Nýbyggingar Afborgun verðtryggðra húsnæðislána í desember verður miðuð við janúar 2008 eftir greiðslujöfnun.
Nýbyggingar Afborgun verðtryggðra húsnæðislána í desember verður miðuð við janúar 2008 eftir greiðslujöfnun. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aðgerðir stjórnvalda henta fyrst og fremst þeim sem munar verulega um 15-17% lækkun á greiðslubyrði eins og fjárhagsstaðan er í dag, en er óráðleg fyrir aðra lántakendur.
Eftir Unu Sighvatsdóttur

una@mbl.is

GREIÐSLUJÖFNUN verðtryggðra húsnæðislána sem gengur í gegn á gjalddaga í desember á við um alla lántakendur sem eru í skilum, hjá öllum lánastofnunum, jafnt bönkum sem Íbúðalánasjóði.

Einu gildir í hversu mörg ár greitt hefur verið af láninu og hversu miklar eða litlar eftirstöðvar eru af höfuðstólnum, öll verðtryggð húsnæðislán í skilum verða greiðslujöfnuð nema lántakandinn óski eftir öðru.

Líkt og sagt var frá í Morgunblaðinu í gær er ekki gefið að greiðslujöfnun sé úrræði sem borgar sig fyrir alla lántakendur þótt hún sé mörgum kærkomin og er því öllum ráðlegt að taka upplýsta ákvörðun um hvort hún hentar eða ekki.

Tryggir ekki framtíðaröryggi

En fyrir hverja er greiðslujöfnun heppileg? Þessar aðgerðir stjórnvalda eru ekki einfaldar og óvissuþættirnir margir svo erfitt er að alhæfa, en í stuttu máli má segja að fyrir þá sem ráða enn við afborganir lána þrátt fyrir verðbólguna borgar sig sennilega ekki að þiggja greiðslujöfnun né heldur hentar hún þeim sem eru verst staddir og þurfa á sérstökum úrræðum að halda.

Greiðslujöfnun er því fyrst og fremst heppilegt úrræði fyrir fólk í þeirri stöðu að það muni verulega mikið um 15-17% lækkun á afborgunum eins og fjárhagsstaðan er í dag, en þá þarf líka að hafa í huga að það er tímabundin lausn því í heild verður kostnaður við lánið hærri.

Greiðslujöfnun er þannig ekki trygging fyrir öruggari framtíð, því óvissuþættirnir eru of margir til að hægt sé að gera áreiðanlega greiðsluáætlun til loka lánstímans.

Minni lánabyrði í fimm ár

Stofnun um fjármálalæsi hefur hins vegar sett fram spá um þróun greiðslujöfnunarvísitölu og verðbólgu. Samkvæmt spánni má gera ráð fyrir að greiðslujöfnuð lán séu ekki hagstæð lengur en út árið 2014, eftir það verði greiðslubyrði þyngri en óbreyttra lána. Greiðslujöfnun felur því ekki í sér langtímalausn.

Á hinn bóginn er rétt að ítreka að hvort sem lántakendur velja á þessari stundu að greiðslujafna lánin sín eða ekki þá brenna þeir ekki allar brýr að baki sér. Þeir sem hafna greiðslujöfnun núna geta sótt um hana síðar ef þeir skipta um skoðun og eins er hægt að segja sig frá greiðslujöfnun hvenær sem er, en þá leggst mismunurinn aftur á höfuðstólinn með vöxtum.

S&S

Hverjir fá greiðslujöfnun?

Allir sem eru með verðtryggð húsnæðislán, óháð lánastofnun, upphæð, aldri eða lengd láns, svo lengi sem lánið er í skilum.

Er hægt að hætta við hana?

Já, það er hægt hvenær sem er en tilkynningin þarf að berast eigi síðar en 10 dögum fyrir næsta gjalddaga. Þeir sem vilja hafna greiðslujöfnun strax þurfa því að gera það fyrir 20. nóvember.

Hvar er hægt að gera það?

Hjá viðkomandi lánastofnun, t.d. í gegnum staðlað form í heimabankanum og á heimasíðu Íbúðalánasjóðs.

Hvernig er greiðslujöfnun?

Afborganir eru færðar aftur til þess sem þær voru í janúar 2008 og tengdar sérstakri vísitölu í stað neysluvísitölu. Þær ættu því að lækka um 15-17% í upphafi.

Greiðslujöfnunarvísitalan gæti skekkt kjarabaráttuna næstu árin

„ÞAÐ sem stjórnvöld eru að gera með þessari greiðslujöfnun er að bæta nýju flækjustigi inn í þegar mjög flókna stöðu,“ segir Breki Karlsson, forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi.

Stofnunin geldur varhug við greiðslujöfnunarvísitölunni sem stjórnvöld hyggjast tengja afborganir lána við, en hún reiknast út frá lanaþróun og atvinnustigi og segir Breki lausnina byggða á rangri hugsun. „Vandamálið við verðtryggðu lánin er ekki verðtryggingin sjálf, heldur verðbólgan, svo það sem við þurfum að gera til að lækka afborganir er að halda verðbólgunni niðri. Að sama skapi þyrftum við þá að berjast við að halda launum og atvinnustigi niðri með greiðslujöfnunarvísitölunni, sem er náttúrlega mjög skakkt og gæti skekkt kjarabaráttu framtíðarinnar.“ Breki segir launavísitöluna auk þess ekki gagnsæja því hún mælir ekki laun einstaklinga eins og hópa. Þetta sést m.a. á því að síðasta árið hefur stór hópur fólks hætt í bankageiranum og því misst mjög há laun, en á sama tíma hefur launavísitalan hækkað. Svo ef kennarastéttin t.d. fær launahækkun, þá þurfa hjúkrunarfræðingar að borga meira af lánunum sínum.

„Þarna er komið tæki til að setja lok á kjarabaráttuna því hún skilar sér í hærri greiðslubyrði.“