Höfundurinn Bíður þess að andinn komi aftur yfir hann.
Höfundurinn Bíður þess að andinn komi aftur yfir hann. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ingveldi Geirsdóttur ingveldur@mbl.is ALÞINGISMAÐURINN Guðmundur Steingrímsson sendi nýverið frá sér sína fyrstu barnabók.

Eftir Ingveldi Geirsdóttur

ingveldur@mbl.is

ALÞINGISMAÐURINN Guðmundur Steingrímsson sendi nýverið frá sér sína fyrstu barnabók. Bókin nefnist Svínið Pétur og segir frá nokkrum gráðugum dýrum í Dýrabæ sem eru stórhneyksluð á Pétri svíni sem hefur það bara gott og segir nei við öllum heimsins auðæfum, sama hvað honum er boðið.

„Ég hafði lengi haft það á bak við eyrað að semja barnabók og ekki síst eftir að ég eignaðist börn sjálfur. Andinn kom yfir mig haustið 2007 og þá var sagan um svínið Pétur skrifuð. Ég hafði mikið verið að lesa fyrir barnið mitt Köttinn með höttinn sem er rímuð barnabók, þá kom innblásturinn yfir mig að semja svona rímaða bók og það eiginlega gerðist bara í hendingskasti,“ segir Guðmundur spurður út í tilurð bókarinnar.

Gagnrýnir græðgina

Bókin er skrifuð á hámarkstíma góðærisins og segist Guðmundur hafa verið orðinn smá pirraður á andrúmsloftinu í þjóðfélaginu og komi það fram í bókinni þar sem græðgin er gagnrýnd. „ Svínið Pétur er samin í miðju góðærinu og kveikjan er tvennskonar; mig langaði að semja skemmtilega barnabók og mér fannst þetta ástand í þjóðfélaginu hundleiðinlegt, allt gekk út á peninga, allir áttu að dansa í kringum gullkálfinn, það voru endalaus partí með enga innistæðu eins og kom svo í ljós. Mig langaði að koma öðrum gildum að og það er niðurstaða sögunnar, svínið Pétur heldur sínu striki á meðan hin dýrin fara í rosalegt partí til að sýna svíninu af hverju það er að missa. Þau fá síðan leiða á þessu partístandi og uppgötva að lífið snýst um meira, t.d. að eiga vini,“ segir Guðmundur sem fékk Halldór Baldursson til að myndskreyta bókina.

Almenningsálit svína slæmt

Svínið er oftast notað sem tákn um græðgi en merking þess er þveröfug í bók Guðmundar. „Mér fannst aðalpersónan þurfa að vera svín því það er oft talað svo illa um þau og búið að holdgera græðgina í þeim. Þeirra almenningsálit er líka í lágmarki núna út af svínaflensunni. Ég er einmitt að hugsa hvernig ég get nýtt mér svínaflensuna til að markaðssetja bókina,“ segir Guðmundur kankvís og bætir við: „Þetta er sem sagt hið ógráðuga svín. Fínt svín sem hefur gaman af því að gera grín.“

Ertu svona hagmæltur?

„Það má segja að þessi bók hafi runnið upp úr mér, ég veit eiginlega ekki hvað kom yfir mig þarna í nóvember 2007. Síðan þá hef ég reynt að endurupplifa þessa stemningu en það hefur ekkert komið, ég var andsetinn í einn mánuð en síðan hefur ekkert gerst. Ef andinn kemur aftur yfir mig langar mig til að semja aðra bók um svínið. Hún á að segja frá því þegar svínið Pétur fer í kapphlaup við hin dýrin í kringum Ísland,“ segir Guðmundur sem situr á hinu háa Alþingi um þessar mundir og því kannski nokkuð í að barnabókaandinn komi aftur yfir hann.