Ben Frost Fær ekki dvalarleyfi.
Ben Frost Fær ekki dvalarleyfi. — Morgunblaðið/Kristinn
„ÞETTA er satt, mér hefur verið neitað um framlengingu á landvistarleyfi,“ segir tónlistarmaðurinn Ben Frost, spurður að því hvort satt sé að verið sé að vísa honum úr landi.
„ÞETTA er satt, mér hefur verið neitað um framlengingu á landvistarleyfi,“ segir tónlistarmaðurinn Ben Frost, spurður að því hvort satt sé að verið sé að vísa honum úr landi. Ben er frá Ástralíu, hefur búið hér á landi í fjögur og hálft ár og segist líta á sig sem Íslending.

„Ég á hús á Íslandi, ég á barn, unnustu og fyrirtæki sem er íslenskt, ég borga skatta af minni vinnu sem er 99% mín eigin sköpun, það er ekki eins og ég sé að taka vinnuna frá einhverjum,“ segir Ben sem talar reiprennandi íslensku. „Ástæðan sem ég fæ frá Útlendingastofnun er að ég fékk ekki næg laun fyrsta 1 og ½ árið sem ég var á Íslandi. Útlendingalögin eru sniðin að verkamönnum sem eru að koma hingað til að vinna fyrir stórfyrirtæki. Kerfið hentar ekki fyrir sjálfstætt fólk eins og mig. Fyrsta árið mitt á Íslandi var ég að koma mér áfram sem listamaður og launin voru auðvitað lág. Þeir horfa bara á tekjur mínar þessa fyrstu mánuði á landinu, skiptir engu máli þó sagan sé önnur í dag. Þetta er bara svarthvítt, þeir segja við mig að ég sé undir lágmarkslaunum, punktur.“ Ben á og rekur hljóðverið Gróðurhúsið ásamt Valgeiri Sigurðssyni og sendi nýverið frá sér plötuna By the Throat sem er öll unnin hér. Hann segir engu máli skipta í þessu samhengi að hann sé virtur tónlistarmaður hérlendis sem erlendis og kynni íslenska menningu utan landsteinanna.

Beið í hálft ár eftir svari

„Málið snýst um útlendingalög- gjöfina á Íslandi. Ég er menntaður maður, tala fullkomna ensku og nálægt fullkomna íslensku og þetta er erfitt fyrir mig. Ég get ekki ímyndað mér hvernig þetta er fyrir einhvern sem getur ekki tjáð sig eins og ég. Það er líka erfitt að fá að tala við Útlendingastofnun, t.d. er bara svarað fyrirspurnum um vandamál tengd framlengingu á dvalarleyfi milli kl. 9 og 12 á þriðjudögum. Þrjá tíma, einu sinni í viku getur maður fengið að tala við einhvern sem veit eitthvað. Það tók þá líka nálægt sex mánuðum að svara umsókn minni um ótímabundið dvalarleyfi, ég sendi umsóknina inn í maí og fékk svar um miðjan nóvember,“ segir Ben. Hann leitaði strax aðstoðar lögfræðings Alþjóðahúss og hefur kært synjun á dvalarleyfinu. „Ég er búinn að reyna að gera allt rétt en það er ekki nóg, kannski er betra að fara einhverja íslenska mafíuleið, tala við vin sem þekkir vin. Ég skil ekki afhverju þetta er svona einfalt fyrir Bobby Fischer eða þá sem hafa tengsl við stjórnmálamenn en svona flókið fyrir mig, ég vil bara fá fund með Jóhönnu og ljúka þessu máli,“ segir Ben að lokum.

ingveldur@mbl.is