Sigurður Loftsson
Sigurður Loftsson
Eftir Sigurð Loftsson: "Í álitinu er á köflum hallað mjög réttu máli þegar kemur að umhverfi mjólkurframleiðslunnar og stöðu hennar gagnvart búvörulögum"

Fimmtudaginn 10. desember sl. birti Samkeppniseftirlitið álit um samruna Kaupfélags Skagfirðinga svf. og Mjólku ehf. undir yfirskriftinni „Skaðleg samþjöppun í mjólkuriðnaði og áhrif búvörulaga á samkeppni“. Í sjálfu sér er það umhugsunarefni, hvað kemur opinberri eftirlitsstofnun til að máta starfsemi einstakra fyrirtækja að markmiðum laga sem þau heyra ekki undir, eins og gert er í umræddu áliti. Það er þó ekki tilefni þessarar greinar heldur hitt að í álitinu er á köflum hallað mjög réttu máli þegar kemur að umhverfi mjólkurframleiðslunnar og stöðu hennar gagnvart búvörulögum.

Rétt er að minna á að allt starfsumhverfi mjólkurframleiðslunar byggir á lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum (búvörulögum), þar sem römmuð eru inn réttindi og skyldur þeirra er málið varðar. Samningur bænda við ríkisvaldið um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunar er m.a. reistur á grunni þessara laga, sem og rekstraumhverfi mjólkuriðnaðarins. Árlega er gefið út heildargreiðslumark vegna mjólkurframleiðslu sem byggir á áætlaðri sölu komandi árs. Tryggir það framleiðendum fullt verð og aðgang að markaði fyrir sína framleiðslu, innan greiðslumarksins, hvar á landinu sem bú þeirra standa.

Sameining mjólkuriðnaðar

Gríðarleg hagræðing hefur náðst fram í íslenskum mjólkuriðnaði síðustu ár með sameiningu og sérhæfingu vinnslustöðva. Þó þessar aðgerðir hafi orðið til m.a. fyrir tilverknað heimilda búvörulaga, fer fjarri að þær séu einsdæmi í heimi mjólkuriðnaðarins. Nærtækt er að nefna sameiningu MD Foods í Danmörku og Arla í Svíþjóð fyrir um áratug, sem og samruna hollensku mjólkurrisanna Friesland og Campina nýlega. Eins má geta þess að á Nýja Sjálandi fer 95% allrar mjólkurvinnslu í gegn um eitt fyrirtæki, Fonterra. Þessi fyrirtæki vinna hvert um sig 80-150 sinnum meira mjólkurmagn en íslenskur mjólkuriðnaður.

Fróðlegt er í þessu ljósi að skoða hver þróunin hefur verið hér síðustu ár. Frá árinu 2004 hafa beingreiðslur ríkissjóðs til bænda lækkað umtalsvert, samhliða gríðarlegum hækkunum á öllum aðföngum mjólkurframleiðenda. Þetta leiddi af sér að óhjákvæmilegt var að leiðrétta mjólkurverð til bænda ef ekki átti illa að fara. Frá því í janúar 2006 til október 2009 hækkaði því afurðastöðvaverð til bænda vegna þessa um 57%. Á sama tímabili lækkaði vinnslukostnaður mjólkur um 34% að raungildi og skilaði það sér í 17% raunlækkun á heildsöluverði mjólkurvara. Engum vafa er undirorpið að þessi árangur náðist vegna rekstarhagræðingar í mjólkuiðnaði sem framkvæmd var í skjóli búvörulaga.

Í áliti Samkeppniseftirlitsins kemur fram sú fullyrðing „að virk samkeppni sé ávallt skilvirkasta aðferðin til þess að stuðla að hagkvæmum rekstri og auka samkeppnishæfni fyrirtækja“. Eins má skilja á álitinu að sameining mjólkuiðnaðarins hafi leitt af sér lakari kjör bæði fyrir bændur og neytendur. Eðlilegt er að gera þá kröfu að Samkeppniseftirlitið styði þetta álit sitt tölulegum rökum, sem þá sýni sambærilegan eða betri árangur en að framan greinir bæði fyrir neytendur og bændur. Að öðrum kosti verður að líta svo á að einungis sé um hagfræðilegar trúarsetningar að ræða.

Mjólk utan greiðslumarks

Í áliti Samkeppniseftirlitsins kemur einnig fram að tilkoma Mjólku hafi leitt af sér hærra verð fyrir mjólk framleidda utan greiðslumarks. Hinsvegar kemur ekki fram að á þessum tíma urðu samliggjandi ástæður, annars vegar verulega aukin neysla og hinsvegar minnkandi framleiðsla, til þess að birgðastaða mjólkuiðnaðarins var á þessum tíma orðin óþægilega lítil. Samtímis voru uppi talsverðar væntingar um að verðmætir markaðir væru að opnast erlendis fyrir íslenskar mjólkurvörur. Þetta leiddi síðan af sér að á tímabili var öll mjólk sem skilað var í afurðastöð greidd fullu verði. Þessar aðstæður allar eru nú mjög breyttar.

Verðlagning mjólkur

Undir lok álitsins er síðan undarleg klausa þar sem látið er að því liggja að sameining Mjólku við Kaupfélag Skagfirðinga séu svo alvarleg tíðindi, að nærri láti að allar varnir íslenskra neytenda séu brunnar til grunna. Ekkert er þó fjær sanni og í raun hefur ekkert breyst. Verðlagsnefnd búvöru sem m.a. hefur á að skipa fulltrúum ASÍ og BSRB ákveður heildsöluverð flestra mikilvægustu vöruflokka mjólkuafurða og lágmarksverð til bænda. Eins ákveður Verðlagsnefnd verð „mjólkur í lausu máli“ sem svo er kölluð og er MS skylt að selja hana á því verði hverjum þeim er óskar til vinnslu mjólkurafurða á innanlandsmarkaði. Á það t.d. við um Vífilfell hf. sem framleiðir kókómjólk og Bio-bú sem framleiðir lífrænar mjólkurafurðir. Ekkert í lagaumhverfinu stendur því í vegi þeirra sem vilja fjölga valkostum á markaði með mjólkurvörur.

Það er ekki síður mikilvægt íslensku samfélagi nú en áður, að hafa á að skipa öflugum eftirlitsstofnunum til að tryggja eðlilega samkeppni og viðskiptahætti. Slíkar stofnanir eru hinsvegar gagnslausar njóti þær ekki almenns trausts í samfélaginu. Því verður að gera þá kröfu að þær hagi vinnubrögðum sínum þannig að svo megi verða.

Höfundur er formaður Landssambands kúabænda.