram sem einsöngvari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, auk þess að syngja með fjölmörgum kórum og sönghópum. Í list sinni var Halldór allt í senn, stór, hreinn og lítillátur en umfram allt heill og einlægur. Að koma réttum texta og innihaldi hans til skila var honum mikilvægt og eðlislægt.
Halldór nam söng við Tónlistarskólann í Reykjavík og síðar kenndi hann söng við þann sama skóla um árabil. Síðustu árin sá hann um allt það sem laut að viðhaldi innanstokks. Ef dytta þurfti að einhverju eða lagfæra var Halldór kallaður til og leysti öll sín störf af sjaldgæfri natni og vandvirkni. Verka hans sér víða stað í Tónlistarskólanum í Reykjavík.
Halldór hafði einstaka nærveru, fulla af birtu og hlýju. Handtak hans var þétt og glettni í augnaráðinu. Hann lét ekki mikið yfir sér og kunni ekki þann hátt að trana sér fram.
Ég sendi Áslaugu og fjölskyldunni allri mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Guð blessi minningu Halldórs Vilhelmssonar.

Kjartan Óskarsson, skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík.

Kveðja frá KFUM og KFUK

Í virðingu og þökk kveður KFUM og KFUM kæran félagsmann, Halldór Kristin Vilhelmsson. Hann tók þátt í starfi félagsins á margan hátt. Hann var leiðtogi í vinadeild KFUM á sunnudögum á Amtmannsstíg í mörg ár. Halldór var mikill tónlistamaður og góður söngvari og ótaloft söng hann á fundum, samkomum og hátíðum félagsins og var þannig með í því að skapa auðugra og fjölbreyttara samfélag. Mörgum sinnum kom öll fjölskylda hans eða hluti af henni og söng og spilaði á ýmsum fundum til mikillar gleði fyrir áheyrendur.

Félagið þakkar af alhug allt sem hann gaf því.

Drottinn blessi minningu Halldórs Kristins Vilhelmssonar.

Guð blessi og styrki fjölskyldu hans í sorg þeirra.

F.h. KFUM og KFUK,

Kristín Sverrisdóttir.

Söngvarinn Halldór Vilhelmsson, heiðursfélagi í Félagi íslenskra tónlistarmanna er í dag kvaddur hinstu kveðju.

Halldór átti gifturíkan og farsælan feril að baki. Í áraraðir var hann í fremstu röð íslenskra einsöngvara og kom fram í mörgum óperuhlutverkum, sem einsöngvari með kórum og við önnur tækifæri. Hann var einn af stofnfélögum Hljómeykis og söng með þeim nær óslitið í 35 ár.

Auk annarra tónlistarstarfa kenndi Halldór söng við Tónlistarskólann í Reykjavík þar til fyrir nokkrum árum. Halldór var alltaf einstaklega yfirvegaður og jarðbundinn. Auk þess að vera góður kennari var hann mjög laghentur.  Oft mátti sjá hann með skrúfjárn eða hamar í hendi þegar eitthvað þurfti að lagfæra í skólanum.

Öll þrjú börn Halldórs og Áslaugar eiginkonu hans, þau Sigurður, Hildigunnur og Marta Guðrún, hafa fetað braut tónlistarinnar, eru virk og virt í íslensku tónlistarlífi og meðlimir í félaginu okkar.

Í febrúar 1979 söng Halldór einsöng í Sköpuninni eftir Haydn með Söngsveitinni Fílharmóníu og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Í vetur mætti hann á æfingar hjá Hljómeyki og Kór Áskirkju og stefndi að því að syngja Sköpunina með þeim á sviði Háskólabíós 2. apríl sl. en varð því miður að draga sig í hlé stuttu áður vegna veikinda.

Félag íslenskra tónlistarmanna þakkar Halldóri samfylgdina og framlag hans til íslensks tónlistarlífs. Áslaugu, börnunum og fjölskyldum þeirra sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Guðríður St. Sigurðardóttir, varaformaður F.Í.T.