Ingi Steinar Gunnlaugsson orti á skammdegisrölti:
Mjúkum skrefum
í morgunhúmi
fer maður um strönd
Á Caymaneyjum
eru krónur að nema
kostalönd
Í Atlantshafi
er Ísland að snúast
upp á rönd
Pétur Stefánsson orti sléttubönd:
Snjallir þegnar hafa hér
hamrað steðjann ljóða.
Allir saman viljum vér
virðing öðlast góða.
Davíð Hjálmar Haraldsson bregður á leik í limru:
Allt til að fjúka var fokið,
svo fádæma mikið var rokið
að Helga í Mó
hóstaði og dó
því að stormurinn stíflaði kokið.
Ísleifur Gíslason orti á sínum tíma um rokið á Fróni:
Voga skefur vindakast
virðar trefil brúka.
Það er án efa þéttingshvasst
þegar refir fjúka.
Loks Friðrik Steingrímsson:
Hún Guðfinna litla frá Lundi
var lausgyrt, og það vissi Mundi.
Hann þorð'ekki neitt,
en þráði það eitt,
að serð'an'á safnaðarfundi.