Valdimar Einarsson fæddist á Siglufirði 5. ágúst 1991, Hann andaðist 14. september 2009. Valdimar var þriðji í röðinni af fimm systkinum. Faðir hans Jóhannes Einar Guðmundsson stýrimaður og skipstjóri er fæddur og uppalinn í Reykjavík, (móðir, Lovísa Jóhannesdóttir f. 1936 – faðir, Guðmundur Jónsson f. 1935 d. 1998) og móðir hans Sævör Þorvarðardóttir póstmeistari og húsmóðir er fædd og uppalin í Grundarfirði, (móðir, Ásdís Valdimarsdóttir f. 1933 – faðir, Þorvarður Lárusson f. 1938 d. 2001). Systkini Valdimars eru Sævarður f. 1986 stærfræðinemi í HR, Jóhannes Fannar f. 1989 verkfræðinemi í HÍ, unnusta hans er Sigurlín Sumarliðadóttir guðfræðinemi í HÍ, Jón Þór f. 1993 nemi í FSN og Snædís Ólafía f. 1995. Fjölskyldan flutti frá Reykjavík til Siglufjarðar árið 1990 og bjuggu þar allt til ársins 2005 að þau fluttu til Grundarfjarðar. Valdimar var mikill áhugamaður um bíla og vinnuvélar og undi sér aldrei betur en við stjórnvölinn á einhverju ökutækinu, auk þess sem hann var harður Liverpool aðdáandi. Langvarandi veikindi settu mark sitt á hann og dvaldi Valdimar síðustu vikurnar á sjúkrahúsi í Newcastle þar sem hann undirgengst aðgerð til að reyna að vinna bug á veikindum sínum. Valdimar verður jarðsunginn frá Grundarfjarðarkirkju í dag, 26. september, og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku vinur.

Þegar ég lít til baka nokkur ár aftur í tíman þá fór ég að veita ungum strák eftirtekt þegar hann var að labba fram hjá verkstæði okkar, og horfði með mikilli eftirvæntingu á stóru bílana hjá okkur.  Ég kynntist Valdimari fyrst almennilega þegar Aldís Dóttir mín lærbrotnaði sumarið 2007. En þá var hún sett á sömu stofu og þú varst á, og voru þið þar saman í tvær vikur. Mamma þín sagði okkur að þú hefðir nú ekki verið ánægður með að einhver 9 ára stelpuskjáta væri að koma á sömu stofu, en þú vissir ekki hvaða gleðigjafi var á leiðinni þar sem þú varst vanur að fá að vera einn. En hjá ykkur myndaðist mikill vinskapur. Þið hlógu saman, spiluðu og pössuðu svo hvort annað þegar mömmurnar  fóru að kaupa handa ykkur ís. Þú varst svo góður við hana og þakka þér fyrir það elsku vinur. Ég bauð þér að koma til mín þegar þú myndir hressast þá áttaði ég mig því að strákurinn sem oft labbaði framhjá fyrirtæki okkar var þú. Um leið og þú varst hress komst þú til mín og fór ég og sýndi þér fyrirtækið, og þá var ekki aftur snúið. Þú komst nánast daglega til okkar eftir það þegar þú hafðir heilsu til. Þú varst svo indæll og kurteis drengur.

Ég var farinn að leyfa þér að taka í lyftarann hjá okkur þegar þú hafðir fengið bílpróf og einnig að keyra út og fór þér  það vel í hendi. Þú varst varkár og fórst mjög varlega. Þegar við kynntumst svo betur sá ég hvað margt gott bjó í þér. Oft  barðist þú fyrir lífi þínu dag eftir dag en kvartaðir aldrei. Og gerðir jafnvel lítið úr veikindum þínum. Ég man einn daginn komstu til mín upp á skrifstofu  og átti ég lítinn flutningabíl sem var upp í hillu hjá mér. Ég sá að þú varst að skoða bílinn og spurði ég þig hvort þú værir til í að keyra svona bíl. Það ljómuðu í þér augun eins og í dreng sem var að upplifa ævintýri. Þegar  við vorum búnir að spjalla smá stund saman þá sagði ég við þig að þú mættir eiga bílinn. Ég tók eftir því að þér vöknaði um augun af ánægju. Þú tókst í hönd mína og þakkaðir kærlega fyrir þig. Og næsta dag þegar ég keyrði fram  hjá húsinu þínu tók ég eftir því að þú varst búinn að láta bílinn út í glugga hjá þér.Þetta var ég ánægður með því þarna sjá ég hvað þú varst ánægður með bílinn. Núna áttu allir  að sjá hvað þú ættir stóran bíl.

Ekki spillti vináttu okkar  þegar þú sagðir mér að við ættum það sameiginlegt að halda með Liverpool. Ég mun ávallt minnast þín  þegar Liverpool spilar fótboltaleik. Einu sinn varst þú hjá mér og töluðum við um að einhvern tíman ætluðum við að fara saman á leik með Liverpool. Þá var ekkert annað í spilunum hjá okkur enn að sjá Liverpool á móti Manchester United á Anfield heimavelli Liverpool. Þakka þér elsku vinur fyrir skemmtileg samskipti og biðjum við góðan guð að styrkja fjölskyldu þína á þessum erfiða tíma.

Heimsins þegar hjaðnar rós
og hjartað klökknar.
Jesús gefðu mér eilíft ljós
sem aldrei slökknar.
(Höfundur ókunnur.)

Þinn vinur,

Ásgeir Ragnarsson og fjölsk.

Sposkur á svip, svolítið dulur og feiminn.  Yndislegt bros, svo lýstist upp andlitið og augun.  Þessi fallegu augu.  Svona var hann þegar ég kynntist honum fyrst, þegar dóttir mín og hann voru bestu vinir, ég og mamma hans góðar vinkonur og mikill samgangur.  Svona ætla ég að minnast hans.

Með ástarþökk ertu kvaddur í hinsta sinni hér,

og hlýhug allra vannstu er fengu að kynnast þér.

Þín blessuð minning vakir og býr í vinahjörtum,

á brautir okkar stráðir þú, yl og geislum björtum.

(Ingibjörg Sigurðard.)

Kveðja,

Halla Kjartansdóttir