Bjarni Bjarnason
Bjarni Bjarnason
Eftir Bjarna Bjarnason: "Í þessu máli getur Samkeppniseftirlitið bæði sinnt því hlutverki sínu að koma á eðlilegum viðskiptaháttum öllum í hag og um leið haft gríðargóð óbein áhrif á andlegt líf í landinu."

Samkeppniseftirlitið sagði 2008 um samruna stærstu bókaforlaga landsins árið áður: „...er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að JPV og M&M muni eftir samruna njóta markaðsráðandi stöðu á markaði...“ Hið nýja fyrirtæki hlaut nafnið Forlagið. Til að sporna við markaðsráðandi stöðu þess var því gert auk annars að selja útgáfuréttinn á Íslensku orðabókinni og verkum Halldórs Laxness. Það gerðist aldrei. Síðan hefur markaðsstaða Forlagsins styrkst á öllum sviðum.

Ástandið

Í krafti stærðar og margskonar tengsla við starfsmenn er Forlagið ráðandi í Félagi íslenskra bókaútgefenda. Félagið skipar til að mynda mann í dómnefnd Íslensku bókmenntaverðlaunanna, sem vel mætti kalla verðlaun Forlagshöfunda: Árið 2007 voru átta af tíu bókum sem tilnefndar voru til Íslensku bókmenntaverðlaunanna frá Forlaginu, eða 80%, og var það í engu hlutfalli við fjölda titla sem Forlagið átti á markaði, eða innan við þriðjung. Forlagið er aldrei með undir 60% tilnefninga til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og fær þau svo til undantekningarlaust.

Í stjórn Rithöfundasambandsins, sem einnig skipar mann í dómnefnd Íslensku bókmenntaverðlaunanna, eru nánast bara höfundar útgefnir hjá Forlaginu og sinnir Rithöfundasambandið þeim höfundum óhjákvæmilega mest.

Menn tengdir Forlaginu eru að minnsta kosti 60% af stjórn Bókmenntahátíðar í Reykjavík enda koma aðrir höfundar of lítið nálægt þeirri hátíð Forlagsins meðan forlagshöfundar koma þar ár eftir ár.

Jafnvel helsta bókabúð landsins, Mál og menning við Laugaveg, er komin í óeðlilega náin tengsl við Forlagið í gegnum eignarhaldsfélagið sem á helminginn í Forlaginu.

Þegar kemur að tímaritum um bókmenntir er Tímarit Máls og menningar í eigu Forlagsins og Skírni er ritstýrt af öðrum helsta áhrifamanni Forlagsins.

Þegar kemur að gagnrýnendum er einn helsti menningarritstjórinn vinur útgáfustjóra Forlagsins sem leiðir til þess að Fréttablaðið er nokkurs konar kynningarblað fyrir Forlagið og sumir gagnrýnendur eru í vinnu hjá Forlaginu eða hafa verið það. Í krafti þessara tengsla og auglýsingaútgjalda til fjölmiðla á Forlagið mikið til bókmenntaumræðuna. Einn áhrifamesti menningarritstjórinn er líka einn helsti bókmenntagagnrýnandi sjónvarpsins þótt tengslin við Forlagið geri hann marklausan. Hinn gagnrýnandi þar er höfundur hjá Forlaginu. Ef nöfnum þessara gagnrýnenda er slegið upp á síðu Forlagsins koma upp fimmtíu dómar þar sem jafn mörg verk Forlagsins eru dásömuð. Merkilegt má teljast að einn besti fjölmiðlamaður Íslands skuli einungis hleypa tengdustu gagnrýnendum þjóðarinnar í þáttinn hjá sér. Svo virðist sem hann átti sig ekki á að menningarheimurinn lýtur nákvæmlega sömu hagsmunagæslulögmálum og aðrir hagsmunaheimar og er langtum spilltari en til dæmis matvörumarkaðurinn sem þó er í umræðunni. Samkeppniseftirlitið taldi að samruni M&M og JPV mundi hindra virka samkeppni og nú sést að það var rétt til getið í fjölmiðli okkar allra sem á þó lögum samkvæmt að stuðla að tjáningarfrelsi og því að fram komi í dagskrá rök fyrir mismunandi málum.

Formaður kynningardeildar menntamálaráðuneytisins fyrir Bókamessuna í Frankfurt 2011, forlagshöfundurinn Halldór Guðmundsson, er svo nátengdur Forlaginu að hann getur ekki verið annað en umboðsmaður Forlagshöfunda, þar með talið sín sjálfs. Maðurinn sem á að gæta hags allra höfunda til jafns var á tímabili stjórnarformaður Forlagsins samtímis því að vera framkvæmdastjóri Sögueyjunnar, en hefur nú vikið af fundi um stund, svo notað sé kunnuglegt orðalag úr bankaheiminum. Áherslan á Forlagshöfunda sést strax á kynningarvef Sögueyjunnar. Eftirfarandi dæmi má gefa um misbeitingu Halldórs á valdi sínu: Höfundur frá litlu íslensku forlagi er í tengslum við mjög áhugasaman þýskuþýðanda og þýskt forlag hefur áhuga á honum. Höfundurinn biður Halldór skriflega um að koma á fundi milli þýðandans og þýska forlagsins í Frankfurt og beita sér starfinu samkvæmt til að klára dæmið með samningi. Halldór tekur vel í það skriflega. Það sem síðan gerist er að fundurinn fer aldrei fram og Halldór fær þýðandann þess í stað til að þýða verk eftir virtan höfund á vegum Forlagsins. Þannig leggur hann stein í götu höfunda frá litlum forlögum, fyrir Forlagshöfunda, og misbeitir valdi í opinberri stöðu í hag fyrirtækis sem hann er nátengdur.

Þegar ástandið á litlum markaði er svona einsleitt þegar kemur að öllum hliðum íslensks bókamarkaðar má vel tala um eigendur íslenskra bókmennta. Og þegar fáir einstaklingar ráða svona miklu, í þessu tilfelli Jóhann Páll Valdimarsson, Halldór Guðmundsson og aðilar þeim tengdir, þá ríkir þöggun og skoðanaþvingandi fámennisveldi. Eigendurnir eru fulltrúar gamalla tíma og valda engan veginn ofvöxnum hlutverkum sínum þegar krafist er í senn skapandi og gagnrýninnar hugsunar á öllum sviðum samfélagsins. Ein afleiðing þessa ástands er sú að menningarlegri umræðu um bókmenntir er ekki treystandi vegna hagsmunatengsla. Önnur áhrif eru að bókmenntirnar eru að of stórum hluta fastar í úreltum þjóðernishugmyndum sem áttu sinn þátt í hruni samfélagsins. Þjóðernisrómantískum hugmyndum sem þó er verið að leggja áherslu á í kynningu á íslenskum bókmenntum fyrir Frankfurt og selja sem íslenska bókmenntahugsun.

Á Forlagið hlut í Samkeppniseftirlitinu?

Eitt skilyrðið fyrir samruna JPV og M&M var að Forlagið seldi frá sér Íslensku orðabókina, og er það gott dæmi um hvernig eftirlitið lætur fara með sig. Fyrst heimila þeir sameiningu fyrirtækjanna sem gerbreytir bókamarkaðnum. Síðan setur Forlagið Íslensku orðabókina á sölu og fær sanngjarnt tilboð frá eina forlaginu sem eftir er á markaði sem ræður við verkefnið. Þá hafnar Forlagið tilboðinu enda telja þeir það ekki í samhengi við markaðsvirði verksins. En málið er að það voru þeir sjálfir sem með hjálp Samkeppniseftirlitsins röskuðu jafnvæði á markaðnum, og byggja svo rök sín á þeim sama óeðlilega markaði til að hafna tilboðinu. Að eftirlitið skuli láta draga sig svona á asnaeyrunum sýnir algert máttleysi stofnunarinnar í málinu. Trú smærri forlaga á Samkeppniseftirlitið er það lítil að þegar eftirlitið biður útgefendur um upplýsingar um hvernig þeir telja stöðuna vera þá nenna margir hverjir ekki að svara því þeir vita að ekkert gerist hvort sem er. Samkeppniseftirlitið hefur reynst öflugasti andstæðingur frjáls markaðar í bókmenntaheiminum.

Stærsta einstaka aðgerðin sem mundi skapa viðunandi valddreifingu í bókmenntaheiminum væri ef Samkeppniseftirlitið sæi til þess að Forlaginu væri skipt upp í að minnsta kosti tvö sjálfstæð fyrirtæki á markaði. Einveldisstaða fyrirtækisins hefur styrkst, það er sameiningarrisi í anda 2007 yfirtökubákna og menn haga sér í samræmi við það. Löngu er ljóst orðið að staða Forlagsins brýtur í bága við almennt siðgæði. Ekki þarf að blaða lengi í samkeppnislögum til að sjá að starfsemi Forlagsins er vægast sagt á gráu svæði. Áhrifamenn í bókmenntaheiminum ættu að láta reyna á það fyrir dómstólum hvort staða Forlagsins á markaði brjóti í bága við lög, gjarnan með aðkomu Rithöfundasambandsins og Félags íslenskra bókaútgefanda. Samkeppniseftirlitið sem samþykkti samruna tveggja fyrirtækja sem þá þegar voru of stór á markaði er ekki stofnun sem neinn tekur alvarlega ef það er dæmt út frá stöðunni eins og hún er í bókmenntaheiminum. Því er hér áskorun til smærri forleggjara að fara í mál við Forlagið með tugmilljóna skaðabætur í huga og til Samkeppniseftirlitsins að grípa til skynsamlegra aðgerða gegn Forlaginu. Slíkt yki trúverðugleika stofnunarinnar, og stuðlaði að fjörugri og heilbrigðari bókmenntaumræðu. Í þessu máli getur Samkeppniseftirlitið bæði sinnt því hlutverki sínu að koma á eðlilegum viðskiptaháttum öllum í hag og um leið haft gríðargóð óbein áhrif á andlegt líf í landinu.

Höfundur er rithöfundur.