Ragnheiður Gestsdóttir Miðborg Reykjavíkur er hluti af sögusviði bókar hennar.
Ragnheiður Gestsdóttir Miðborg Reykjavíkur er hluti af sögusviði bókar hennar. — Morgunblaðið/Kristinn
Eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur kolbrun@mbl.is NÝJASTA unglingabók Ragnheiðar Gestsdóttur ber titilinn Hjartsláttur. Söguhetjurnar eru tveir fimmtán ára unglingar sem bera nokkuð kunnugleg nöfn, Tristan og Íris Sól.

Eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur

kolbrun@mbl.is

NÝJASTA unglingabók Ragnheiðar Gestsdóttur ber titilinn Hjartsláttur. Söguhetjurnar eru tveir fimmtán ára unglingar sem bera nokkuð kunnugleg nöfn, Tristan og Íris Sól. Nöfnin vísa vitanlega til riddarasögunnar frægu um Tristram og Ísold sem ekki var skapað nema að skilja. „Þetta er ástarsaga,“ segir Ragnheiður. „Tristan og Íris Sól verða ástfangin en vita að fullorðnir líta ekki á ástir unglinga sem varanlegar og því er yfirleitt ekki tekið mikið mark á þeim. Þótt oft sé talað um æskuna og bernskuna sem hið frjálsa tímabil þá er maður aldrei ófrjálsari en einmitt þá og á allt sitt undir duttlungum fullorðna fólksins. Það er ákveðin tenging í sögunni við hina gömlu sögu um Tristram og Ísold og þau Tristan og Íris Sól komast að því að vegur ástarinnar er ekki alltaf rennisléttur. Þegar ýmislegt bendir til að unglingarnir muni þurfa að skilja grípa þau til sinna ráða, en ég ætla ekki að láta uppi hvað þau gera. Lesendur komast að því við lestur sögunnar.“

Búsáhaldabylting í bakgrunni

Þetta er unglingasaga, fer ekki örugglega allt vel að lokum?

„Mér finnst ekki hægt að skrifa barna- og unglingabækur sem hafa beinlínis sorglegan endi. Aftur á móti er ég lítið fyrir Hollywood-endi þar sem allt fellur í ljúfa löð. Það má segja að í sögulok séu ýmsar leiðir opnar eins og oftast er í lífinu sjálfu og lesandinn getur reynt að ráða í hvað muni gerast.“

Það er minnst á búsáhaldabyltinguna í bókinni. Ertu að koma einhvers konar pólitískum skilaboð að?

„Búsáhaldabyltingin er ekki aðalatriði í þessari sögu nema að því marki að þeir atburðir sem settu þjóðfélagið á annan endann valda erfiðleikum sem persónurnar þurfa að takast á við. Andrúmsloftið sem þá ríkti, sá hjartsláttur sem heyrðist í áslættinum á potta og pönnur, er eins konar bakgrunnstónlist, en hjartsláttur elskendanna ungu skiptir mestu máli.“

Með annan fótinn í fortíðinni

Ætlarðu að skrifa framhaldsbók um Tristan og Íris Sól?

„Ég er ekki mikið fyrir að skrifa framhald. Bókaútgefendur eru mjög gefnir fyrir framhaldsbækur en ég hef leyft bókunum mínum að standa einum og sér. Eftir útkomu bókar minnar 40 vikur fékk ég yndislegt bréf frá ungri stúlku sem sagði: „Ég verð að fá að vita hvernig gengur með hana Sólrúnu litlu.“ Fyrir henni voru persónurnar orðnar raunverulegar, búnar að öðlast líf utan bókarinnar. Ég skrifaði henni og sagði að hún yrði sjálf að ráða því hvernig þeim gengi.“

Ragnheiður hefur oft í verkum sínum sótt í gamlan og þjóðlegan arf, endursagt og myndskreytt íslensk ævintýri og bækur hennar með þekktum barnasöngvum hafa notið mikilla vinsælda. Af hverju heillast hún svo af hinum gamla menningararfi? „Ætli það þurfi ekki góðan bókmenntafræðing til að greina af hverju ég er alltaf með annan fótinn í fortíðinni? Ég ólst upp við ævintýri og fékk þau í æð á fyrstu árunum því amma mín sagði mér þau. Ævintýri eru fagrar perlur sem hafa slípast til á ákaflega löngum tíma og eru óþrjótandi brunnur visku um mannlegt eðli. Ég hef sótt í þennan arf okkar Íslendinga á ýmsa vegu, bæði endursagt ævintýri og sótt í ljóðaarfinn. Mér finnst að það þurfi að gera þennan fjársjóð aðgengilegan fyrir nútímabörn og svo getur hann líka tengst nútímanum og orðið uppspretta að einhverju nýju. Það er þetta hvort tveggja sem ég er að reyna að gera.“

Verðlaunahöfundur

Ragnheiður Gestsdóttir er fædd 1953. Árið 2000 hreppti hún Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir skáldsöguna Leikur á borði . Hún hlaut Barnabókaverðlaun fræðsluráðs fyrir unglingasöguna 40 vikur árið 2001 og sömu verðlaun þremur árum síðar fyrir sögu sína Sverðberann . Ragnheiður hlaut síðan Norrænu barnabókaverðlaunin árið 2004 fyrir Sverðberann .