Félagar Óskar, til vinstri, og Björgvin.
Félagar Óskar, til vinstri, og Björgvin. — Morgunblaðið/Golli
Eftir Sigurð Boga Sævarsson sbs@mbl.is „EKKI er nóg að söngvari hafi mikla og háa rödd heldur þarf hann líka að beita henni af smekkvísi og móta þannig hvert lag og gefa því sinn eigin blæ,“ segir Björgvin Þ.

Eftir Sigurð Boga Sævarsson

sbs@mbl.is

„EKKI er nóg að söngvari hafi mikla og háa rödd heldur þarf hann líka að beita henni af smekkvísi og móta þannig hvert lag og gefa því sinn eigin blæ,“ segir Björgvin Þ. Valdimarsson tónskáld sem á dögunum sendi frá sér geisladiskinn Allt sem þú ert . Lögin eru öll eftir Björgvin sem nú sem oft áður hefur leitað til söngvarans að norðan, Óskars Péturssonar, sem er einn Álftagerðisbræðra úr Skagafirði. Aðrir söngvarar eru Björgvin Halldórsson, Guðrún Gunnarsdóttir og Guðjón Davíð Karlsson. Þrettán lög eru á geisladiskinum en í tímans rás rás hefur Björgvin samið lög af ýmsu tagi, og grípandi lög jafnt sem erfiðari verk.

„Eitt lag á diskinum gengur hér á heimilinu undir nafninu Eurovision-lagið. Það kom þannig til að við fjölskyldan vorum að horfa á Eurovision-keppnina eitt vorið í sjónvarpinu og mér varð að orði að lögin þetta árið væru ansi léleg. Dætur mínar svöruðu mér um hæl og sögðu mér þá að semja betra lag sjálfur. Ég tók þær á orðinu, settist við píanóið og samdi lag, sem í dag er titilag disksins og heitir „Allt sem ég er“. Þetta lag syngur Björgvin Halldórsson ásamt Óskari og fara þeir báðir á kostum. Á diskinum eru einnig eldri og þekktari lög eins og „Mamma“ og „Maríukvæði“. Það er alltaf gaman að finna nýja fleti á eldri lögum og þess vegna fékk ég til samstarfs við mig tónlistarmanninn snjalla Karl Olgeirsson sem útsetti lögin og sá einnig um upptökur.“

Textarnir og ljóðin á þessum geisladisk sem Björgvin hefur samið lög við eru eftir ýmsa höfunda, bæði lítt þekkta samtíðarmenn sem þjóðskáldin Davíð Stefánsson frá Fagraskógi og Sigurbjörn Einarsson biskup.

„Ég legg mikið upp úr því að textarnir séu góðir og vel ortir. Ekki sakar ef þeir hafa einhverja sögu á bak við sig, eins og texti Sigurbjörns Mig dreymdi mikinn draum, en þetta ljóð byggir hann á sögunni Sporin í sandinum sem fræg er,“ segir Selfyssingurinn Björgvin, sem að aðalstarfi er tónlistarkennari og kórstjóri í Reykjavík.