[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bókasafn ömmu Huldar Eftir Þórarin Leifsson, 216 bls. Mál og menning gefur út. 2009.

Árið 2007 leit barnabókin Leyndarmálið hans pabba eftir Þórarin Leifsson dagsins ljós og vakti furðu lítið umtal þrátt að fjalla um föður einn sem finnst fátt betra en að gæða sér á mannakjöti. Sem sagt eins konar barnahrollvekjubók.

Nú bregður svo við að út er komin ný bók eftir téðan höfund, Bókasafn ömmu Huldar , og er þar róið á svipuð mið, þótt ekki sé brotið gegn grundvallarviðmiðum mannlegs samfélags. Sagan gerist í framtíð þar sem búið er að banna dagblöð, sjónvarpsfréttir og netið. Bækur eru allt að því bannaðar. Krökkum er gert að læra um vexti og lán í skólum. Fullorðna fólkið er skuldaklafabundið og plagað af vinnumaurasiðferði. Samfélagið er neyslumarkað og ferkantað, skapandi hugsun er tabú. Þetta er framandi heimur sem þó kemur einhvern veginn kunnuglega fyrir sjónir.

Greint er frá Albertínu sem er, í byrjun bókar, nýbyrjuð í Silfur-skottuskólanum og er svo lukkuleg að lifa fyrsta skóladaginn af. Orðanotkun líkt og heiti skólans, óvættir , skrímsli og að einni persónunni sé líkt við hýenu (persónulýsingar eru annars einkar líkamlegar eða gróteskar) strax í fyrsta kaflanum markar stemningu sögunnar. Nafngiftir líkt og Gullbúrið , þar sem Albertína býr með fjölskyldu sinni, Gullbankinn , (hann er svo gott sem eigandi alls heila klabbsins), bankaplánetan eru einnig afar inntakslýsandi.

Albertína kynnist samnemend-um sínum og fljótlega verður ljóst að eitthvað undarlegt á sér stað; foreldrar barnanna hverfa og enginn veit hvert. Gullbankinn liggur þó sterklega undir grun. Svo birtist hin fjörgamla tröllkona og norn amma Huld með sínar milljón bækur. Í kjölfarið upphefst mikið ævintýri þar sem börnin leita foreldra sinna og lenda í allslags raunum.

Það er skemmst frá því að segja að verk þetta er vel heppnað; slungið og læsilegt. Raunar mætti vel skrifa umtalsvert lengri grein um bókina og eru það góð meðmæli. En í þjöppuðu máli virkar sagan alltént sem hreint og klárt ævintýri með tilheyrandi furðum, töfrum og ógnvekjandi og dulúðugu andrúmslofti. Kemur og æsileg, spennandi og húmorsrík atburðarásin stöðugt flatt upp á lesandann.

Þess að auki og má m.a. vel spyrða dagsetninguna 06.10.08 og aðdraganda hennar við söguna sem og hyllingu ímyndunaraflsins: Saga fyrir börn í nútíð jafnt sem þátíð.

ÓLAFUR GUÐSTEINN KRISTJÁNSSON