Örbók Elísabet Jökulsdóttir tekur við fyrsta eintakinu af bók sinni úr hendi Friðriks Friðrikssonar hjá Prentmeti að viðstöddum Zizou og Keano.
Örbók Elísabet Jökulsdóttir tekur við fyrsta eintakinu af bók sinni úr hendi Friðriks Friðrikssonar hjá Prentmeti að viðstöddum Zizou og Keano. — Morgunblaðið/Ómar
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.

Eftir Silju Björk Huldudóttur

silja@mbl.is

„ÉG held stundum að ég hafi svo mikið utangarðselement í mér að ég vilji standa utan við allt, en svo fann ég að mig langaði að vera með í jólabókaflóðinu og þessari stemningu sem fylgir því að vera með bók fyrir jólin. Því þótt þessi stemning geti verið geggjuð er hún líka ljúf og skemmtileg,“ segir Elísabet Jökulsdóttir rithöfundur. Hún ákvað með aðeins tíu daga fyrirvara að gefa út bók fyrir jólin. Bókin nefnist Bænahús Ellu Stínu, er í örsmáu broti og inniheldur bænir og þakkargjörðir. „Þetta er erfiðasta verkefnið sem ég hef tekist á við. Því þótt þetta sé bara lítil bók er Guð svo óendanlega stór,“ segir Elísabet og tekur fram að auðmýktin hafi verið lykillinn að bænaskrifunum.

Að sögn Elísabetar var stór hluti bókarinnar skrifaður sumarið 2008, en lokahönd lagði hún á bókina fyrr í þessum mánuði. Segir hún bænirnar hafa byrjað að flögra í kringum sig líkt og fiðrildi en síðan hafi komið flaumur af bænum. „Fyrst hafði ég ákveðnar efasemdir um það að mér væri heimilt að gefa út bænabók, en þegar ég sá hönnun Jóns Óskars á bókinni sannfærðist ég um að þetta væri í lagi.“

Elísabet mun kynna bókina með lúðrablæstri fyrir utan Melabúðina í dag kl. 17 og selja hana í búðinni fram að jólum milli kl. 17 og 19. Jafnframt mun hún lesa upp úr bókinni í Fornbókabúð Braga Kristjónssonar nk. föstudag kl. 16.

Úr Bænahúsi Ellu Stínu

„Þegar ég kom gangandi heim að húsinu mínu í dag sá ég að það hafði breyst í bænahús, og að það hafði verið bænahús allan tímann, þetta var bara dagurinn sem ég sá það. Og ég fór að hugsa um allt sem ég hef gert í húsinu í tuttugu ár, vaskað upp, sópað gólfin, ryksugað, þvegið gluggana, strokið af dyrakörmum, skipt um sængurfötin, allt þetta eru bænir einsog til að staðfesta líf mitt til dýrðar guði.“