Þorkell Diego Þorkelsson fæddist í Reykjavík 28. júní 1947. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi annan páskadag 13. apríl 2009. Foreldrar hans voru: Þorkell Hjálmarsson Diego, f. 31. maí 1916 í Bolungarvík, uppalinn á Steinhólum við Kleppsveg, d. 1968 og Jóna Sveinsdóttir, f. 9. maí 1916 á Ásláksstöðum á Vatnsleysuströnd, uppalin á Heiði við Kleppsveg, d. 1987. Systkini Þorkels eru Sveinn, f. 1937, d. 1995, Dóra Diego, f. 1941, Hjálmar Diego, f. 1943 og Jón f. 1952. Þorkell kvæntist 1966 Ástríði Ingimarsdóttur frá Suðureyri við Súgandfjörð, f. 1947. Börn þeirra eru: Dóra Björg Diego, f. 1966, hennar börn eru Þorkell Diego Jónsson, f. 1992, Bryndís Diego Jónsdóttir, 1994 og Stella Karen Kristjánsdóttir, f. 2001. Elmar Þór Diego, f. 1973, maki Erna Karen Sigurbjörnsdóttir, f. 1971. Börn þeirra eru Róbert Aron Diego, f. 1996 og Eiður Máni Diego, f. 2003. Dóttir Ernu Karenar er Sólrún Lilja Diego, f. 1991. Börn Ástríðar og fósturbörn Þorkels eru: Guðrún Ásta Guðjónsdóttir, f. 1963, maki Jóhannes Jónsson. Hennar börn eru: Jóhanna Jakobsdóttir, f. 1980, Daníel Viðarsson, f. 1989, Ásta Kolbrún Jóhannesdóttir, f. 1996 og Jón Andri Jóhannesson, f. 2000 og Sigurþór Yngvi Ómarsson, f. 1964, sambýliskona Hanna María Hjálmtýsdóttir. Dóttir þeirra er Eva María Sigurþórsdóttir, f. 2001. Ástríður og Þorkell skildu árið 1983. Sambýliskona Þorkels var Halldóra Björk Ragnarsdóttir. Dóttir hennar og ættleidd dóttir Þorkels er Eva Dögg Diego Þorkelsdóttir, f. 1981. Þorkell og Halldóra skildu 1990. Þorkell kvæntist 2003 Sladjönu Vukovic frá Serbíu, f. 1980. Þau skildu árið 2008. Þorkell bjó og starfaði á Suðureyri við Súgandafjörð frá 1964 til 1982, þar vann hann fyrst við fiskvinnslu, seinna rak hann verslun og bensínafgreiðslu og sinnti auk þess ýmsum félagsstörfum, starfaði m.a. með Rauða kross-deildinni á staðnum. Um 1982 fluttu þau til Reykjavíkur, þar sem hann starfaði m.a. við ýmis verslunarstörf. Árið 1992 bauðst honum að fara til Júgóslavíu sem vöruflutningabílstjóri á vegum RKÍ. Þegar ráðningartíma hans lauk, bauðst honum starf leiðangursstjóra flutningabíla ICRC í Bosníu, Króatíu og Serbíu. Í allt starfaði Þorkell í rúm níu ár á vegum RKÍ og ICRC í hinum ýmsu löndum. Útför Þorkels verður gerð frá Laugarneskirkju föstudaginn 24. apríl kl. 13.

Ég vildi að kynni okkar hefðu verið lengri, hafist fyrr og við aðrar kringumstæður. Undirritaður kynntist Þorkeli Diego er við börðumst sameiginlegri varnarbaráttu við afleiðingar þess höfuðmeins sem síðar dró hann til dauða. Kynni þessi hófust snemma árs 2004. Það var alltaf viss tilhlökkun þegar Diego var að koma. Hann var einstaklega hlýr og skemmtilegur persónuleiki. Ævintýralegar frásagnir hans og léttleiki ollu því að gott var að umgangast hann. Hann hafði um árabil verið starfsmaður Alþjóða Rauða krossins og dvalist einkum á stríðshrjáðum svæðum; m.a. í Ruanda, Sierra Leone, Afganistan og á Balkanskaga þar sem hann aðstoðaði hjálparþurfi fórnarlömb styrjaldanna. Sögur um dópaða hermenn á öllum aldri, jarðsprengjur, erfiðar samningaviðræður, rán á bifreiðum og hjálpargögnum og fleira fylgdu okkar samverustundum. Alltaf fylgdu nokkrir brandarar frá Balkanlöndunum með. Þó lagði hann aldrei illt orð til nokkurs manns í mín eyru. Nú mætti halda að stundir okkar hafi farið í kjaftagang og lítið hafi verið unnið en það var öðru nær. Keli hafði baráttuviljann og hörkuna meðan samstarf okkar stóð. Kjarnmiklar frásagnirnar ollu því að undirritaður hvatti Díego til að skrá þær niður. Honum tókst að skrá all mikið áður en sjúkdómurinn gerði honum ritstörfin ómöguleg. M.a. sagðist hann hafa keypt sumarhús við Adríahafið, sem hann hugðist nota í ellinni. Hann fékk þó ekki aðgang að því þar sem hústökufólk hafði sest þar að. Fyrir tveim árum fékk hann það afhent og hóf viðgerðir. Í september 08 ákvað undirritaður ásamt sveitadreng að norðan, búsettum í Danmörku, Einari Páli Eggertssyni, að hjálpa Diego við uppbygginguna. Við Diego flugum til Kastrup. Einar beið okkar með bíl sinn og ekið var til Adríahafsins. Einar er verkhagur svo hann var yfirsmiður, ég handlangari en Diego verkstjóri. Hefðum við haft 2 daga í viðbót hefðum við lokið við að byggja húsið upp, en því miður stendur enn örlítið eftir. Við áttum ógleymanlega daga í Novi. Léttleiki, og almennur húmor einkenndi öll samskipti okkar. Ef dapurleiki ásótti einhvern þremenninganna var hann strax hrakinn á brott með góðum vilja og húmor. Diego sagði okkur að suður í Dubrovnik væri til e.k. musteri, tileinkað dýrlingi sem heitið hafði Diego. Síðan var hann að sjálfsögðu aldrei kallaður annað en Dýrlingurinn. Einhverju sinni þurftum við að fara í verslun til efniskaupa. Enginn hjólastóll var til í búðinni. Einar greip þá stól, snaraði Diego upp í hann og síðan var öllu saman vippað upp í innkaupakörfu sem við völsuðum með um við ómælda erftirtekt. Diego var Einari þakklátur fyrir aðstoðina.

Diego virti menningu og listir þeirra þjóða sem hann hafði dvalist með. Til marks um það viðaði hann að sér minningum í formi listmuna og hafði hann komið sér upp stórkostlegu safni fagurra muna.

Við Hildur vottum aðstandendum Þorkels Diego samúð okkar og þökkum ógleymanleg kynni.

Magnús H. Ólafsson.