Rósa Geirþrúður Halldórsdóttir fæddist að Hlíðarenda á Eskifirði 14. október 1928. Hún andaðist á Landakoti í Reykjavík þann 13. október sl. Foreldrar hennar voru Sólveig Þorleifsdóttir húsmóðir frá Vík í Bæjarhreppi í Austur-Skaftafellssýslu f. 1901, d. 1945 og Halldór Árnason útgerðarmaður frá Högnastöðum við Eskifjörð f. 1887, d. 1953. Systkini Rósu eru Áslaug f. 1923, Arnheiður f. 1926, Guðný f. 1930, d. 1944, Halldór f. 1933, Ragnar f. 1935, Guðrún f. 1938 og Georg f. 1941. Rósa giftist Sigurði G.S. Þorleifssyni húsasmiði f. 1935, d. 1977. Börn þeirra eru: 1) Rósa Sigríður f. 1955 og á hún tvö börn. 2) Halla Sólný f. 1957, d. 2000, gift Heimi V. Pálmasyni f. 1959 og áttu þau tvö börn. 3) Þorleifur Már f. 1960 og á hann 5 börn. 4) Bára Rut f. 1961, d. 2006, gift Emil Thorarensen og áttu þau þrjú börn. 5) Dóra Guðný f. 1963, gift Jóni Harry Óskarssyni f. 1965 og eiga þau tvö börn. 6) Elmar Örn f. 1964, giftur Tinnu Sigurðsson f. 1975 og eiga þau tvö börn, fyrir á Elmar 4 börn frá fyrra sambandi. 7) Kristján Guðni f. 1966. Rósa ólst upp á Eskifirði og gekk í barnaskóla þar. Hún flutti til Keflavíkur um tvítug og starfaði við fiskvinnslu og afgreiðslustörf þar til hún stofnaði heimili með eiginmanni sínum. Þegar börnin voru ung var hún heima við að mestu. Rósa flutti til Reykjavíkur árið 1974 í kjölfar slyss yngsta drengsins. Hún fljótlega störf í mötuneyti starfsmanna á Hótel Sögu og starfaði þar hátt í 20 ár. Þegar hún lét af störfum þar sakir aldurs naut hún þess að dvelja með börnum og barnabörnum, rækta sambönd við vinkonur sínar og ferðast. Útför Rósu fór fram frá Fossvogskirkju föstudaginn 23. október 2009.

Ástkær móðir okkar er fallin frá. Á kveðjustundinni er söknuðurinn mikill en ljúfar minningar gleðja okkur í sorginni. Líf hennar, eins og svo margra af hennar kynslóð, einkenndist af því að taka ábyrgð á sínum nánustu, mikilli vinnu og dugnaði. Hún byrjaði ung að leggja sitt af mörkum á æskuheimili sínu. Tók þátt í heimilisstörfum, umönnun yngri systkina og vann hjá föður sínum við útgerðina. Alla tíð minntist mamma æsku sinnar með gleði og hlýju. Hún minntist föður sem mátti ekkert aumt sjá, móður sem var svo góð og hlý og kærrar systur og vinar sem féll frá á unglingsaldri. Hún sagði frá lambinu Brúðu sem faðir hennar gaf henni, frá kisunum sem hún og Guðný sóttu á Melbæ, frá jólasveinunum sem réru yfir fjörðinn til þeirra, baðbalanum í eldhúsinu sem tók sinn tíma að fylla og kusunni í kjallaranum sem hún sá um að mjólka. Frásagnir hennar af barnæskunni lifa með okkur og gefa okkur mynd af samfélagi sem einkenndist af hlýju, kærleik og samhjálp.

Mamma kynntist föður okkar í Keflavík árið 1954. Þar hófu þau búskap og eignuðust síðar okkur sjö systkinin. Þau bjuggu okkur fallegt heimili og gerðu sitt besta fyrir okkur. Líf þeirra saman var ekki alltaf dans á rósum en alla tíð elskuðu þau hvort annað. Mamma var mjög söngelsk  og sem ung stúlka söng hún með systur sinni í hljómsveit og síðar meir með Kvennakór Suðurnesja. Heima fyrir söng hún mikið við heimilisverkin og nutum við þess sérstaklega þegar hún söng okkur í svefn á kvöldin.

Mamma hafði yndi af ferðalögum og var skemmtilegur og eftirsóttur ferðafélagi. Hún ferðaðist vítt og breitt um landið sem og til útlanda. Þeir eru óteljandi bíltúrarnir og sumarbústaðaferðirnar sem hún fór í með börnum og barnabörnum. Hún var alla tíð glaðvær, félagslynd og traustur vinur.

Mamma var barngóð og sóttu ömmubörnin mikið til hennar enda voru þau kærkomnir gestir. Mömmu þótti allt svo merkilegt sem börnin sögðu og kom fram við þau af ást og virðingu. Hún hafði alltaf tíma til að spila við þau, segja sögur og syngja. Hún átti stóran sess í lífi þeirra og er söknuður þeirra mikill.

Að leiðarlokum minnumst við móður okkar sem ástríkrar konu sem ól okkur sjö systkinin upp af reisn og myndarskap. Hún var hjálpsöm og sterk og við vissum að við gátum alltaf treyst á hana. Hún var kletturinn okkar og við elskuðum hana, virtum og dáðum. Við þökkum ástkærri móður okkar allt sem hún hefur gert fyrir okkur og geymum hana í hugum okkar og hjörtum að eilífu.

Börnin.