Metúsalem Björnsson fæddist á Svínabökkum í Vopnafirði 3. ágúst 1935. Hann andaðist á Hjúkrunarheimilinu Eir laugardaginn 21. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Björn Vigfús Metúsalemsson, f. 29. maí 1894, d. 2. desember 1953, og Ólafía S. Einarsdóttir, f. 22. ágúst 1899, d. 30. mars 1990. Systkini Metúsalems eru Halldór, f. 1930, d. 2003, bóndi í Engihlíð, Arnþór, f. 1931, fyrrv. hótelstjóri í Reynihlíð, nú búsettur á Akureyri, Sigurður, f. 1932, bóndi í Háteigi, Einar Magnús, f. 1937, d. 1978, bóndi á Svínabökkum, Guðlaug, f. 1939, læknaritari, og Þórarinn, f. 1945, vélvirki í Hafnarfirði. Hinn 29. desember 1963 kvæntist Metúsalem Guðrúnu Þorbergsdóttur. Hún fæddist í Hraunbæ í Álftaveri 25. mars 1941 og lést í Reykjavík 17. mars 1997. Foreldrar hennar voru Þorbergur Bjarnason og Guðlaug Marta Gísladóttir. Metúsalem og Guðrún bjuggu lengst af í Árbænum. Þau eignuðust þrjú börn. 1) Linda, f. 31.8. 1963, maður hennar er Sigurður Örn Sigurðsson og synir þeirra eru: Sigurður Atli, f. 31.3. 1988, í sambúð með Elvu Dögg Brynjarsdóttur, Arnar, f. 3.10. 1991, og Daníel, f. 5.6. 1997. 2) Birna, f. 22.3. 1967, hennar maður er Guðmundur Erlendsson, dætur þeirra eru; Guðrún Helga, f. 17.1. 1992, og Alexandra Björk, f. 4.2. 1998. 3) Björn Vigfús, f. 15.10. 1974, sambýliskona hans er Sjöfn Gunnarsdóttir, börn þeirra eru Dagur Örn, f. 13.2. 2005, og Sunna, f. 15.9. 2009. Fyrir átti Björn soninn Metúsalem, f. 24.5. 1995. Metúsalem ólst upp á Svínabökkum í foreldrahúsum á stóru heimili. Hann lauk landsprófi frá Laugum 1955 og fór til Reykjavíkur um haustið til að nema húsasmíði. Hann vann við húsasmíði í Reykjavík, lærði hjá Braga Sigurbergssyni meistara sínum og lauk sveinsprófi 1961. Metúsalem fór til Danmerkur og starfaði þar um skeið á trésmíðaverkstæði á árunum 1961-1962. Hinn 8. júní 1965 lauk hann meistaraprófi í húsasmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík. Eftir það starfaði hann sjálfstætt í greininni sem atvinnurekandi og í samvinnu við aðra. Útför Metúsalems verður gerð frá Árbæjarkirkju í dag, 27. nóvember, og hefst athöfnin kl. 11.

Í dag kveðjum við kæran bróður minn eftir áralöng veikindi.  Það er margs að minnast á þeim 70 árum sem við höfum orðið samferða í þessum heimi og ég mun alltaf minnast bróður míns með þakklæti og virðingu.  Þegar við vorum að alast upp austur á Vopnafirði þá var hann bara eldri bróðir sem mér fannst ágætur en þegar við urðum fullorðin þá varð mér ljóst  hve mikill mannkostamaður hann var.  Hann var prýðilega greindur og vel að sér, vel lesinn og hafði áhuga á því sem var að gerast í samfélaginu.  Hann var harðduglegur og góður iðnaðarmaður sem hafði það að leiðarljósi að gera hlutina alltaf sem best en hafði ekki mörg orð um vinnu sína og framkvæmdir.  En hans stærsti kostur var líklega sá hve heiðarlegur hann var; það þurfti ekki neitt skriflegt því hans orð stóðu.

Metúsalem var mikið í mun að búa vel að fjölskyldu sinni og voru þau hjón Guðrún og hann samhent um það.  Á þeirra heimili vorum við alltaf velkomin og á Ísafjarðarárum okkar var það eins og fastur punktur í tilverunni að geta fengið að búa hjá þeim þegar við þurftum að fara til Reykjavíkur, alltaf var það sjálfsagt og við jafn velkomin hvenær sem var.  Þau hjónin voru einstaklega gestrisin og á þeirra myndarlega heimili áttum við alltaf griðastað.  Það voru ekki bara við, heldur átti það við um fleiri og alltaf sama rausnin og myndarskapurinn. Okkur fannst lífið fara um fjölskylduna ómjúkum höndum þegar Guðrún greindist með MS og í hönd fóru erfiðir tímar vegna vekinda hennar sem stóðu um árabil eða þar til hún lést langt um aldur fram.  En Metúsalem var líka gefið mikið og þá á ég við börnin hans sem öll eru mikið mannkostafólk og barnabörnin sem veittu honum ómælda gleði.  Þegar þessi illvígi sjúkdómur Alzheimer fór að herja á bróður minn er aðeins hægt að lýsa því með þessum ljóðlínum eftir T.F. Bengtson:

Þú hvarfst
Þér sjálfum og okkur
hvarfst
inn í höfuð þitt
dyr eftir dyr luktust
og gátu ei opnast á ný.
/

Þú leiðst
hægt á brott
gegnum opnar bakdyr
bústaður sálarinnar
er hér enn
en stendur auður
sál þín er frjáls
---.

Elsku bróðir og vinur okkar, takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur.  Það er mikils virði að eiga minningar um slíkan sómamann.

Guðlaug systir og Rúrik.