Gísli Gíslason fæddist í Hvammi á Barðaströnd 21. maí 1918. Foreldrar hans voru hjónin Salóme Guðmundsdóttir og Gísli Gíslason er þar bjuggu. Gísli var þriðji í röð sjö barna þeirra hjóna. Af þeim eru á lífi Guðmundur og Gunnar en látin eru systurnar Guðrún og Hákonía, sem voru eldri, og bræðurnir Kristján Pétur og Hjalti. Föður sinn missti Gísli þegar hann var aðeins fimm ára gamall. Móðir hans stóð áfram fyrir búi næsta áratuginn. Gísli var hjá nýjum ábúanda í Hvammi til vors 1934, fór þá í vinnumennsku að Saurbæ á Rauðasandi. Frá Saurbæ kom hann aftur að Hvammi árið 1943, en þá bjuggu þar Hákonía systir hans og maður hennar Karl Sveinsson. Til Tálknafjarðar fluttist hann árið 1961 en aftur að Hvammi í árslok 1965. Frá Hvammi fluttist Gísli síðan alfarið til Patreksfjarðar í árslok 1971 og bjó þar í íbúð sinni að Urðargötu 9 til hausts 2008. Þá var hann fluttur sjúkur á Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði þar sem hann var í góðu yfirlæti uns hann lést 31. október sl.

Fram um 1960 vann Gísli vegavinnu á sumrum og ýmsa vinnu til sveita og við sjávarsíðuna á öðrum árstímum. Hann mun hafa byrjað vegavinnu á Raknadalshlíð í Patreksfirði og hafði ekki misst úr sumar þegar sunnanverðir Vestfirðir tengdust þjóðvegakerfi landsins við Fjarðarhornsá austan Klettsháls. Þá var tekið til við að leggja veg frá Hellu í Vatnsfirði á Barðaströnd upp á Dynjandisheiði. Var Gísli í hópi þeirra vegagerðarmanna sem fögnuðu, ásamt fleirum, tengingu norðanverðra Vestfjarða við þjóðvegakerfið fyrir hálfri öld.Við þjóðveginn upp á Dynjandisheiði skammt fyrir norðan Hellu stendur minnisvarði um vegagerðarmanninn. Kunnugir telja sig þekkja andlitsdrætti Gísla á styttunni. Á Tálknafjarðarárunum vann Gísli mest við fiskverkun. Árin 1966 til 1971 vann hann við saltfiskverkun í Grindavík á vetrum og með símavinnuflokki á sumrum. Eftir að Gísli fluttist til Patreksfjarðar fór hann fljótlega að vinna hjá Áhaldahúsi Patrekshrepps og vann þar til starfsloka.

Útför Gísla fer fram frá Ísafjarðarkirkju í dag, 14. nóvember, og hefst athöfnin kl. 14.

Okkur langar að minnast góðs vinar, Gísla Gíslasonar, sem lést hinn 31. okt. sl., 91 árs að aldri.

Gísli var stórbrotinn persónuleiki, hann var það sem nútíma vísindi myndu sennilega kalla misþroska. Hann eignaðist marga góða vini og fjölda kunningja, en til voru líka einstaklingar sem nýttu sér annmarka hans.

Orðið vinur hafði stóra merkingu í hans huga.

Sumarið 2008 heimsóttum við Gísla á heimili hans á Patreksfirði, þar sat einmana gamall maður í óhrjálegu umhverfi.

Í rúmt ár hafði Gísli átt heima á öldrunardeild Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði. Þar leið honum vel, og þar sáum við aftur þann Gísla sem við þekktum áður, kátan og félagslyndan, með brennandi áhuga á pólitík og íslenskri knattspyrnu.

Fyrir mánuði sagði hann orðrétt „Ég verð hér þann tíma sem mér er ætlaður, ég fékk nú eitt gott ár í lokin“.

Gísli minn, við vitum að þú færð góðar móttökur á nýjum stað.

Afrek þín verða ekki í annálum talin

né upphafið nafn þitt á gullnum

skýjum,

en í hjarta mannsins er fegurðin

falin

fagnað þér verður í heimkynnum

nýjum.

(G.G.)

Farðu vel vinur,

Hrafn og Guðríður.