Eftir Skúla Sigurðsson sport@mbl.is Á SÍÐASTA keppnistímabili var heimavöllur Njarðvíkinga komin með viðurnefnið „Kisukassinn“ en í ár hefur hann svo sannarlega endurheimt fyrra viðurnefni sitt, „Ljónagryfjan“.

Eftir Skúla Sigurðsson

sport@mbl.is

Á SÍÐASTA keppnistímabili var heimavöllur Njarðvíkinga komin með viðurnefnið „Kisukassinn“ en í ár hefur hann svo sannarlega endurheimt fyrra viðurnefni sitt, „Ljónagryfjan“. Í gærkvöldi voru það Breiðabliksmenn sem var hent fyrir Ljónin úr Njarðvík og fór fyrir þeim líkt og öðrum sem þangað hafa mætt í vetur, Njarðvík hafði betur, 78:64, og áttu gestirnir úr Kópavogi ekki möguleika að þessu sinni. Njarðvíkingar eru því enn ósigraðir eftir sjö umferðir í Iceland Express-deildinni og tróna á toppnum.

Ekki er hægt að segja að fyrri hálfleikur hafi verið mikið fyrir augað fyrir utan ævintýralegar þriggja stiga körfur undir lok hálfleiksins þegar Magnús Þór Gunnarsson setti eina niður spjaldið ofan í úr þröngu færi. Það voru svo Blikar sem gerðu slíkt hið sama á lengstu tveimur sekúndum sem undirritaður hefur upplifað en þá fór leikklukka hússins ekki í gang og dómarar leiksins dæmdu körfuna gilda. Leikur Njarðvíkurliðsins fínslípast með hverjum leiknum og óhætt er að segja að Njarðvíkurliðið sé til alls líklegt í ár þrátt fyrir að hafa ekki styrkt lið sitt með erlendum leikmanni.

Jonathan Smith, nýr erlendur leikmaður Blika, lenti á Keflavíkurflugvelli í gær og er kannski ekki hægt að leggja dóm á frammistöðu hans eftir þennan leik. Ljósi punkturinn í leik gestanna var ungur leikmaður að nafni Arnar Pétursson sem sýndi á tímum fína takta, en trú liðsins á þessu verkefni var lítil og því fór sem fór.

Hrafn Kristjánsson var hinsvegar ekki sammála því eftir leik. „Ég er verð að vera ósammála því að við höfum ekki haft trú á þessu í kvöld. Við höfum fulla trú á því sem við erum að gera en við vissum að þetta yrði erfitt hér í kvöld. Við erum að ganga í gegnum breytingaskeið hjá mínu liði. Við erum að skipta um leikmenn og okkur vantar klárlega þessa ógn í teignum. Við lentum í villuvandræðum snemma leiks sem setti okkur í þá stöðu að þurfa að spila svæðisvörn mikinn hluta leiksins. Okkur vantaði fleiri leikmenn og fórum því þá leið að fá tvo fyrir einn, þannig að við erum bara að vinna í okkar málum og höldum ótrauðir áfram,“ sagði Hrafn Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks.

Kollegi hans hjá Njarðvík var hinsvegar nokkuð sáttur við sína menn í samtali við Morgunblaðið. „Þetta leit kannski út fyrir að vera bara formsatriði fyrir okkur en það var það alls ekki. Þeir eru búnir að vera í vandræðum með mannskap en þeir spiluðu bara ágætlega. Þrátt sigurinn finnst mér við enn eiga fullt inni. Lítið var skorað og vörn beggja liða var nokkuð fín. Leikurinn var ekkert sérlega glæsilegur en við komum hingað til að vinna í kvöld og gerðum nóg til þess,“ sagði Sigurður nokkuð hógvær um sitt lið.