FASTEIGNASALAN Eignamiðlun auglýsir í dag nýuppgert hús við Grandagarð 8 í Örfirisey til sölu. Sverrir Kristinsson, framkvæmdastjóri fasteignasölunnar, segir ekki mikið af góðu atvinnuhúsnæði á lausu á höfuðborgarsvæðinu og því sé þetta svolítið sérstakt.
Eignin er um 4.000 fermetrar á fjórum hæðum og er Eignamiðlun með um 80% hennar til sölu eða þann hluta sem fyrirtækið CCP hf. er með á langtímaleigu. Sverrir segir það ekki hafa breyst að gott verð fáist fyrir góðar eignir á góðum stað, góð sala hafi verið í atvinnuhúsnæði hjá Eignamiðlun að undanförnu og óskað sé eftir tilboðum í Grandagarð 8.