Varist Hlynur Bæringsson reynir að verjast háloftafuglinum Semaj Inge.
Varist Hlynur Bæringsson reynir að verjast háloftafuglinum Semaj Inge. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÍSLANDSMEISTARAR KR í körfuknattleik karla tylltu sér í toppsæti Iceland Express deildarinnar með sigri á Snæfelli í Frostaskjólinu í gærkvöldi 97:91. Leikurinn var sá fyrsti í 11. umferð mótsins og því geta Stjarnan og Njarðvík náð KR-ingum að stigum. Þau hafa 16 stig en KR-ingar 18.

Eftir Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Það bar helst til tíðinda í vesturbænum í gærkvöldi að Bandaríkjamaðurinn Tommy Johnson hrökk í gang hjá KR svo um munaði. Kappinn hefur verið gagnrýndur nokkuð fyrir frammistöðu sína á leiktíðinni en hann var sjóðandi heitur gegn Snæfelli. Skoraði 39 stig og setti niður 10 þriggja stiga skot í 16 tilraunum.

„Ég velti gagnrýninni ekki of mikið fyrir mér. Ég reyni að einbeita mér að mínum leik og gera eins vel og ég get. Ég geri mér grein fyrir því að frammistaða mín hefur ekki verið í takti við þær væntingar sem gerðar voru til mín. Sérstaklega þar sem ég var í meistaraliði með Keflavík. Ég hef skilning á því og reyni bara að leggja hart að mér á milli leikja. Ég vissi að minn leikur myndi smella saman fyrr eða síðar,“ sagði Johnson í samtali við Morgunblaðið að leiknum loknum en hann gerði 29 stig gegn Keflavík á dögunum og virðist vera kominn í gang. Johnson er bjartsýnn fyrir seinni hluta tímabilsins. „Já að sjálfsögðu. Við höfum unnið tvö mjög sterk lið að undanförnu. Við hikstuðum aðeins snemma á leiktíðinni en höfum verið að sækja í okkur veðrið. Við erum fullir eftirvæntingar fyrir síðari hluta mótsins og ég er sannfærður um að við verðum sterkir í lok tímabilsins.“

Snæfell saknaði tveggja reynslumikilla leikmanna í gærkvöldi en þeir Sigurður Þorvaldsson og Pálmi Freyr Sigurgeirsson eru hvorugur leikfær vegna meiðsla. Sigurður glímir við hnémeiðsli og Pálmi er með brjósklos. Þeir eru tveir af helstu skyttum liðsins og því var á brattann að sækja fyrir Hólmara að þessu sinni.„Það er bullandi reynsla í þessum leikmönnum og það vantar kannski líka smá sjálfstraust í hópinn þegar við getum ekki stillt upp fullmönnuðu liði. Ég hefði viljað sjá mína menn aðeins grimmari og sérstaklega þá sem fengu tækifæri í kvöld,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells við Morgunblaðið. Ingi Þór er KR-ingur inn að beini og þjálfaði meistaralið félagsins á síðustu leiktíð ásamt Benedikt Guðmundssyni. Ingi hefur væntanlega viljað snúa aftur í DHL-höllina með meiri látum en raunin varð? „Já en ég held samt að við höfum sýnt góða baráttu. Úrslitin voru aldrei ráðin fyrr en flautað var af, alla vega ekki í okkar augum. Við vissum að það skipti líka máli að ná muninum niður ef innbyrðisviðureignir telja í lok deildakeppninnar. Þá eru sex stig ekki mikið,“ sagði Ingi og segist þokkalega sáttur við stöðu liðsins á þessum tímapunkti.„Við erum alveg þokkalega sáttir. Við höfum aðeins stillt upp fullmönnuðu liði í einum leik. Við eigum því eftir að slípa okkur saman sem lið. Það eru mjög margir ljósir punktar í þessu og Hlynur Bæringsson er að spila alveg frábærlega.“

„Verður einstök lífsreynsla“

ÍSLANDSMEISTARAR KR í körfuknattleik karla halda í dag upp í ævintýraferð á framandi slóðir í Kína. KR-ingar þáðu boð kínverska atvinnumannaliðsins Beijing Aoshen um að koma og leika tvo góðgerðarleiki gegn liðinu í borginni Chengdu. Ágóðinn mun renna til þeirra sem eiga um sárt að binda á jarðskjálftasvæðunum í Sichuan-héraði.

„Boðið kom til í gegnum bandarískan umboðsmann sem þekkir Benedikt Guðmundsson og vissi að KR hefði orðið Íslandsmeistari. Hann sendi okkur fyrirspurn um hvort við hefðum áhuga á að taka þátt í þessu,“ sagði Atli Einarsson, stjórnarmaður í körfuknattleiksdeild KR, þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gærkvöldi. KR ber engan kostnað af ferð sinni og þar á bæ eru menn fullir tilhlökkunar.

„Þetta er frábært tækifæri og einstök lífsreynsla að fá að fara til Kína til þess að keppa fyrir KR. Ég held að það myndu margir þiggja þetta boð,“ sagði Atli en nokkur lið hafa þegið slíkt boð í haust og er KR þriðja liðið á Norðurlöndunum sem fer til Chengdu. KR mun spila tvo leiki gegn Aoshen-liðinu um helgina. Leikirnir fara fram klukkan sjö að morgni laugardags og sunnudags að íslenskum tíma. KR-ingar eru stórhuga og stefna að því að sjónvarpa leikjunum í gegnum vefsíðu sína, www.kr.is.

Atli segir flest benda til þess að andstæðingarnir séu mjög öflugir. „Bakhjarl liðsins er mjög efnaður og hefur fært liðið á milli Kína og Bandaríkjanna en þar leika þeir í deild fyrir neðan NBA. Í liðinu eru þrír Bandaríkjamenn. Þeir unnu dönsku meistarana og sænskt lið frá Uppsala með töluverðum mun á dögunum. Um 2.500 manns sáu þá leiki en þeim var auk þess sjónvarpað,“ sagði Atli ennfremur. kris@mbl.is

KR – Snæfell 97:91

DHL-höllin, úrvalsdeild karla, Iceland Express deildin, þriðjudaginn 15. des 2009.

Gangur leiksins : 3:0, 11:8, 17:12, 25:19 , 36:22, 50:29, 53:39 , 57:47, 61:52, 76:62 , 83:66, 90:75, 92:79, 97:91 .

Stig KR : Tommy Johnson 39, Fannar Ólafsson 14, Brynjar Björnsson 13, Finnur Magnússon 13, Semaj Inge 11, Skarphéðinn Ingason 5, Darri Hilmarsson 2.

Fráköst : 21 í vörn – 11 í sókn.

Stig Snæfells : Hlynur Bæringsson 27, Sean Burton 22, Jón Ólafur Jónsson 18, Emil Jóhannsson 13, Sveinn Davíðsson 6, Egill Egilsson 3, Páll Helgason 2.

Fráköst : 19 í vörn – 8 í sókn.

Villur : KR 22 – Snæfell 15.

Dómarar : Sigmundur Herbertsson og Jón Guðmundsson. Ágætir.

Áhorfendur : Tæplega 500.