6. nóvember 2009 | Innlendar fréttir | 286 orð

Ísland verði fyrsta umhverfisvottaða land heims

79 milljóna króna kostnaður yrði greiddur úr ríkissjóði

NÁTTÚRUSTOFA Vesturlands hefur varpað fram þeirri hugmynd að Ísland verði fyrsta umhverfisvottaða land heims og myndi það styrkja mjög laskaða ímynd landsins út á við en einnig efla sjálfbæra þróun.
NÁTTÚRUSTOFA Vesturlands hefur varpað fram þeirri hugmynd að Ísland verði fyrsta umhverfisvottaða land heims og myndi það styrkja mjög laskaða ímynd landsins út á við en einnig efla sjálfbæra þróun. Í greinargerð kemur fram að fjögur ár tæki að fá vottun fyrir öll sveitarfélög landsins hjá samtökunum EC3 Global sem hafa umsjón með Green Globe-vottunarkerfinu.

Samtökin EC3 hafa þegar vottað aðila í meira en 50 þjóðlöndum. „Umhverfisvottun alþjóðlega viðurkennds vottunaraðila með þekktu umhverfismerki felur í sér ný og fjölbreytt tækifæri til landkynningar og markaðssetningar, sér í lagi fyrir ferðaþjónustu og framleiðslugreinar,“ segir í greinargerðinni.

Vottunin mun aðeins ná til starfs sveitarfélaganna sjálfra en ekki þess sem einkafyrirtæki eða ríkið fást við á umræddu svæði. Sumt af því sem tekið er inn í vottunina byggist á mælingum á notkun allra íbúanna á auðlindum eins og vatni og orku, einnig losun á úrgangi. Einnig getur talist til tekna að mikið sé af vottuðum fyrirtækjum á svæðinu. Alþjóðaferðamálaráðið og Alþjóðaferðamálasamtökin studdu á sínum tíma Green Globe-hugmyndina árið 1994 en stuðst er við ákveðin lágmarksviðmið um sjálfbæra lífs- og starfshætti á umræddu svæði með vottun óháðra aðila. Úttekt þeirra er sögð tryggja eftirfylgni og traustar upplýsingar um frammistöðu þeirra sem eiga að sjá um að stöðlum sé fylgt, m.a. í tengslum við nýtingu náttúruauðlinda.

Fram kemur að áætlaður kostnaður við Green Globe-vottun fyrir landið allt yrði um 79 milljónir króna og er lagt til að hann greiðist úr ríkissjóði. kjon@mbl.is

Snæfellsnes ríður á vaðið

Stykkishólmsbær, Helgafellssveit, Grundarfjarðarbær, Snæfellsbær og Eyja- og Miklaholtshreppur hlutu Green Globe-vottun í fyrra. Markmiðið er að efla umbætur með því að meta þróun á ýmsum sviðum, m. a. losun gróðurhúsalofttegunda, orkunýtingu, stjórnun ferskvatnsauðlinda, verndun vistkerfa, stjórnun fráveitumála og geymslu og notkun efna sem eru skaðleg umhverfinu.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.