Bjarnheiður Hallsdóttir
Bjarnheiður Hallsdóttir
Eftir Bjarnheiði Hallsdóttur: "Ef við tökum árið 2008 sem dæmi, þá liggur fyrir að Þjóðverjar voru okkar verðmætustu gestir."

FORMAÐUR Tannréttingafélags Íslands, Kristín Heimisdóttir, skrifaði greinarkorn í Morgunblaðið, fimmtudaginn 12. nóvember sl. þar sem hún hvetur landsmenn til að horfa til framtíðar og styðja byggingu Ráðstefnu- og tónlistarhúss. Kristín hefur að líkindum nýlega séð ljósið og áttað sig á mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir þjóðarbúið, þar sem líkur eru á að Evrópuþing tannréttingarsérfræðinga verði haldið í Reykjavík árið 2013. Til þess þurfa Kristín og félagar góða ráðstefnuaðstöðu og hvetja því til þess að umrætt hús verði klárað sem fyrst. Það er gott og blessað og hefur komið margoft fram hjá fólki sem vinnur við ferðaþjónustu og skipulag ráðstefna og funda að stærri og betri aðstaða fyrir þessa tegund ferðamennsku yrði greininni til framdráttar. Aðgerðir til að auka þessa ferðamennsku hafa að sjálfsögðu verið töluverðar undanfarin ár og það er meira að segja til sérstök stofnun sem heitir Ráðstefnuskrifstofa Íslands. Stefnumótun í ferðaþjónustu, sem Kristín kallar eftir hófst formlega árið 1996 og er viðvarandi.

En að öðru. Kristín notar þetta tilefni til að sýna einum markhópi íslenskrar ferðaþjónustu ótrúlega lítilsvirðingu, hroka og dónaskap. Til þess að bera saman ráðstefnugesti annars vegar og venjulega „túrista“ hins vegar gerir hún sig seka um að nota áratuga gamlar klisjur og fordóma til að gera lítið úr stærsta, tryggasta og verðmætasta gestahópi okkar, Þjóðverjum. Hún dregur upp óskemmtilega mynd af Þjóðverjum sem sníkjudýrum á Íslandi og íslenskri náttúru, hokrandi í íslenskum hálendiskofum, borðandi gamalt spaghetti, sem þeir að sjálfsögðu komu með að heiman til að forðast útgjöld á ferðalaginu. Nokkru síðar talar Kristín um það að ráðstefnugestir (andstætt Þjóðverjum auðvitað) borgi töluverð ráðstefnugjöld, dvelji á hótelum, borði á veitingahúsum og séu ekki með innflutt pasta í bakpokanum, sem samkvæmt bókum Kristínar er væntanlega að finna í farangri allra Þjóðverja sem hingað koma.

Kristínu og fleirum sem enn burðast með gömlu fordómana og klisjurnar um Þjóðverja langar mig að benda á eftirfarandi: Þjóðverjar hafa frá því að Íslendingar hófu að safna tölfræðiupplýsingum um ferðamennsku til landsins, ávallt trónað í efstu sætum hvað fjölda gesta varðar og oft verið fjölmennasti hópurinn. Ef við tökum árið 2008 sem dæmi, þá liggur fyrir að Þjóðverjar voru okkar verðmætustu gestir. Þetta ár voru þeir næstfjölmennasti hópurinn á eftir Bretum. En ef betur er rýnt í tölfræðina þá kemur í ljós að Þjóðverjar voru miklu verðmætari gestahópur en Bretarnir, þar sem þeir dvöldu hér að jafnaði helmingi lengur (gistu helmingi oftar á hótelum, gistiheimilum og öðrum tegundum gististaða) og hafa þar af leiðandi skilið eftir sig töluvert meiri fjármuni í landinu. Það er nefnilega svo að Þjóðverjar dvelja hér allra þjóða lengst á ferðum sínum um landið og eru oftar en ekki fjölmennasti hópurinn. Að auki eru ferðahættir Þjóðverja með þeim hætti, að þeir ferðast oftast á dýrasta tíma (borga hátt verð) og eiga viðskipti við ferðaþjónustufyrirtæki og önnur fyritæki um allt landið (sem á sjaldnar við um ráðstefnugesti). Flestir Þjóðverjar sem hingað koma leigja sér annað hvort bílaleigubíl eða ferðast í skipulögðum hópferðum, gista á hótelum eða í annarri tegund gistingar, borða og drekka á veitingahúsum, kaupa sér minjagripi og í síauknum mæli aðrar vörur og ýmsa afþreyingu þar að auki. Nýjustu tölur um fjölda gesta til landsins styðja þessa fullyrðingu, en frá janúar til september 2009 hafði þýskum gestum okkar fjölgað um 18% samanborið við árið 2008. Ég hvet Kristínu til að kynna sér betur atvinnuveginn ferðaþjónustu áður en hún skrifar um hann næst. Ég mun allavega kynna mér tannréttingar mjög vel áður en ég fer að tjá mig um þær opinberlega.

Höfundur er ferðamálafræðingur og framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Katla DMI í Reykjavík.